Vöruflutningar á landi

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 15:16:00 (6735)


[15:16]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta til laga um vöruflutninga á landi.
    Nefndin fékk á sinn fund Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra og Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, og þá Sigurgeir Aðalgeirsson, formann Landvara, sem er landsfélag vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, og Guðmund Arnaldsson, framkvæmdastjóra þess félags.
    Þessir aðilar ásamt öðrum sem að málinu hafa komið leggja til að frv. verði samþykkt. En rétt er að geta þess að þeir fulltrúar Landvara telja þörf á því að sett verði víðtækari löggjöf um vöruflutninga á landi heldur en í gildi er og heldur en það sem felst í frv. Frv. felur fyrst og fremst í sér að það er verið að tryggja réttindi okkar Íslendinga til þess að taka þátt í flutningum á landi innan EES-svæðisins þannig að íslenskir flutningaaðilar geti notað sér kosti EES-samningsins með eðlilegum hætti.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt en fjarverandi við afgreiðslu málsins voru þeir hv. þm. Egill Jónsson og Guðni Ágústsson.