Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:35:05 (6672)

[15:35]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að taka á dagskrá 13. málið, lyfjalög, sem rætt var á fundi í gær og er hér áfram á dagskránni sé ég. Ég er einn af þeim sem eru á mælendaskrá í þessu máli. Ég tók eftir því í byrjun fundar að boðuð var fjarvist af hálfu formanns heilbr.- og trn. sem skilar þessu máli til þingsins og ég tel það ekki koma til greina að þetta mál sé rætt hér á þessum fundi að formanni nefndarinnar fjarstöddum og treysti forseta til að fresta umræðu um þetta dagskrármál þangað til formaður nefndarinnar er viðstaddur.
    Ég get bætt því við að ég lagði það á mig að taka þátt fyrr í umræðunni, þ.e. í gærdag, og bjó þá við þær aðstæður að formaður nefndarinnar var ekki í þinghúsinu og þrátt fyrir ítrekaðar óskir fékkst hann ekki á þingfund á meðan ég talaði. Ég tel að svona háttalag gangi ekki og forseti megi til með að sjá til þess að ekki sé verið að ræða mál hér að fjarstöddum þeim sem hafa forræði á málinu eða hafa skilað því inn af hálfu nefndar til þingsins.