Sala notaðra ökutækja

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:06:40 (6671)


[15:06]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. efh.- og viðskn. á þskj. 1025 og brtt. sem fylgja því nál. á þskj. 1026.
    Efh.- og viðskn. fjallaði nokkuð ítarlega um þetta frv. og fékk á fund sinn fulltrúa frá viðskrn. til þess að ræða þetta mál en jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Bílgreinasambandinu, Bílasölu Reykjavíkur, Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum og Verslunarráði Íslands.
    Eftir ítarlegar umræður í nefndinni var ákveðið að leggja til að frv. væri samþykkt með nokkrum breytingum. Þessar breytingar eru þær að í fyrsta lagi er lagt til að í frv. verði kveðið á um hámark tryggingarfjárhæðar á grundvelli 1. mgr. í stað þess að það verði alfarið lagt í hendur ráðherra hver sú trygging skuli vera og hvert hámark hennar skuli verða. Nefndin leggur sem sagt til í brtt. að tryggingarfjárhæðin innan hvers tryggingartímabils skuli nema að hámarki 20. millj. kr.
    Þá er í þessu sambandi jafnframt lögð til sú breyting að ekki komi til kasta þessarar tryggingar nema viðkomandi bifreiðasali sé ógjaldfær. Hér er byggt á sömu atriðum og er gert í lögum nr. 30/1993, um neytendalán og jafnframt er í frv. til breytingar á þeim lögum sem nú eru til umfjöllunar í efh.- og viðskn.
    Þá er í öðru lagi lagt til að skilyrði lokamálsliðar 2. mgr. 3. gr., sem fjallar um skyldur þeirra sem geta stundað þessi viðskipti, verði breytt með þeim hætti að það verði víkkað nokkuð þannig að það sé ekki eingöngu bundið við framkvæmdastjóra viðkomandi fyrirtækis en gert ráð fyrir því að viðkomandi aðili verði að vera í stjórnunarstöðu innan fyrirtækisins eða eins og segir í brtt. ,,yfirmaður viðkomandi starfsemi``. Það þykir óeðlilegt að gera það að skilyrði að framkvæmdastjórinn, t.d. í stærra fyrirtæki, sé ábyrgðarmaður í þessu sambandi heldur hljóti það að vera yfirmaður viðkomandi deildar eða starfssviðs í viðkomandi fyrirtæki ef það er þá deildaskipt.
    Í þriðja lagi er lagt til að það verði kveðið skýrar á um það að með ástandslýsingu á bifreiðum sem eru til sölu samkvæmt frv. komi það fram samkvæmt 4. gr. að hér sé aðeins átt við almenna lýsingu á ástandi bifreiðarinnar en ekki nákvæma úttekt eins og þá sem 5. gr. frv. mælir fyrir um. Síðan er tekinn af allur vafi um afdráttarlausa skyldu bifreiðasala til að láta slíka almenna lýsingu fylgja hverju ökutæki sem hann hefur til sölumeðferðar.
    Í fjórða lagi er lagt til að bifreiðasali verði að fullnægja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 5. gr. á sannanlegan máta og jafnframt er tekið fram að kaupandi beri kostnað af því að láta framkvæma slíka skoðun nema um annað hafi verið samið. Það þykir eðlilegt ef kaupandi óskar þess að það fari fram nákvæm úttekt á bifreiðinni að hann beri af því kostnað en að sjálfsögðu er ekki rétt að koma í veg fyrir það eða banna að aðilar semji um annað. En það þykir ekki eðlilegt að hver og einn sem er að hugsa um að kaupa bifreið geti krafist þess af seljanda að hann láti fara fram úttekt á bifreiðinni á kostnað seljandans nema um það sé samið því það er í sjálfu sér engin trygging fyrir því að af kaupunum verði.
    Þá er að lokum lögð til sú breyting á 6. gr. að kveðið verði skýrar á um skyldu bifreiðasala til að tilkynna eigendaskipti um leið og nokkur kostur er. Það getur vart talist eðlilegt að meira en einn dagur líði þar til eigendaskipti eru tilkynnt nema mjög sérstæðar aðstæður sem að sjálfsögðu geta ávallt komið upp réttlæti lengri frest. Það er afar mikilvægt að slík eigendaskipti komist í réttar skrár sem fyrst.
    Það er rétt að taka það fram að það er hægt að tilkynna eigendaskipti á öllum póststöðvum og því engin ástæða til að það sé dregið þar sem aðilar eiga hægt um vik að koma því á framfæri.
    Undir nál. rita allir nefndarmenn efh.- og viðskn. en fjarverandi við afgreiðslu málsins var Ingi Björn Albertsson.