Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:51:22 (6652)


[13:51]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé nauðsynlegt að það komi fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum um þessi mál, m.a. af vettvangi stjórnarflokkanna, er bersýnilega verulegur ágreiningur á milli þeirra flokka um þessi mál og þess vegna hefur ekki tekist að flytja þau. Og ég verð að taka undir það með hv. 4. þm. Austurl. að ég hef ekki orðið var við það að framsóknarmenn ýttu sérstaklega á eftir þessu máli þó að það kunni að hafa orðið breyting á því núna í seinni tíð og er í sjálfu sér ekki seinna vænna.
    Hitt málið sem ég ætlaði síðan að nefna, hæstv. forseti, snýr að hæstv. landbrh. og var tekið hér upp af hv. 6. þm. Vestf. Svo vill til að ég flutti fyrirspurn til hæstv. landbrh. um athugasemdir Ríkisendurskoðunar við rekstur Landgræðslunnar. Ég fékk svar frá hæstv. landbrh. Ég tel að það svar sé alls ófullnægjandi. Ég hefði kosið að það hefðu verið aðstæður til þess hér á Alþingi nú að ræða um þessi fjárhagsmálefni Landgræðslunnar. Ég áskil mér allan rétt til þess að koma því á framfæri áður en þinginu lýkur með einhverjum hætti.