Framleiðsla og sala á búvörum

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:12:30 (6656)



[14:12]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við nál. sem hv. formaður landbn. kynnti hér rétt á undan, en fyrirvarinn varðar 3. lið í brtt. þar sem um er að ræða heimild til innheimtu sérstaks verðskerðingargjalds. Ég tel að sá vandi sem hér er verið að reyna leysa sé kominn til af því að það er ekki samræmi á milli þeirrar framleiðslu sem heimilt er að greiða beingreiðslur vegna, svokallaðs greiðslumarks, og þess verðs á lambakjöti sem hið opinbera ákvarðar og þeirrar skyldu sem lögð er á sláturleyfishafa að staðgreiða til bænda. Ég tel að lausnarinnar á þessum vanda til lengri tíma litið sé að leita í breytingum á þessu kerfi án þess að ég sé hér og nú að kynna einverjar sérstakar tillögur þar um. Það sem hins vegar gerir það að verkum að ég tel mig knúinn til að styðja þessa tillögu eins og málum er nú háttað er sú staðreynd, eða alla vega það sem líklegt er, að Svíar muni ganga inn í Evrópusambandið síðar á þessu ári eða samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir að innflutningur á lambakjöti til Svíþjóðar mun verða háður reglum ESB og sem stendur eru einungis tvö sláturhús í landinu sem uppfylla þær kröfur sem ESB gerir til sláturhúsa. Þetta mundi þýða að við gætum einungis flutt inn til Svíþjóðar til þess að uppfylla þann innflutningskvóta sem við höfum þar frá þessum tveimur sláturhúsum. Til þess að við mundum ná að uppfylla kvótann og þar sem það verð sem við fáum í Svíþjóð er ekki eins hátt og það verð sem er á innanlandsmarkaði, þá mundi það þýða að þessi tvö sláturhús sem þangað mundu flytja mundu fá miklum mun lægra verð fyrir sína vöru ef ekki kæmi til verðmiðlun hér innan lands. Til þess að við töpum ekki þessum markaði þá tel ég mig knúinn til að styðja þessa tillögu því ég vil ekki hafa það á samviskunni að við misstum þann markað sem þar er og þær afleiðingar sem ég tel að það mundi hafa fyrir sauðfjárframleiðsluna og sauðfjárbændur hér á landi þess vegna.