Aukatekjur ríkissjóðs

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 10:43:23 (6692)



[10:43]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að þessi endurskoðun hefur verið gerð þó hún hefði kannski mátt vera umfangsmeiri heldur en hér liggur fyrir. Það er verst að hæstv. fjmrh. er ekki hér staddur. Hann gæti þá kannski gert hv. þm. grein fyrir því hvernig þessi endurskoðunarmál standa í ráðuneytinu. Ég vil minna á það að á síðasta þingi var þáltill. sem ég flutti um þessa hluti vísað til ríkisstjórnar. Þar var um að ræða þessa gjaldtöku og gjaldtöku ríkisstofnana. Í þáltill. var gert ráð fyrir því að þetta yrði endurskoðað, öll þessi gjaldtaka, með það fyrir augum að ríkið innheimti engin gjöld öðruvísi en að á bak við það væri þjónusta sem fullkomlega væri eðlilegt að innheimta gjöldin fyrir. Við höfum hins vegar séð það í gegnum tíðina að ýmis gjöld sem ríkið innheimtir eru í raun og veru skattlagning og eiga þá eðli máls samkvæmt að vera skattar. En ég fagna því að þetta skref er þó stigið, en satt að segja vonast ég eftir því að þeirri endurskoðun sem raunverulega var verið að samþykkja á hv. Alþingi með því að vísa þessari þáltill. til ríkisstjórnarinnar verði haldið áfram þannig að reglur um gjaldtöku ríkisstofnana og aukatekjur ríkissjóðs verði endanlega endurskoðaðar í þeirri mynd sem til var ætlast.