Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:03:29 (6695)


[11:03]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér var mælt fyrir ætti að vera flutt í tvennu lagi, því annars vegar er um að ræða nýja löggjöf um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og hins vegar er um að ræða breytingar á lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Það er heldur óheppilegt form að flytja slíkt mál í einu lagi, sem annars vegar snerta breytingar á lögum og hins vegar nýja löggöf. En ýmsu eru menn vanir hér á Alþingi í sambandi við smíði á margvíslegum bandormum.
    En það er e.t.v. ekki það sem skiptir meginmáli heldur efni þessara mála og ég vil segja það að ég geri engar meiri háttar athugasemdir við þessi mál. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að koma á samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna til þess að fjalla um þau deilumál sem hafa komið upp og munu koma upp í framtíðinni. Ég tek undir það með hv. frsm., 5. þm. Norðurl. v., að slíkur samstarfsvettvangur er nauðsynlegur. Ástæðan fyrir því að þessar deilur hafa komið upp er áreiðanlega sú að það hefur verið skortur á slíkum samstarfsvettvangi. Það hefur verið stefnan upp á síðkastið að leggja niður nefndir og ráð þar sem sjómenn, útvegsmenn og vinnuveitendur hafa komið saman til að taka á sameiginlegum málum. Nægir þar að nefna Verðlagsráð sjávarútvegsins og jafnframt var mikið samstarf milli sjómanna og útvegsmanna þegar verið var að koma á hinu svokallaða kvótakerfi í sambandi við ýmis álitamál sem þar komu upp.
    Ég hygg þó að það sem eigi ríkan þátt í þeirri stöðu sem þarna kom upp sé sú staðreynd að stjórnarflokkarnir ákváðu að taka endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða fyrst og fremst inn á sinn vettvang, en halda utan við það starf hagsmunaaðilum og jafnframt stjórnarandstöðuflokkunum. Þetta varð til þess að skapa margvíslega tortryggni og einnig til þess að vekja upp deilur, sem að mínu mati hefðu annars ekki komið upp.
    Ég vænti þess að með frv. hafi menn lært af þessari reynslu og sjái að þarna voru menn á rangri braut. Það er þannig í svo flóknum og erfiðum málum að ágreiningur mun ávallt koma upp og einhvers staðar verða menn að geta komið saman til þess að reyna að útkljá hann. Að því leytinu til tel ég þetta frv. vera til mikilla bóta.
    Ég vildi aðeins gera athugasemdir að því er varðar tilnefningu í þessa nefnd. Mér finnst eðlilegast að þar séu aðilar sem tilnefndir eru af sjómannasamtökunum, eins og þar kemur fram, og ég hefði talið nægilegt að hinir tveir væru tilnefndir af Landssambandi ísl. útvegsmanna. Landssamband ísl. útvegsmanna er aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands og ég sé ekki ástæðu til að það sé sérstaklega tilgreint vegna þess að það eru líka til önnur vinnuveitendafélög, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, sem að sjálfsögðu á jafnframt mikilla hagsmuna að gæta á vettvangi sjávarútvegsins. Þannig að ég hefði talið eðlilegast að allir þessir aðilar kæmu sér saman um þessar tilnefningar á vettvangi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem eru hagsmunasamtök þar sem allir þessir aðilar koma að með einum eða öðrum hætti.
    Það má hins vegar halda því fram að auðvitað skiptir þetta mál líka vinnslustöðvar miklu máli og e.t.v. er það þess vegna sem þykir rétt að Vinnuveitendasamband Íslands komi að málinu. En ef svo á að vera finnst mér eðlilegt að hvortveggja samtökin hafi þar hönd í bagga. Ég á ekki von á því að það þurfi að vera mikið ágreiningsmál að koma sér saman um aðila til að standa í þessu verkefni.
    Í greinargerð með þessu frv. kemur fram að það hafi jafnframt verið ákveðið að gera ýmsar breytingar að því er varðar framsal aflaheimilda og ég vil því fara nokkrum orðum um það í sambandi við þetta mál, jafnvel þótt það sé ekki verið að gera tillögur um það í þessu frv. að gera þar breytingar á. Ég geri mér ljóst að framsal aflaheimilda er umdeilanlegt mál og þar hafa sprottið upp margvíslegar deilur. Ég hafði gert ráð fyrir því að það þyrfti að gera einhverjar breytingar á frv. um stjórn fiskveiða í þessu sambandi

og þá ekki síst þá breytingu að fiskvinnslustöðvar gætu ekki haft aflaréttindi. Nú eru margir sem gera mikið úr því að það sé mikilvægt fyrir fiskvinnsluna í landinu að hafa slík réttindi. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar í gegnum tíðina að það ætti að stíga það skref því ég átti von á því að slíkt skref yrði til þess að skapa miklar deildur sem erfitt yrði að leysa. Það var hins vegar ákveðið á sínum tíma, þegar þetta mál var rætt við setningu laganna sem tóku gildi 1991, að til að koma til móts við þau sjónarmið sem uppi voru að því er varðar fiskvinnslustöðvarnar, að framsal aflaheimilda milli skipa væri tiltölulega frjálslegt.
