Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:44:05 (6677)


[15:44]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þegar þessu máli var frestað sl. nótt var um það rætt að það yrði hér aftur á dagskrá í dag, það er vissulega alveg rétt. Hins vegar kom það ekki fram í þeim umræðum að hv. formaður heilbr.- og trn. yrði fjarstaddur. Hann lagði mikla áherslu á það að þessu máli yrði haldið áfram í dag í umræðu en upplýsti það ekki að hann yrði ekki viðstaddur. Ég fæ fyrst að heyra það nú eftir að fundur er hafinn. Ég heyrði það heldur ekki í morgun, þegar rætt var um að þau mál sem hér væru fyrst á dagskrá væru fljótt afgreidd og síðan kæmi að lyfjalögum, að hv. formaður nefndarinnar yrði hér ekki viðstaddur, en það er fyrst núna sem ég heyri um það að hann hafi forföll og reyndar var það upplýst í upphafi fundar. Það hefur verið upplýst hver þau forföll eru og það verður að sjálfsögðu að virða það, en það er á vissan máta óeðlilegt að taka málið til umræðu og ég skil vel athugasemdir hv. 4. þm. Austurl. sem talaði hér í gær án þess að hv. formaður nefndarinnar væri viðstaddur og lagði þá áherslu á það að hann gæti ekki tekið aftur til máls öðruvísi en svo að formaður nefndarinnar væri við. Við þessar aðstæður er það nokkuð óeðlilegt að halda því til streitu að málið verði rætt.