Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 16:58:13 (6743)


[16:58]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Svo sem fram kom fyrr í þessari umræðu þá er hér um tvíþætt frv. að ræða og ég hefði talið það eðlilegra að lögð væru fram tvö aðskilin frv. í stað eins eins og hér hefur verið valið. En út af fyrir sig er það engin frágangssök.
    Ákvörðun um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna er góðra gjalda verð en hún kemur bara allt of seint og í kjölfarið sigla breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem eru að flestu leyti jafnvondar og tillögur tvíhöfða þótt gallarnir séu aðrir í þeim tillögum heldur en í hinum upprunalegu.
    Í þessu samhengi verður að skoða málið og harma það að menn báru ekki gæfu til að leysa það mál sem þeim var falið að leysa án þess að draga allt með sér, allt hið meingallaða fiskveiðistjórnunarkerfi, út á enn vitlausari mið en fyrr. Það er út af fyrir sig engin tilviljun að menn hafa tengt þessi tvö mál í umræðunni í dag því það er það sem stjórnarliðar gera beinlínis í þessu frv. þar sem í greinargerð er að finna eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Loks tengjast þessu máli okkrar brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er þrengja möguleika til að misnota viðskipti með aflamark. Ber þar sérstaklega að geta eftirtalinna atriða:
    Lagt er til að fellt verði úr frv. ákvæði um að heimilt sé að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva.
    Lagt er til bann við því að flytja aflamark til skips ef meira en 15% aflamarks af sömu tegund hefur verið flutt af skipinu á fiskveiðiárinu og öfugt.
    Lagt er til að ef skip notar ekki 50% eða meira af aflamarki sínu tvö ár í röð falli bæði aflahlutdeild og veiðileyfi þess niður.
    Lagt er til að bannað verði að flytja til skips aflamark sem bersýnilega er umfram veiðigetu þess.``
    Það er engin furða þegar í greinargerð við frv. til laga eins og þetta, sem heitir því afskaplega meinleysislega nafni ,,um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum``, er síðan verið að ræða breytingar á öðrum lögum eða öðru frv. Og ég verð að taka undir það að vissulega verður að þrengja möguleika til að misnota viðskipti með aflamark. Hver er hlynntur einhverri misnotkun af einu eða öðru tagi í þessu eða öðru? En það sem ég er hins vegar á móti er að ég tel að hér hafi alls ekki verið farin rétt leið. Vissulega hef ég efasemdir um kerfi hins frjálsa framsals og ég er ekki ein þeirra sem reka upp ramakvein út af því að það eigi að fara að takmarka frjálst framsal út af fyrir sig, en ég held að það verði að líta á hvert dæmi í þeirri heild sem það er og gæta þess að það sé ekki verið að breyta í einhverri tímapressu að vori til tvist og bast málum og fá út úr því óskapnað sem menn hvorki skilja né geta varið. Það virðist vera það sem er að gerast núna.
    Enn fremur er mér það ekki bara þyrnir í augum, mér finnst það alveg óskaplega slæmt, að það skuli vera hluti af þessu dæmi að fella út úr frv. um stjórn fiskveiða ákvæði um að heimilt sé að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva sem var sá litli vísir af byggðakvóta sem við þó sáum í tillögum tvíhöfða nefndarinnar og í því frv. sem við höfum verið að fjalla um um stjórn fiskveiða fyrr. Það er út af fyrir sig raunar hægt að fara hvora leiðina sem er, að vera með fiskvinnslukvóta annars vegar eða hins vegar að nýta framsalið til þess í raun að búa sér til fiskvinnslukvóta til þess að hafa kerfi sem mér sýnist að verði í alla staði ásættanlegra. Ég verð að viðurkenna að ég er búin að missa nánast alla trú á því að menn taki rökum í þessum málum, en mér finnst þó a.m.k. að þeir verði að hlýða á rök og hæstv. sjútvrh. svo og frsm. þessa máls gera það vissulega. Alla vega eru þeir við þetta og það er út af fyrir sig alveg hreint guðs þakkar vert.
    Allt tal um það um að umræðan hafi verið að fara eitthvað út um víðan völl leiðir af frv. sjálfu og það ber enginn ábyrgð á því nema stjórnarliðar. Ég býst við að þingmönnum yrði það ekkert ýkja erfitt að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir ef ekki væri þetta litla leiða viðhengi, frv. um stjórn fiskveiða og þróunarsjóðinn, með þeim breytingum sem einmitt tengist þessu máli og því samkomulagi sem hér hefur verið rætt um að hafi verið gert úti í bæ þótt menn séu almennt afskaplega tregir að kannast við krógann. Eftir því sem dagarnir líða frá þessu meinta samkomulagi við hagsmunaaðila heyrist mér líka að efasemdaraddirnar hækki úr röðum allra þeirra sem hafa komið að máli eða a.m.k. flestra. Menn hafa kannski hægt um sig sem eru næstir toppunum í einhverjum af þessum samtökum, en þegar neðar dregur þá heyrist mér að töluverðrar óánægju sé farið að gæta.
