Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 12:20:03 (6712)


[12:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef hv. þm. hefði hlustað á ræðu mína frá upphafi þá hefði hann heyrt þá skoðun mína að við núverandi aðstæður ætti að lögfesta það frv. sem var verið að mæla fyrir núna og aðra lagabreytingu sem þar er. Koma á samstarfsnefndinni, lögfesta hana og láta þar við sitja í bili. Ég dreg mjög í efa að aðrar breytingar sem á að gera, samanber 50% og 15% regluna, séu til hagsbóta fyrir sjómenn ef við lítum á það mál til lengri tíma. Ég dreg það mjög í efa. Ég veit reyndar að það er engin samstaða um þær breytingar meðal sjómanna. Þar eru mjög mismunandi sjónarmið uppi. (Forseti hringir.)
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um að ég hefði farið út fyrir það mál sem hér er til umræðu (Forseti hringir.) þá kann það vel að vera rétt en það er jafnljóst að af hálfu ríkisstjórnarinnar eru öll þessi mál undir núna í einum pakka (Forseti hringir.) og þar er ekkert skilið á milli.