Alþjóðadómstóllinn sem fjallar um stríðsglæpi í Júgóslavíu

143. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 15:22:16 (6736)

[15:22]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjalla um stríðsglæpi í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Nál. er á þskj. 1058 og brtt. frá nefndinni á þskj. 1059.
    Nefndin fjallaði um málið og fékk á fund sinn Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra frá dómsmálaráðuneytinu.
    Tilgangur frumvarpsins er að framfylgja af Íslands hálfu þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem leiða af ályktun samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 827 frá 25. maí 1993 um að koma á fót alþjóðlegum dómstóli þar sem rekin verða mál gegn mönnum sem taldir eru ábyrgir fyrir alvarlegum brotum á alþjóðlegum mannúðarreglum frömdum í Júgóslavíu, sem svo hét, frá og með 1. janúar 1991. Þar sem þessi ályktun er tekin með vísan til VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna skuldbundin til nauðsynlegra aðgerða til að unnt sé að framfylgja henni. Ekki er gert ráð fyrir að dómstóllinn, sem hefur aðsetur í Haag í Hollandi, verði varanlegur heldur er honum ætlað að starfa þar til öryggisráðið ákveður annað.
    Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru skv. VII. kafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða skuldbundin til að starfa með dómstólnum og sjá til þess að viðkomandi yfirvöld framfylgi beiðnum hans um réttaraðstoð. Er mikilvægt að frumvarp þetta nái nú fram að ganga þar sem gert er ráð fyrir að dómstóllinn, sem var skipaður síðastliðið haust, hefji meðferð mála ekki síðar en í byrjun júlí á þessu ári.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Vegna ábendinga um að orðalag 3. mgr. 5. gr. kynni að vera óljóst er lagt til að skýrt verði kveðið á um að sá sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald vegna framsalsbeiðni geti eftir 30 daga frá þeim úrskurði krafist úrskurðar dómstóls um hvort hann skuli sitja áfram í gæsluvarðhaldi.
    Gísli S. Einarsson og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.
    Þeir sem undirrita nál. eru Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jón Helgason, Tómas Ingi Olrich, Kristinn H. Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson og Árni M. Mathiesen.