Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 11:31:58 (6700)


[11:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Allir hv. þm. þekkja og auðvitað öll þjóðin aðdragandann að þessu máli. Auðvitað er hann allur á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar sem með þeim aðferðum sem hún hefur notað við endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða hefur komið öllu í bál og brand í þessu þjóðfélagi. Það gerðist auðvitað eins og til var stofnað í upphafinu þegar ríkisstjórnin setti á fót tvíhöfða nefndina frægu sem gerði sínar tillögur án samráðs við fjölmarga aðila í þjóðfélaginu, án möguleika fyrir stjórnarandstöðuna og ýmsa aðila til að hafa áhrif eða koma á framfæri sínum ábendingum um hvað þyrfti að lagfæra í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við. Þegar síðan tvíhöfða nefndin skilaði þessum tillögum sínum af sér þá neituðu sjómannasamtökin að taka þátt í því að ráðgast um þessar tillögur nema því aðeins að það yrði tekið á kvótabraskinu. Þannig lá málið fyrir fyrir ári síðan og ríkisstjórnin vissi að það stefndi í óefni og átök á milli útgerðarmanna og sjómanna. En það var ekkert gert til þess að reyna að leysa úr málinu. Það átti bara að keyra áfram með kíkinn á blinda auganu, halda sig við þessi sjávarútvegsfrumvörp sem búið var að semja og svo langt gekk þetta að sjávarútvegsfrumvörpin voru lögð fram óbreytt fyrir jólin þegar vantaði ekki nema nokkra daga í verkfall sjómanna. Þetta segir auðvitað sína sögu um það hvernig þessir hlutir hafa orðið til sem við erum með hér í höndunum og það er ekki nema eðlilegt að það verði átök um lok málsins. Þegar kom síðan að verkfallinu þá var greinilegt að vilji til samninga var ekki fyrir hendi. Og hvers vegna? Vegna þeirrar gömlu sögu að verkföll sjómanna hafa yfirleitt verið bönnuð. Ýmsir aðilar töldu að það væri nú kannski bara betra að það yrðu sett lög á verkfallið heldur en að farið yrði að semja og alvaran í samningunum var þess vegna ekki nægilega mikil. Síðan komu þessi bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar þar sem hún í raun og veru tók að sér að leysa málið og lausn hennar á málinu liggur nú hér á borðum hv. þm.
    Ég tel að eftir atvikum sé ekki mjög margt við þessa niðurstöðu málsins að athuga sem hér er lögð fram. Ég tel að það hafi verið sanngjarnar kröfur sjómannasamtakanna að koma á einhvers konar samstarfsnefnd með þessum hætti eða líkum hætti og hér er lagt til. Og ég tel að það hafi verið eðlileg krafa sjómannasamtakanna að það yrði stoppuð af sú aðferð sem notuð hefur verið að láta sjómenn taka þátt í verslun með veiðiheimildir. En á bak við átökin í vetur í verkfallinu var það auðvitað stærst að ýmsir útgerðaraðilar og fiskvinnsluaðilar líka vildu að það yrði ekki samið um að sjómenn slyppu við að taka þátt í kvótakaupum og enn er spurningarmerki við það hvort þessi aðferð muni verða til þess að sjómenn verði losaðir undan því að taka þátt í kvótakaupum.
    Það kom í ljós á fundi sjútvn. að skilningur á því frv. sem hér er til umræðu er ekki nákvæmlega eins hjá útvegsmönnum og sjómönnum. Það kom alveg skýrt fram frá hendi forustumanna LÍÚ og forustumanna fiskvinnslustöðva að þeir töldu að það væri hægt að halda áfram að versla með svipuðum hætti eða sama hætti með fisk og veiðiheimildir og vísa til seinni hluta yfirlýsingar sem fylgdi kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna frá 1992. Sú yfirlýsing er að hluta til lögfest eða það er hér tillaga um að lögfesta hluta af þeirri yfirlýsingu núna í þessum lögum sem hér eru til umræðu en seinni hluti yfirlýsingarinnar er ekki með. Á grundvelli seinni hluta yfirlýsingarinnar telja útvegsmenn í landinu sig hafa verið að vinna í t.d. þessum svokölluðu tonn á móti tonni viðskiptum og hafa haldið því hiklaust fram og gerðu það á fundi sjútvn. að það væri í samræmi við þessa samninga sem sú verslun færi fram. Fyrri hluti yfirlýsingarinnar sem vitnað er til í lögunum hér eða raunverulega er verið að lögfesta hér í lögunum hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað.``
    En seinni hluti yfirlýsingarinnar hljóðar aftur á móti svona:
    ,,Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir né samninga einstakra útgerða við fiskkaupendur um fiskverð.``
