Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:29:00 (6659)


[14:29]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., sem rétt er, að það er landbn. sem flytur þetta mál, ( Gripið fram í: Hvert á fætur öðru.) hvert á fætur öðru og stendur öll sameinuð. (Gripið fram í.) Aftur. Hún hefur aftur sameinast um þetta mál. --- Ég hefði hins vegar frekar kosið að við hefðum verið á síðustu dögum þessa þings að afgreiða ný heildarlög um útflutning hrossa eins og efni stóðu til. Það var komið hér fram stjfrv. um nýja heildarlöggjöf varðandi hrossaútflutning. En því miður gerðist það með þetta mál eins og svo mörg önnur að það var seint fram komið og það var mat nefndarinnar að ekki ynnist tími til að fullvinna það sem hefði verið hægt að gera ef við hefðum haft þó ekki hefði verið nema einni til tveim vikum meira, þ.e. ef þetta mál hefði komið fram hálfum mánuði fyrr en það gerði þá hefði okkur tekist að klára það. Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að það tókst ekki því að þau lög sem hér er unnið eftir eru gömul og þau eru úrelt og í því frv. sem hér var lagt fram var margt sem horfði til bóta þó svo að það hefði þurft að vinna það betur. Að mínu mati var það ekki þannig að það væru mjög deildar meiningar um frv. sem slíkt. Hins vegar þurfa annars vegar Félag hrossabænda og hins vegar nýstofnað Félag hrossaútflytjenda að ná betur saman og ná sameiginlegri túlkun á því hvernig menn mundu ætla að vinna eftir nýjum lögum. Það voru nánast allir aðilar sammála um það að ýmislegt horfði þarna til bóta og ég hlýt að treysta því að aðilar málsins, og að landbrn. hafi þar ákveðna forustu, noti sumarið til þess að vinna og koma sér saman um nauðsynlegar breytingar hvað þetta snertir.
    Ég sagði hér við 1. umr. um það mál sem fær ekki frekari afgreiðslu hér að varðandi það útflutningsgjald sem rætt er um að setja á öll útflutt hross, þ.e. að hámarki 7 þús. kr. á hross, að af því gjaldi á að standa straum af lögbundinni skoðun dýralæknis vegna útflutnings. Sömuleiðis renna 5% af því í stofnverndarsjóð íslenska hestsins. Bæði þessi atriði eru til bóta að mínu mati. Sú breyting sem er á gjaldtöku til stofnverndarsjóðsins og að taka lögboðnu skoðunina þarna inn, enda er það ekki eðlilegt að það sé útflytjandinn, seljandinn sem sjái um þann þáttinn og greiði fyrir. Það er miklu eðlilegra að það sé hið opinbera stjórnvald sem á að sjá um það en innheimti þá þetta gjald í staðinn.
    Ég benti á það í 1. umr. um það mál sem væntanlega verður ekki unnið meira hér á þinginu að ég teldi að inn í þetta gjald, útflutningsgjaldið, ætti að taka sjóðagjöldin líka. Það þarf að vísu að skoða það mál eilítið vel vegna þess að sjóðagjöldin eru tekin sem prósenta af verðmæti. Það væri þess vegna út frá því sjónarmiði vafamál hvort leyfilegt væri að taka það sem fasta krónutölu á útflutt hross. Ég fór í að skoða þetta nokkuð í framhaldinu og fékk þær upplýsingar hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins að í raun væri framkvæmdin á þessu núna að það væri borguð föst krónutala á hross í sjóðagjöld, þ.e. að sjóðagjöldin væru reiknuð út af lágmarksverði sem er 50 þús. kr. Miðað við þær tekjur sem þá fást af þessum sjóðagjöldum og það gjald sem greitt er af hverju hrossi, þá sýnist mér að við framhaldsvinnu á málinu geti þetta atriði fyllilega rúmast innan þessa gjalds sem að hámarki yrði 7 þús. kr. á útflutt hross. Sömuleiðis varðandi stofnverndarsjóðinn. Hann er það sterkur í dag. Í honum eru 28 millj. og hann fær auk þess nokkrar árvissar tekjur þarna þannig að ef um það væri hugsað að það fé sem úr honum er lánað sé ávaxtað á eðlilegan hátt, það sé ekki lánað út á aðra gripi en þá sem standa undir því fjármagni sem í þá eru lagðir, þá eigi það að duga gagnvart því hlutverki sem stofnverndarsjóðnum er ætlað.
    Annað atriði sem nokkuð deildar meiningar eru um varðandi nýbreytni, varðandi löggjöf í útflutningi hrossa, er markaðsnefndin sem átti samkvæmt frv. að vera þeim til ráðuneytis við setningu reglugerðar um útflutning hrossa og um það stóðu engar deilur, en síðan varðandi það atriði að þetta væri einnig markaðsnefnd sem ætti að sinna markaðsstarfi, það var kannski það mál sem fyrst og fremst strandaði á. Ég vakti athygli á því í umræðu um það mál þegar það var hér fyrir þinginu að það væri nauðsynlegt að þar yrðu settar reglur þess eðlis að það stæðu allir jafnt gagnvart þessu starfi sem þarna yrði innt af hendi, en það gerðist ekki á þann hátt að einhver ný nefnd, markaðsnefnd útflutningshrossa færi beint inn á hina erlendu markaði og e.t.v. gæti ruglað eða jafnvel spillt fyrir starfi sem þar var búið að vinna fyrir. Hún verður að vinna á þeim grunni að hún vinni að kynningu almennt á íslenska hestinum, upplýsingaöflun og það starf verði aðgengilegt fyrir alla sem standa í þessum útflutningi. Ég trúi því að þessir aðilar, Landssamband hrossabænda og Félag útflytjenda, nái saman um þetta mál. Þeir hljóta að ná saman því að það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig útflytjendur ætla að standa í útflutningi á þessari vöru verandi ekki í góðu samstarfi við framleiðendurna sem eru í flestum tilfellum félagar í hagsmunasamtökum hrossabænda.
    Virðulegur forseti. Það þarf kannski ekki að fara mörgum orðum um það að hér er um að ræða starfsemi sem er vaxandi í okkar landi og það þykir orðið sýnt í dag að það er verulegur markaður erlendis fyrir íslensk hross og ef vel er á málum haldið, þá er hér um að ræða atvinnugrein sem á verulega vaxtarmöguleika. Þeir aðilar sem í þessu eru í dag eru farnir að sjá möguleikana í báðar áttir, annars vegar að flytja út hross og ekki síður að íslensku hestarnir geti haft mikið aðdráttarafl fyrir áhugafólk erlendis sem er þá tilbúið til að koma hingað, dvelja hér í nokkra daga og velja sér sín hross sjálf á íslenskri grund --- og ekki spillti nú ef hverju hrossi sem flutt yrði út fylgdi einn íslenskur hundur og vísa ég til umræðna sem hér hafa verið í vetur um ræktun íslenska hundsins. Mundi þá rætast draumsýn hv. þm. Guðna Ágústssonar þar sem hann sá fyrir sér að unnendur íslenska hestins færu um með íslenskan hund og klæddir íslenskum ullarfatnaði og þá væru komin þarna alvörumargfeldisáhrif varðandi þessi viðskipti. ( ÓÞÞ: Guðni er farinn.) Hv. þm. Guðni Ágústsson mun vera hér í hliðarsölum að undirbúa ræðu sem hann mun flytja hér á eftir í þessu máli þannig að fjarvera hans á sér eðlilegar orsakir.