Vátryggingastarfsemi

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 15:10:41 (6733)


[15:10]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um vátryggingastarfsemi.
    Hv. heilbr.- og trn. var einhuga um afgreiðslu málsins til 2. umr. eins og fram kemur í nál. og hjálögðum brtt. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir brtt.
    1. Lagt er til að 27. gr. verði breytt með þeim hætti að staðfesting Vátryggingaeftirlitsins verði ekki beinlínis forsenda þess að breytingar á samþykktum vátryggingafélags öðlist gildi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Talið er að slíkt fortakslaust skilyrði sé of bindandi fyrir félögin, enda þótt eðlilegt sé að Vátryggingaeftirlit fái upplýsingar um þær breytingar sem verða á starfsemi vátryggingafélaga. Því er hér lagt til að slíkar breytingar verði tilkynntar innan viku frá samþykkt þeirra þannig að eftirlitinu gefist tækifæri til að gera athugasemdir við þær innan tveggja mánaða.
    2. Breytingar þær, sem lagðar eru til á 56., 62. og 63. gr. eru af sömu rót runnar. Nefndin leggur til að rýmkaður verði réttur vátryggingataka skv. 62. og 63. gr. Í þessum ákvæðum frumvarpsins felst að íslensk lög gildi fortakslaust um þá vátryggingasamninga sem Íslendingar kjósa að gera við erlend vátryggingafélög, en að vátryggingataki geti ekki valið sjálfur hvaða reglur hann kýs að semja um. Nefndin telur þessi skilyrði óeðlilega þröng og að þau hefti jafnt vátryggingataka og vátryggingafélög og séu þannig í andstöðu við grundvallarmarkmið um frelsi á þessu sviði. Því er lagt til að vátryggingataki geti samið um að löggjöf heimaríkis vátryggingafélags gildi um vátryggingasamninginn. Nefndin telur þó mikilvægt að hagsmunir vátryggingataka séu tryggðir, ekki síst þegar um er að ræða samninga á sviði líftrygginga. Því er lagt til að samhliða rýmkun á 62. og 63. gr. verði gert að skilyrði að vátryggingataka hafi verið kynnt ítarlega efni þeirrar löggjafar sem hann kýs að gangast undir. Leitast er við að tryggja það með

breytingu sem lögð er til í 56. gr. frumvarpsins sem kveður á um upplýsingaskyldu.
    3. Lagt er til að hinn svonefndi ,,iðrunarréttur``, sem kveðið er á um í 60. gr., gildi einungis um líftryggingar sem teknar eru til sex mánaða eða lengri tíma. Með því er komið í veg fyrir hugsanlega misnotkun vátryggingataka, þ.e. að menn taki slíka tryggingu í tengslum við tiltekna tímabundna áhættu, svo sem vegna lífshættulegrar aðgerðar, en segi henni síðan upp innan 30 daga frestsins.
    4. Lagt er til að bætt verði við í ákvæði til bráðabirgða nýrri málsgrein sem tryggi að unnt verði að framfylgja nauðsynlegu eftirliti stjórnvalda með starfsemi erlendra vátryggingafélaga hér á landi. Fyrir liggur að ákvæði tiltekinna gerða EES-samningsins munu ekki taka gildi á sama tíma í öllum aðildarríkjum samningsins og kunna þá lagareglur, reistar á eldri gerðum, enn að vera í gildi í sumum aðildarríkjum. Með breytingunni, sem hér er lögð til, er komið í veg fyrir að misræmi skapist í framkvæmd eftirlits með vátryggingastarfsemi í samskiptum ríkjanna.
    Virðulegi forseti. Undir þetta rita ásamt frsm. er hér stendur, Guðmundur Hallvarðsson, Finnur Ingólfsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Sólveig Pétursdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Ég legg til að þessu máli verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umræðu.