Merkingar varðandi orkunotkun heimilistækja

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:03:17 (6670)


[15:03]
     Frsm. iðnn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja sem er 532. mál þingsins og stjfrv. sem fjallað hefur verið um í hv. iðnn. sem skilar samhljóða niðurstöðu eins og sést á þskj. 1043.
    Á þskj. 1044 flytjum við allmargar brtt. við þetta frv. og verður að segja eins og er að það er alla vega mín skoðun að það hafi mislukkast nokkuð þýðingin á þessum texta en hann er sennilega tekinn upp úr dönsku og fluttur hér til íslensku, upphaflega þannig, og það þurfti allnokkrar lagfæringar á þessum texta í hv. iðnn. sem náðist mjög góð málfarsleg samstaða um.
    Það sem í raun og veru er um að ræða í breytingunum er þess vegna nær eingöngu tæknilegar lagfæringar og orðalagslagfæringar í 9. tölusettum brtt. en auk þess er bætt inn í frv. ákvæðum um hávaða sem berst frá heimilistækjum til að tryggja að neytendur fái upplýsingar um hávaða heimilistækja með sama hætti og um orkunotkun heimilistækja. Hér er um að ræða hið þarfasta neytendamál og gagnlegasta mál þannig séð, burt séð frá aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði og um efni málsins ríkir þess vegna full samstaða í hv. iðnn.
    Við leggjum sem sagt til að brtt. á þskj. 1044 verði allar samþykktar eins og þær koma þar fyrir og frv. svo breytt fái síðan þinglega meðferð.