Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:22:02 (6614)


[00:22]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það hvarflaði að mér að spyrja eftir því hvað tímanum liði. Klukkan nálgast hálfeitt. Hér er því stundum haldið fram á Alþingi að ráðherrar séu yfirleitt með lokuð eyrun. Nú hefur það gerst að við höfum orðið vitni að því að heill ráðherra hefur skipt um skoðun undir gagnlegum umræðum og ég er ekkert viss um að það sé heppilegt að halda þessum fundi áfram, leyfa hæstv. heilbrrh. að fara heim með þessi sinnaskipti og sofa á þeim heila nótt og sjá hvort hann verði ekki sömu skoðunar í fyrramálið þegar við mætum hér. Þannig að ég er svona að mælast til þess, hæstv. forseti, hvort ekki sé hægt að ljúka þessum fundi um þessar mundir til þess að ráðherrann verði ekki ruglaður á nýjan leik. Og þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta, hversu lengi hann ætlar að halda áfram á þessu kvöldi. ( HG: Hvenær varð ráðherrann ruglaður?) Ja, hæstv. ráðherra varð hér skynsamur. Hann tók rökum, hann hlustaði á gagnrýni og skipti um skoðun og talaði hér af fullri skynsemi og mér finnst ástæðulaust að eyðileggja þá heilbrigðu hugsun sem kom fram hjá honum með því að vera að þvæla hér í þinginu í alla nótt, því við tökum áhættu með því.