Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:19:55 (6613)


[00:19]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað í andsvörum við ræðu hæstv. ráðherra þakka honum fyrir mjög hugljúfa ræðu og að lýsa yfir þessum góða vilja. En ég vil einnig taka undir þá skoðun þeirra þingmanna sem hér hafa talað að það er ekki nóg að hafa þennan góða vilja og þessa hugsun sem hefur svo oft komið fram í umfjöllun um frv. í nefndinni þegar við erum að fjalla um það. Þá hafa skýringarnar við einstaka lagagreinar oft verið þær að þetta sé ekki hugsunin á bak við þessa frumvarpsgrein Við hugsum ekki þetta.
    Í ræðu minni hér í dag kom ég með ákveðnar spurningar, allar málefnalegar, út frá efnisatriðum þessa frv. og þeirra brtt. sem hér eru og sýndi fram á hvernig hægt er að hártoga þessar greinar fram og til baka. Hæstv. ráðherra svaraði ekki einni einustu spurningu og ég gat ekki heyrt að hann veitti í raun og veru svör við neinum þeirra spurninga sem hafa komið fram hér í umræðunni, lýsti aðeins yfir þessum góða vilja sínum, sem ég efast ekki um að er til staðar. Ég efast ekkert um það. En það er þá kominn tími til að hann fari með réttu lagi inn í lagagreinar eða frumvarpsgreinar en ekki eitthvert annað.