Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:51:02 (6683)


[15:51]
     Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hér er eitthvað furðulega að málum staðið. Hv. formaður heilbr.- og trn. hefur gert sumum orð og öðrum ekki. Við kvennalistakonur höfðum ekki spurnir af því að hann yrði fjarverandi hér við þessa framhaldsumræðu og ég vil benda á það að fulltrúi okkar í nefndinni á eftir að halda sína ræðu. Ég get ekki sagt annað en að mér finnst mjög eðlilegt að verða við óskum þingmanna að fresta umræðu þegar annaðhvort er óskað eftir nærveru ráðherra eða formanns nefndar nema báðir séu. Hér er um mikið deilumál að ræða og er auðvitað verið að þrýsta á um það að ákveðnar breytingar verði gerðar á þessu frv. sem hér er til umræðu og það er ekki annað en sjálfsagt að verða við þeirri kröfu þingmanna að fresta umræðu þegar svona stendur á. Ég bendi á það að næstu mál á dagskrá eru samkomulagsmál m.a. úr efh.- og viðskn. sem mættu vel komast að og það er enginn skaði skeður þó að þessari umræðu um lyfjalögin verði frestað og þess beðið að hv. formaður heilbr.- og trn. komi til þings.