Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:46:02 (6663)


[14:46]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að segja örfá orð um þetta mál sem hv. landbn. flytur og við teljum mjög mikilvægt að þetta löggjafarþing afgreiði eins og hefur komið fram í umræðum. Í mínum huga er enginn vafi á því að það þarf að liðka til í löggjöfinni og hún má ekki þvælast fyrir breyttum aðstæðum og þær hafa breyst mjög mikið á síðustu árum, samskipti og flutningar á milli þjóðlanda. Þetta frv. stuðlar að því og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að ég held að þessi litla lagasetning komi til með að spara stórfé fyrir íslenska bændur eða að segja að stærri hluti af verði hestsins verði tekjur bóndans. Þessi rýmkun mun hafa áhrif, bæði á flutninga á sjó og í lofti.
    Hér hafa menn komið að því atriði og hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, gagnrýndi í textanum ,,enda hafi þau áður verið fóðruð inni á heyfóðri``. Ég get kannski tekið undir með honum að þetta orðalag eigum við að skoða. Ég fann að hann átti alla vega auðvelt með að misskilja það eða henda að því gaman. Lagatextinn á að vera skýrt orðaður og skorinorður.
    Hestar lifa á heyfóðri þannig að það atriði sem þarna þarf kannski að vera inni er að hestarnir sem fluttir eru út séu í góðu ástandi og hafi hlotið dýralæknisskoðun eins og ber í slíkum tilfellum. Ég get því fallist á það að þessi setning fari út úr textanum því að hér segir að nánari reglur skuli settar í reglugerð. Þar eiga menn auðvitað við bæði gripaflutninga, skipin og aðbúnaðinn í flugvélunum, svo og ástand skepnunnar áður en hún leggur í þessa miklu ferð, enda er þetta á margan hátt takmarkað með löggjöf, aldri hestsins o.s.frv. sem ég held að sé mjög mikilvægt. Það er ekki þar fyrir að taka að við höfum notið þess í hv. landbn. að með okkur hefur starfað dýralæknir sem kann vel til verka og er áhugamaður um hrossarækt. Við höfum notið ráða hans og hann hefur í engu brugðist í þeim störfum núna upp á síðkastið þó að þau fyrirheit sem hann gaf þegar hann gekk til þingmennskunnar hafi að vísu brugðist að einu leyti því mig minnir að hann hafi sagt þjóðinni frá því að Sjálfstfl. þyrfti helst á dýralækni að halda, en honum hefur því miður ekki tekist að ganga í þau hrossalækningastörf sem bundnar voru vonir við hann í þeim flokki.
    En ég tek undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar að íslenski hesturinn er mikið tækifæri fyrir bændur þessa lands til að auka tekjur sínar. Markaðsmöguleikarnir eru miklir sé rétt að verki staðið og ég tek undir það með honum að það er ekkert útilokað að fallegur íslenskur hundur fylgi hverju hrossi. Nú hefur löggjafarþingið ákveðið að skipa nefnd til þess að marka stefnu um að hreinrækta og verja íslenska hundinn og setja þá ræktun kannski á nýtt stig til nýrrar sóknar sem gæti verið hliðarbúgrein við íslenska hestinn, enda er það svo að víða í Evrópu mun það nú vera tíska að ríða fallegum íslenskum gæðingi eftir skógarlundum í íslenskri lopapeysu og á eftir rennur fallegur íslenskur hundur þannig að þetta er ekki bara tækifæri fyrir íslenska bændur að selja lifandi dýr. Þetta er tækifæri líka fyrir íslenskar vinnandi hendur, karla og konur, að setjast á nýjan leik við að prjóna fallega lopapeysu.
    Það er enginn vafi að íslenski hesturinn skapar heilmiklar gjaldeyristekjur og þess vegna verður löggjafinn að vera tilbúinn að rýmka og hjálpa til við þau tækifæri sem bændurnar eiga í þessu efni. Það er talið t.d. að í kringum landsmótið á Hellu sem fer fram í sumar muni hingað koma 4--5 þúsund erlendir ferðamenn til að njóta þess að sitja á Rangárbökkum og horfa á íslenska gæðinga. Þessir 4--5 þúsund menn sem koma bara út af þessu móti skapa hér miklar gjaldeyristekjur. Það gætu verið einhverjar 500 millj. sem þessir ferðamenn skila bara út af þessu landsmóti. Ýmsir telja að veltan í hrossræktinni á Íslandi sé hvorki meira né minna en 2--3 milljarðar sem er auðvitað heilmikil velta í atvinnugrein sem lætur ekki meira yfir sér en þetta. Og það hafa sagt mér hestamenn að það sé talið að 30--40 þúsund Íslendingar muni stunda með einhverjum hætti hestamennskuna þannig að hér er mikilvægt að standa vel að verki. Þetta er hliðarbúgrein sem getur hjálpað bændum á þeim erfiðu tímum sem þeir búa nú við og kannski meðan þeir eru að bíða enn stærri tækifæra þannig að ég tek undir að það er kannski líka mikilvægt hjá landbn. að halda áfram milliþingastarfi og skoðun á frumvörpum um útflutning á íslenska hestinum sem hér kom fram fyrr í vetur og verður ekki afgreitt á þessu þingi því að sannarlega er þetta mikilvægur atvinnuvegur sem sameinar sveitamenn og borgarbúa, þéttbýlisfólk til átaka við skemmtilegt verkefni.