    Þessi seinni hluti yfirlýsingarinnar hefur verið túlkaður með þeim hætti að það mætti taka hið raunverulega söluverð aflaheimildanna inn í fiskverðið þannig að skiptaverð sjómanna lækkaði um söluverð aflaheimildanna. Ég er hér með fyrir framan mig samkomulag, dæmi um samkomulag, sem er gert á milli áhafnar og útgerðar og þetta form er mér sagt að forsvarsmenn útvegsmanna í landinu hafi raunverulega látið fara til sinna umbjóðenda sem tillögu um það hvernig eigi að ganga frá samningum eins og þessum. Þetta samkomulag hljóðar svona, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem aflamark skipsins hefur verið skert fiskveiðiárið 1993--1994 eins og raun ber vitni og kvóti skipsins mun ekki þar af leiðandi endast út kvótaárið að óbreyttu eru aðilar sammála um að til þess að halda megi skipinu út til veiða lengri tíma kvótaársins verði að grípa til þess á kvótaárinu að veiða fyrir þriðja aðila. Veiði skipið fyrir þriðja aðila af kvóta sem hann á eða útvegar hvort heldur um er að ræða fiskverkanda, fiskmarkaði eða umboðsaðila, samanber 2. mgr. yfirlýsingar SSÍ og LÍÚ dags. 26. apríl 1992, skal draga andvirði kvótans frá söluverði aflans áður en til skipta kemur til áhafnar. Samkomulag þetta skal gilda kvótaárið 1993--1994 og til staðfestu framanrituðu samkomulagi skrifa aðilar nöfn sín hér undir.``
    Síðan skrifar áhöfnin og útgerðarmaðurinn undir. Þarna er verið að vísa til seinni hluta yfirlýsingarinnar. Og á fundi sjútvn. kom þessi fullyrðing fram. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að skilningur á þessu atriði verði alveg klár. ( Gripið fram í: Þessi yfirlýsing er ekki í yfirmannasamningunum?) Það kemur ekki til mála, finnst mér, að hv. Alþingi staðfesti hér lög þar sem mismunandi skilningur liggur fyrir frá upphafi á því hvernig eigi að framkvæma þau. Ég tel að það þurfi að liggja fyrir alveg skýrt hvað þingmenn eru að meina með því að standa að þessari lagasetningu.
    Það er alveg rétt sem kom hér fram í frammíkalli að þessi seinni hluti yfirlýsingarinnar sem er í samningum Sjómannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna er ekki í öðrum samningum. Hann er ekki í samningum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og ekki í samningum Vélstjórafélags Íslands. En samt hafa útgerðarmenn í þessu landi komist upp með að draga þessi verðmæti frá skiptaverði áður en til skipta kemur og það er alveg greinilegt að það er hugmyndin að halda því áfram.
    Nú skal ég ekkert um það segja hvort það muni takast en ég tel að það sé a.m.k. nauðsynlegt að hv. Alþingi og hv. alþingismenn séu með alveg skýran hug í því hvað það er sem þeir eru hér að samþykkja í þessu efni.
    Það var annars mjög undarlegt að hlusta á samningsaðilana í vetur þegar þeir voru að takast á í verkfallinu. Í fjölmiðlum viðurkenndu t.d. forustumenn íslenskra útvegsmanna aldrei að það væri verið að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Þeir sögðu að það hefði aldrei sannast. Samt liggur þessi yfirlýsing fyrir sem útgerðarmenn nota, sem ég las upp áðan. Síðan höfum við, allir þingmenn, fengið skjal í hendur, býst ég við, a.m.k. fékk ég það í gær, og það eru ábendingar frá einhverjum hópi útgerðarmanna sem hefur tekið sér nafnið atvinnumenn og greinir þá víst frá mönnum sem eru ekki atvinnumenn, sem ég veit nú ekki hverjir eru. En þessir aðilar, sem kalla sig atvinnumenn í útgerð og fiskvinnslu, segja hér á einum stað í sinni yfirlýsingu, með leyfi forseta, til upplýsingar fyrir þá sem kannski hafa ekki verið alveg vissir um það hvor aðilanna hefði haft rétt fyrir sér með það hvort sjómenn væru yfirleitt látnir taka þátt í kvótakaupum. Þá segir hér í einum stað í yfirlýsingu atvinnumannanna, sem hljóta um þetta gerst að vita. Þar er sagt undir fyrirsögninni Samráðsnefnd:
    ,,Ef túlkun sjómannaforustunnar á orðum sjútvrh. um vinnutilhögun samráðsnefndar sjómanna og útgerðarmanna er rétt myndi útgerðarmaður vertíðarbáts þurfa að hækka launagreiðslur til sinna sjómanna í tonn á móti tonni viðskiptum um 25%.`` Þetta segja atvinnumenn. ,,Ef framlegð þess báts hefði verið 10% áður yrði hún mínus 4% eftir þessar greiðslur. Allir sem vilja sjá að þessi viðskipti yrðu úr sögunni ef fiskverðið yrði hækkað á þennan hátt.``
    Ætli menn þurfi nokkuð meiri staðfestingu á því hvað sjómenn hafa verið að segja um það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig annað heldur en þessa yfirlýsingu atvinnumanna í útgerð og fiskvinnslu sem láta þetta fara frá sér, að það muni 25% á kjörum þeirra sjómanna sem taka þátt í kvótakaupum með þessum hætti og hinna sem ekki gera það? En ég geri ekki ráð fyrir að menn muni eyða tíma sínum í það að rífast um þá hluti hér.
