Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:24:54 (6617)


[00:24]
     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Hér hefur verið vakið máls á því að klukkan sé rúmlega tólf og það kynni að vera að sumir þingmenn væru orðnir þreyttir og einn hv. þm. vitnaði í lög sér til varnar í þeim efnum. Ég vil minna á að það eru fáir dagar eftir af þinghaldi og það bíða mörg mál hér úrlausnar. Það má kannski segja frá því svona til fróðleiks og upplýsinga að það tók hv. heilbr.- og trn. eina 14 fundi að vinna þær brtt. sem hér liggja fyrir og þeir voru margir langir og erfiðir og þar lögðu hv. þingmenn mikið starf af mörkum og á sig mikið erfiði og ekki á ég von á því að þeir komi hér og kvarti yfir því að of mikið sé á hv. þingmenn lagt þó að það sé unnið kannski eitthvað fram eftir nóttu einu sinni eða svo. Það hefur ekki verið svo mikið um næturfundi á þessu missiri þinghaldsins. Ég minnist þess ekki að það hafi verið starfað hér eftir miðnætti eitt einasta kvöld frá því um jól. Það getur einhver leiðrétt mig ef hann veit betur. Þannig að mér finnst ástæðulaust að víkja sér undan vinnu núna, hvað þá á miðju vori þegar dagur er að lengjast og þrekið mikið, þá finnst mér það koma úr hörðustu átt að hv. þingmenn ætli að víkja sér undan því að vinna sín störf. Það þarf að ræða þetta mál ítarlega eins og hv. þingmenn hafa lagt áherslu á og komið hefur fram í máli þeirra og ég undrast að sömu þingmenn vilja fara að hlaupa af vaktinni og ekki nýta þann tíma sem okkur gefst til að komast til botns í þessum málum og ljúka umræðunni.