Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 00:32:17 (6622)


[00:32]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég held að það liggi ekkert á að halda áfram umræðum um þetta mál og satt að segja er alveg með ólíkindum sú dagskrá sem var sett upp fyrir þingið þessa viku. Við höfum verið að í allan dag. Við erum boðaðir á tvo nefndarfundi í einu og höfum verið hér að í matartímum, bæði í hádeginu og kvöldmatnum, og það eru boðaðir fundir klukkan hálfníu í fyrramálið. Á fimmtudag er boðað að það eigi að ræða fjögur sjávarútvegsfrumvörp á einum degi eða fimm, sem ríkisstjórnin hefur verið síðan 1991 að koma sér saman um. Við eigum að afgreiða fimm frumvörp á einum degi, sem þessi ríkisstjórn hefur verið fjögur ár að ná samkomulagi um. ( StG: Hún náði ekki samkomulagi.) Og náði ekki samkomulagi, upplýsir hv. 4. þm. Norðurl. v.
    Þannig að ég held að það sé sjálfgert að hætta þessari umræðu núna, ekki síst af því að það er mikilvægur tímapunktur í henni. Heilbrrh. hefur tekið rökum. Þegar slíkir hlutir koma upp er best að staldra við og ég held að það væri rétt að hætta þessari umræðu því að þingi er ekkert að ljúka. Það eru það mörg mál eftir að þing mun auðvitað standa alla næstu viku, það er alveg ljóst. Þannig að við eigum ekki að standa hér í næturfundum vegna þess að það vekur athygli úti frá þegar Alþingi er á þessum næturfundum fund eftir fund og það vekur tortryggni og vantrú hjá þjóðinni og vekur vantraust á þeirri lagasetningu sem er afgreidd hér frá þinginu.
    Ég mæli þessi orð í fullri alvöru því að ef þið hafið, hv. þingmenn, farið út í þjóðfélagið og talað við kjósendur, þá er talað um þetta við ykkur eins og við mig. Þetta eru varnaðarorð.