Lyfjalög

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 15:55:51 (6685)


[15:55]
     Ólafur Þ. Þórðarson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að gera að umræðuefni jarðarfarir á Austurlandi. Þær hljóta að ganga fyrir sig með eðlilegum hætti án þess að þær séu ræddar hér í þingsölum. Og að sjálfsögðu ekki heldur hvort hv. þm., séra Gunnlaugur Stefánsson, sé fjarverandi eða ekki. Hann á rétt á því eins og aðrir að óska eftir því að vera fjarverandi.
    Það sem þingið er komið í er ákaflega sérstæð staða. Milli stjórnarflokkanna virðist ekki vera sú tiltrú eða það traust að annar stjórnarflokkurinn geti liðið hinum að halda áfram dagskránni sem er þó ærin, 35 mál, herra forseti, það verði að taka fyrir þetta mál, annars sé stjórnarsamstarfið fyrir bí. Svo alvarleg virðist staðan. Og auðvitað verður ákveðinn þingmaður á Austurlandi, hv. 4. þm. Austurl., að una því að honum er ekki ætluð sú réttarstaða að ráða því hvort ríkisstjórnin fer frá í dag eða ekki. Þannig stendur málið. ( Gripið fram í: Því miður.) Því miður. ( StG: Vill hann fá umboð til þess?) Þetta er alvarleg staða. En hann verður bara að sætta sig við það að stjórnarsinnar vilja ekki leyfa honum að ráða því. Og þetta

þýðir það að hér er verið að eyða tíma þingsins í hreina vitleysu. Mér finnst það dálítið skrýtið af því að ég veit að hæstv. heilbrrh. gerir sér grein fyrir því að það er ekki beinlínis skynsamlegt að espa menn upp ef menn vilja nú fá styttri umræður, þá sé ég nú ekki að það hafi verið skynsamlegt að vera með sérstök púðurskot á hv. 4. þm. Austurl. um þreytu hans í nótt sem verður ósönnuð fullyrðing, frekar ótrúleg miðað við það að maðurinn stundar líkamsrækt að staðaldri. Og ég vil nú spyrja hæstv. forseta: Er hugsanlegt að forseti geti breytt þeim ræðulista sem liggur fyrir þannig að þeir sem óska eftir því að ná eyrum formanns nefndarinnar geti beðið með sínar ræður en hinir sem hafa heitið því að tala þó hann sé fjarverandi fái að halda áfram? En það væri náttúrlega möguleiki að sigla þannig málum að þetta gerðist með þessum hætti og koma í veg fyrir fall stjórnarinnar um einn dag í það minnsta ef sá friðarandi væri hér yfir vötnunum.