    Það eru margar ástæður fyrir því að hefta ekki um of þetta framsal. Sérstaklega eru ástæðurnar ríkar við aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, þ.e. þá staðreynd að aflaréttindi margra eru afarlítil. Þörfin fyrir það að hagræða og reyna að framleiða vöruna með sem minnstum tilkostnaði er miklu augljósari við slík skilyrði en þegar aflaréttindin eru mikil. Þegar hvert og eitt skip hefur veruleg aflaréttindi þá er þörfin fyrir tilfærslur mun minni.
    Ég held að það sé alveg ljóst að með því að taka upp þessar takmarkanir, að ekki megi flytja meira en 15% aflamarks af sömu tegund, þ.e. sem sagt bann við því að flytja aflamark til skips ef meira en 15% aflamarks af sömu tegund hafa verið flutt af skipinu á fiskveiðiárinu og öfugt, mun skapa veruleg vandamál. Og með fullri virðingu fyrir okkar ágætu sjómannastétt, sem er alls góðs makleg, þá er ljóst að það eru líka sjómenn sem munu gjalda þess að þessi regla er tekin upp. Ég geri mér grein fyrir því að þetta kann að leysa þau málefni sem koma upp að því er varðar hluta sjómannastéttarinnar, en það mun skapa vandamál fyrir annan hluta sjómannastéttarinnar. Það er líka ljóst að þetta mun verða til þess að hagkvæmnin verður minni og þar af leiðandi verðmætasköpunin minni.
    Ég er þeirrar skoðunar að við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu þá verði að skapa þau skilyrði að hægt sé að reka sjávarútveginn með sem mestri hagkvæmni. Það er víða tap í sjávarútveginum og ef þau skilyrði eru sköpuð að þetta tap kunni jafnvel að aukast þá mun það draga úr þjóðartekjum og skapa meira atvinnuleysi. Hér verður því að hafa í huga heildarhagsmuni þjóðarinnar en ekki aðeins hagsmuni afmarkaðs hóps. Ef fyrirtæki í ákveðnu byggðarlagi, tiltölulega litlu byggðarlagi, sem hefur verið að reyna að aðlaga sig þessum reglum, er gert erfiðara um vik og jafnvel ómögulegt að starfa þá hefur það víðtækari áhrif en menn sjá fyrir. Ég held að það sé alveg ljóst að menn hafa ekki farið nægilega vel ofan í áhrif þessara reglna til þess að það sé í reynd verjandi að lögfesta sérstaklega þessa 15% reglu. Það hlýtur að vera skynsamlegra að doka við og fara betur ofan í málið með þeim aðilum sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta og flytja þá nýtt frv. að því er varðar þetta mál á haustþingi. Það er ekkert sem mælir með því að rjúka til og fara út í þessa breytingu.
    Við höfum fengið frá hagsmunaaðilum nokkur dæmi um það hverju þetta kunni að valda. Ég held að það sé alveg ljóst að þetta mun fyrst og fremst valda vandræðum þegar aðstæður breytast í samfélaginu, sem gerist mjög oft. Útgerðaraðili sem er tiltölulega bjartsýnn í upphafi vertíðar, t.d. loðnuvertíðar, kann þá að gera ráðstafanir sem verða til þess, ef nýjar aðstæður koma upp, að honum er ómögulegt að aðlaga sig að hinum breyttu aðstæðum. Þó það sé að sjálfsögðu mikilvægt að skipuleggja fiskveiðiárið sem best þá er það staðreynd að það koma upp breyttar aðstæður áður en varir og menn þurfa þá að geta tekið nýjar ákvarðanir.
    Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að búa til reglur sem gera mönnum ómögulegt að gera breytingar vegna nýrra aðstæðna. Þannig að við í þingflokki Framsfl. erum andvígir þessari breytingu í þeirri mynd sem hún er í og bendum m.a. á að það er óeðlilegt að skylda aðila með þessum hætti án þess að gera sér grein fyrir því hvert verðmætatapið verður. Því er haldið fram af ábyrgum aðilum í greininni að við þetta kunni að tapast milljarðar kr. á ári. Jafnvel þótt það væri ekki nema einn milljarður eða tveir milljarðar og það sé kannski dreginn frá helmingurinn, eins og mátti skilja á talsmanni Þjóðhagsstofnunar í gær, þá held ég að það sé alveg ljóst að niðurstaðan verður sú að milljarðar muni tapast, a.m.k. er útlitið þannig í dag.
    Er nú ekki ástæða til þess fyrir íslenskt þjóðfélag að staldra við og athuga hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir það? Eða höfum við efni á því að láta sem ekkert sé þegar því er haldið fram að milljarðar muni tapast? Hverjir hafa hagsmuni af því? Mun sjómannastéttin hagnast á því? Nei, hún mun ekki gera það. Hún mun tapa á því til langframa. Ég held að það sé enginn vafi á því. Mun landverkafólkið hagnast á því? Nei, það mun tapa á því. Ætli það skipti ekki líka máli fyrir ríkissjóð, sem er að berjast hér við allt of mikinn halla, að missa af tekjum sem þessum. Þannig að það er ekki nóg með það að núv. hæstv. ríkisstjórn sé að boða það í tíma og ótíma, a.m.k. ákveðnir talsmenn hennar, að nú eigi að fara að skattleggja þessa atvinnugrein með auðlindaskatti, atvinnugrein sem býr við taprekstur, heldur á jafnframt eins og ekkert sé að búa til reglur sem skapa óhagræði og munu minnka tekjur verkafólks og sjómanna. Jafnvel þótt það sé gert í nafni þess að koma í veg fyrir hugsanlegar deilur þá er það að mínu mati ekki réttlætanlegt að setja niður deilur með þeim hætti að milljarðar muni tapast. Það er alveg ljóst að þar eru líka aðrir sem hafa mikilla hagsmuna að gæta og munu þá áreiðanlega taka upp álíka mál í samningum við sína viðsemjendur þegar fram líða stundir.
    Að því er varðar hina svokölluðu 50% reglu, þ.e. að hvert skip verði að veiða a.m.k. 50% af sínum veiðiheimildum, þá gegnir nokkuð öðru máli. Þessi regla var áður sú að skipið þurfti að veiða 25%. Ég tel að þarna sé of langt gengið, þó ég geti tekið undir að það var ástæða til að hækka þessa prósentu, en að mínu mati verða þá öll skip að vera jöfn innan þeirra marka, en í þessum reglum er gert ráð fyrir því að úthafsveiðiskip njóti sérstakra kjara, ef svo má að orði komast í þessu sambandi. Að mínu mati hefði verið eðlilegra að hafa þessa prósentu eitthvað lægri og allir sætu þá við sama borð.
    Ég nefni líka í sambandi við hitt málið að þar sitja aðilar ekki við sama borð. Stóru útgerðirnar munu ekki verða í neinum vandræðum vegna þess að það eru engar hömlur á því að flytja aflaréttindi milli skipa innan sömu útgerðar en þeir smærri munu lenda í vandamálum. Ég bendi á þá mótsögn að það er óeðlilegt að mínu mati að ekki sé þá um leið gripið til ráðstafana sem gera ráð fyrir því að skip hafi einhver lágmarks aflaréttindi til að þau fái veiðirétt. Það er óeðlilegt að skip sem er skyldað til að veiða við skulum segja 200 tonn af sínum aflaréttindum þurfi að gera það á sama tíma og sams konar skip, nákvæmlega sömu gerðar, má gera út þó það hafi ekki nema tíu eða tuttugu tonn og jafnvel minna. Það er hluti af þessum framsalsvanda. Þannig að ef það ætti að vera jafnræði þá hefði verið eðlilegt að taka upp þá reglu að sérhvert fiskiskip þyrfti að hafa tiltekið lágmark. Það er hins vegar ekki einfalt mál að útfæra það í einum vetvangi og ég er ekki með beina tillögu um það á þessu stigi, en ég tel að það hefði þá verið eitt af því sem hefði þurft að fara betur ofan í í sambandi við framsalsmálið.
    Ég vil því að endingu lýsa yfir stuðningi við þetta frv. sem hér er komið fram, eins og það lítur út. Hitt er svo annað mál að ég hef mikla fyrirvara að því er varðar málið í heild, sérstaklega vegna þeirra afleiðinga sem breytingar á framsalsreglunum kunna að hafa. Ég hefði talið skynsamlegt að fresta því máli til haustsins og fara betur ofan í það af nefnd sem til þess yrði sérstaklega skipuð.