Lyfjalög

141. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 01:29:58 (6637)

[01:29]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. sagði áðan í ræðu sinni að það skyldi ræða þessi mál út frá neytendasjónarmiðum og það er út frá þeim sjónarmiðum sem ég vil ræða það og fara þannig að hans ráðleggingum. Ég gerði það líka þegar sambærilegt frv. var lagt fram á síðasta þingi þegar það var þar til 1. umr. En þá lét ég í ljós áhyggjur mínar yfir því hvaða áhrif þetta hefði á dreifbýlið, fámenn læknishéruð þar sem lyfjaverslun er í hundruð kílómetra fjarlægð og því ekki auðvelt fyrir þá sem þar búa að leita þangað til að sækja sín lyf.
    Ég tel að það sem síðan hefur komið fram hafi undirstrikað það sem ég sagði þá um þetta atriði. Því vil ég leyfa mér að lesa hér örstutta setningu úr umsögn Læknafélags Íslands sem er birt í fskj. VI með nál. minni hluta heilbr.- og trn. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í heild má segja að helstu gallar frv. snúi að lyfjaþjónustu í dreifbýli þar sem hvorki er gætt nægilega að öryggi í lyfjadreifingu eða birgðahaldi, auk þess sem gera má ráð fyrir að þjónusta í lyfjadreifingu versni frá því sem nú er. Frv. virðist bera þess merki að þeir sem það hafa samið þekki ekki nægilega vel til aðstæðna í dreifbýli og hafi fyrst og fremst haft í huga markaðslögmál sem í þessu tilviki eiga þó aðeins við í þéttbýli.``
    Þegar tekið er tillit til þess að þetta er umsögn Læknafélags Íslands þar sem félagsmenn þess munu að meiri hluta til vera búsettir á höfuðborgarsvæðinu er varla hægt að halda því fram að þetta sé sett fram í eiginhagsmunaskyni af þeirra hálfu. Ég held að það sé líka erfitt að halda því fram að þeir séu þarna talsmenn lyfjafræðinga því næsta setning við er þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er einnig áberandi að mjög er dreginn taumur lyfjafræðinga í frv. þessu.``
    Þarna virðist því síður en svo að þeir séu að hugsa um hagsmuni lyfjafræðinga. Þeir eru með þá sömu hugsun og hæstv. heilbrrh. lagði áherslu á í sinni ræðu, hugsa um hagsmuni neytendanna. Það eru vissulega margir sem hafa haft þessar sömu áhyggjur. Það kom fram áður að í umsögn Alþýðusambands Íslands er niðurlagið það sama. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er jafnframt gert ráð fyrir að afnema heimild lækna í dreifbýli til að hafa á hendi sölu almennra lyfja, en dýralæknum hins vegar fengin slík heimild. Þessu mótmælir miðstjórn ASÍ og telur að með þessu sé verið að auka verulega kostnað sjúklinga í dreifbýli við að nálgast lyf.``
    Ég held að það sé ákaflega langsótt að halda því fram að Alþýðusamband Íslands sé einhver hagsmunagæsluaðili fyrir lyfjafræðinga enda sé ég ekki hvernig innflutningur og heildsala á lyfjum getur tengst skipulagi á dreifingu lyfja í dreifbýli svo langt sem það er nú frá. Þó að rétt sé og sjálfsagt að leggja áherslu á það sama og hæstv. ráðherra gerði að það skiptir auðvitað gífurlega miklu máli að innflutningur á lyfjum sé hagkvæmur og verð þeirra eins lágt og nokkur kostur er, eins og allir hafa tekið undir.