    Ég vil til upplýsingar fyrir þingmenn til viðbótar við þetta, svo menn sjái þetta svart á hvítu --- ég er hér með dæmi um hvernig einn mánuður lítur út hjá skipi sem var gert út frá Suðurnesjum í vetur. Þar kemur í ljós að hásetahlutur hefði átt að vera þennan mánuð, sem gekk mjög vel, 269 þús. kr., en var 161 þús. kr. Mismunurinn var tæplega 108 þús. kr. á því sem hefði átt að koma í hlut hásetans og því sem hann fékk.
    Alþb. hefur fjallað um þessi mál. Á landsfundi flokksins í haust voru samþykktar tillögur um sjávarútvegsmál þar sem m.a. var tekin afstaða til þessara mála. Það stendur hér, með leyfi forseta, í ályktun landsfundar:
    ,,Styðja ber baráttu sjómanna gegn viðskiptum með aflaheimildir sem fara fram á þeirra kostnað og banna á með lögum að sjómenn taki þátt í kostnaði við öflun veiðiheimilda.`` Síðan segir: ,,Meðan endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir þarf að taka á þeim vanda sem frjálst framsal aflaheimilda hefur skapað með reglum sem takmarka það verulega, m.a. þannig að fyrst og fremst verði um að ræða skipti á jafngildum veiðiheimildum og sveigjanleika ef bilanir eða óviðráðanlegar orsakir valda röskun á útgerð.``
    Ég tel rétt að vitna til þessarar ályktunar landsfundar til að menn átti sig á því að í raun og veru hefur Alþb. tekið afstöðu til þessara atriða. Þetta var síðan áréttað á miðstjórnarfund í vetur og ég vil, með leyfi forseta, vitna í þá ályktun. Þar segir m.a.:
    ,,Afstaða Alþb. til grundvallaratriða þeirrar stefnumörkunar liggur fyrir [þ.e. stefnumörkunar í sjávarútvegsmálum og gagnvart endurskoðun fiskveiðistefnunnar] þar sem er í miðstjórnar- og landsfundarsamþykktum. Þar er krafan um afdráttarlausa tryggingu fyrir þjóðareign og auðlindum hafsins efst á blaði, en núverandi kerfi með frjálsu framsali aflaheimilda og sölu á óveiddum fiski í sjó samrýmist ekki þeirri grundvallarreglu.``
    Það er þess vegna af eðlilegum ástæðum sem við alþýðubandalagsmenn hljótum að lýsa yfir stuðningi við þessi frv. þó við höfum út af fyrir sig ekki ráðið um það með hvaða hætti þau hafa orðið til. Það er þá a.m.k. orðið ljóst að flokkurinn sem slíkur hefur tekið afstöðu til málsins, að það verður að koma þessum málum í betra horf heldur en þau hafa verið og samskiptum sjómanna og útgerðarmanna í eðlilegt horf.
    Við höfum séð það hvernig þessir hlutir eru raunverulega að fara með grunninn undir hlutaskiptakerfi sjómanna og útgerðarmanna. Og við höfum hlustað á það í sjútvn. að fleiri en einn og fleiri en tveir útgerðarmenn sem komið hafa á fund nefndarinnar, sem vilja að þetta kvótakerfi verði sem allra frjálsast og framsalsréttur útgerðanna verði sem allra mestur, hafa sagt: Hlutaskiptakerfi sjómanna passar ekki við kvótakerfið. Það er full ástæða til þess að skoða þann möguleika að breyta þess vegna þessu kerfi, þ.e. hlutaskiptakerfi sjómannanna og það er greinilegt að sú barátta er hafin að leggja það niður.
    Eins og ég sagði áðan þá er þetta mál auðvitað á ábyrgð hv. ríkisstjórnar. Ég tel samt að það sé full ástæða til þess fyrir þá sem vilja að þessum málum sé komið í eðlilegan farveg að styðja þessa lagasetningu. Ég geri ráð fyrir að við munum skoða vandlega að koma með brtt. eða viðbótartillögu við lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Ef það kemst ekki betur á hreint í umfjöllun nefndarinnar hvor skilningur útgerðarmanna eða sjómanna á því hvað er verið að lögfesta er réttur að því leyti til þá er full ástæða til að það verði flutt brtt. sem tekur mjög skýrt á því máli til að forðast vandræði og erfiðleika sem hljóta að verða í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna ef Alþingi afgreiðir lög sem eru strax túlkuð á mismunandi hátt af samningsaðilum sem er raunverulega verið að ljúka samningum fyrir í svo mikilvægu máli.