    Það komu fram áhyggjur frá fleirum á síðasta ári þegar umræða fór fram um þetta mál og hv. 2. þm. Norðurl. v., sem var í forsetastóli fyrr á þessum fundi, sagði m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta --- ( Gripið fram í: Hann er enn.) Ég bið afsökunar á því, hann er enn í forsetastóli, ég fylgdist ekki með því, ég sé ekki með hnakkanum, en hæstv. forseti sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En frjálsræðið er þannig að mér þykir nú stundum þurfa að haga því svo að það sé ekki óbeislað. Frjálsræðinu þurfa að fylgja takmörk og ég lít svo til að einnig í þessu tilviki, lyfjaverslun og sölumeðferð á lyfjum, þurfi frelsið að hafa sín takmörk.`` --- Og enn fremur síðar: ,,Lyfjaverslun sem hefur svo fáa viðskiptavini, þ.e. í kringum 1.000 manns, á mjög í vök að verjast og getur naumast staðist miðað við það skipulag sem er í dag og enn síður miðað við þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir.``
    Á fámennustu stöðunum er hins vegar, eins og ég sagði áður, engin sjálfstæð lyfjaverslun á nálægum slóðum sem lyfjafræðingur rekur heldur eru það heilsugæslulæknar á viðkomandi stöðum sem reka lyfjaverslunina. Í frv. er skýrt tekið fram að læknar megi ekki vera eigendur að lyfjabúð.
    Þegar ég spurði þáv. hæstv. heilbrrh. um þetta á síðasta þingi þá taldi hann að þrátt fyrir ákvæði þessa frv., ef að lögum verður, sem kveður á um það að læknir megi alls ekki eiga hlut að lyfjaverslun væri hægt að fela lækni að vinna að þessu. En hann sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En þetta þýðir það í mesta dreifbýlinu þar sem ekki eru einu sinni aðstæður til þess að hafa opið lyfjaútibú, hvorki með lyfjafræðingi, lyfjatækni né ábyrgum afgreiðslumanni og ekki eru einu sinni aðstæður til þess að heilsugæslustöð afgreiði lyf, þá er lækninum sem gegnir í viðkomandi héraði heimilt að sjá um slíka lyfjaafgreiðslu.``
    Mér finnst að þetta stangist algjörlega á við það afdráttarlausa ákvæði frv. um að læknar megi ekki eiga aðild að lyfjaverslun og vildi því spyrja hæstv. heilbrrh. að því hvort hann meti það svo að það sé möguleiki að brjóta algjörlega gegn þessu ákvæði.
    Ég vakti einnig athygli á því á síðasta ári að það er önnur hætta sem þetta hefur í för með sér. Þar sem eru mjög fáir íbúar í læknishéraði eða umdæmi heilsugæslustöðvar, þá er það takmarkað starf fyrir lækni og því hefur það verið möguleiki fyrir hann að hafa það til viðbótar að reka lyfjaverslun. Menn óttast það þar sem þannig hagar til að bann við því að læknir hafi þetta með höndum geti leitt til þess að það verði erfitt að fá lækni þar til starfa, a.m.k. þannig að þeir verði þar til lengdar. En það skiptir ákaflega miklu máli fyrir fólk að sjálfsögðu alls staðar að ekki séu allt of tíð skipti lækna. Það veitir fólki öryggi að hafa mann sem það þekkir og treystir. Því er það gífurlegt atriði.
    Einnig er hættan sú að mati lækna sem best þekkja til, t.d. var sá sem ritar undir umsögn Læknafélags Íslands starfandi í fámennu héraði við slíkar aðstæður, að þeir óttast að það minnki öryggi í þessum málum að ekki verði völ á nægilegu úrvali lyfja.
    Það segir að vísu í frv. að ráðherra geti falið stjórn heilsugæslustöðvar rekstur lyfjabúðar í þeim heilsugæsluumdæmum sem enginn lyfjafræðingur sækir um. Ekki er beinlínis kveðið á um að það skuli vera lyfjafræðingur en miðað við skilyrðin sem á undan koma er ekki hægt annað en að reikna með því. Nema svo kemur síðar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stjórn heilsugæslustöðvar, sem falin er rekstur lyfjabúðar, er heimilt að semja við utanaðkomandi lyfsöluleyfishafa um þjónustu, þar með talinn rekstur lyfjabúðar.``
    Hér er að vísu aðeins um heimildarákvæði að ræða en það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en þá verði valið milli þess að ráða lyfjafræðing í fullt starf eða semja við hann úr hundruð kílómetra fjarlægð. Ég held að það sé alveg sama hvor leiðin er farin. Það hlýtur að verða mikill baggi fyrir heilsugæslustöð þar sem aðeins nokkur hundruð manns eru búsett að bæta við sig slíkum útgjöldum. En ekki verður séð annað en sá kostnaður eigi að lenda algjörlega á heilsugæslustöðinni og þar með íbúum héraðsins.
    Þannig er sem sagt ærið margt í frv. sem vekur ugg og mér virðist að sé í samræmi við þær umsagnir sem ég var að vísa til, m.a. frá Læknafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands. Ég tel að það sé ákaflega alvarlegt mál að gera slíkar breytingar og mér finnst að það sé langsóttur málflutningur að halda því fram að það að lýsa yfir áhyggjum sínum yfir stöðu íbúa sem búa við slíkar aðstæður sé stuðningur við mafíu, lyfjamafíu eða eitthvað slíkt, eins og hefur komið fram í umræðum.
    Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða þetta mál frekar. Það hafa margir aðrir gert. En alveg eins og fyrir ári síðan þá er þetta atriði sem ég hef áhyggjur af og mér sýnist að mikið sé skilið eftir í lausu lofti í frv.