    Ég get fyllilega tekið undir þau sjónarmið sem komu einna fyrst fram og einna sterkast við þessum tillögum í heild, að hagsmunir fiskvinnslunnar hafi verið fyrir borð bornir í þessum hrossakaupum. Það er nefnilega nákvæmlega það sem skiptir máli og hagsmunir fiskvinnslunnar eru jafnframt hagsmunir byggðarlaganna og fólksins sem vinnur við fiskvinnslu. Það er kannski ekki nokkur tilviljun að fiskvinnslan á sí og æ undir högg að sækja. Þar eru konur við störf og þær hafa því miður ekki haft eins sterka málsvara og ýmsir aðrir. Þrátt fyrir það er hér verið að leysa mál annars hagsmunahóps sem er mun sterkraddaðri. Ég get tekið undir að það þarf að leysa og það er engin réttlæting að fara að brjóta á sjómönnum þótt það

verði reynt að taka á málefnum fiskvinnslunnar af einhverjum myndarbrag. Þess vegna vona ég að menn falli ekki í þá gryfju að fara að hugsa annaðhvort eða því að þeir verða náttúrlega að skilja að það verður að líta heildstætt á málið.
    Ég verð að viðurkenna það að fyrstu viðbrögð mín við þeim tillögum sem nú eru að formast ein af annarri og birtast í frv. þegar ég var beðin um að segja álit mitt á því voru að ég lét orð falla eitthvað í þá átt að ég sæi ekki neina skynsemi í því að menn næðu saman um þessar tillögur og það mundi aðeins gerast ef hræðsla eða hrossakaup réðu ferðinni. Mér sýnist því miður að þetta lauslega mat eigi við.
    Ég ætla að víkja aðeins að efnisatriðum frv. Ég held að það væri auðvelt að fá góðan meiri hluta fyrir frv. einu og sér og það mætti hugsanlega hnýta við það þeim viðbótum sem þyrfti til þess að taka af öll tvímæli um að kostnað vegna kvótakaupa væri óheimilt að draga frá skiptaverði áður en til hlutaskipta kæmi, því að um það hefur deilan snúist. Nú þykjast menn vera að reyna að taka á því. Það þarf út af fyrir sig ekki að fara ýkja mörgum orðum um þessa leið sem hér er valin, nefndina sem við ræddum í janúar í kjölfar þess að ríkisstjórnin fór á taugum og setti lög um sjómannaverkfallið. Þá hefði verið hægt að semja á þessum nótum. Það þarf varla að rifja það upp fyrir þeim sem hér eru að við kvennalistakonur lögðum ítrekað fram að skipuð yrði slík samstarfsnefnd og við vorum raunar búnir að finna henni stað í gildandi lögum. Ég held að mig misminni ekki að nefna hér 72. gr. sjómannalaganna. Ég geri svo sem ekki athugasemd við það þó að málum sé skipað í sérlög, en ég minni á að það var hart deilt um það hvernig skipa ætti slíka nefnd á janúardögum og á undan í deilu sjómanna og útgerðarmanna. Ég hef út af fyrir sig alls ekki athugasemd við þá leið sem valin var hér að oddamaður hafi atkvæðisrétt. Það er sú leið sem sjómenn töldu rétta og ég sé vel þau rök sem eru fyrir þeirri skipan.
    Það er staðreynd að miðað við þá reynslu sem við höfum af meintri þátttöku sjómanna í kvótakaupum, þá er full þörf á slíkri nefnd. Upp geta komið ýmis vafa- og ágreiningsmál og þá er hún nauðsynleg. Það er hlálegt að sjá það nú eftir alla öngvegi sem lágu um kvótaþing og fleira að við erum komin til upphafstillagnanna, enda var það augljóslega alltaf sú leið sem best var að fara. En það var alltaf ljóst frá því að hv. frsm. þessa frv., hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, lýsti andstöðu sinni og fór að mig minnir fremur háðulegum orðum um kvótaþingið með fulltingi ýmissa flokksbræðra sinna og fleiri að sú hugmynd yrði aldrei lausn í málinu þannig að það er síst ofsagt í greinargerð frv. að hugmyndirnar hafi fengið dræmar undirtektir. Þetta er það sem Bretar mundu væntanlega kalla ,,understatement``. Þær voru nánast hakkaðar í spað svo að ég tali skýra íslensku.
    Ég held að út af fyrir sig skipti þessi nefnd sköpum í því að það sé yfir höfuð hægt að taka annan hluta frv. í notkun, ekki vegna þess að ég vilji að þar verði gert út um hina stóru grundvallarspurningu, þá mismunandi túlkun sem enn er í gangi á því hvað felist í þeirri bókun sem í öðrum hluta frv. er lagt til að verði lögfest. Það er einnig arfur frá janúarmánuði. Þá var einmitt bent á þessa leið, lögbindingu þessarar frægu bókunar, en því miður er enn á kreiki mjög mismunandi túlkun á því hvað í því felst að lögbinda þann hluta sem hér er lagt til. Og úr því máli verður að sjálfsögðu að skera svo við sitjum ekki uppi með annað búvörumál þar sem nefndarálit gætu gengið á skjön og alla vega túlkanir. Þá gæti ég kannski farið að biðja hv. 2. þm. Vestf. um að koma með brtt. um það hvað skuli gilda sem túlkun ef til þess kæmi. Það gætu þó verið dagblaðsgreinar ef nefndarálitum væri ekki til að dreifa með mismunandi skilningi.
    Það er ekki hægt að gera ráð fyrir mjög bitastæðum nefndarálitum frá meiri hlutanum í sjútvn. ef tekið er mið af því nefndaráliti sem við sáum um frv. til laga um stjórn fiskveiða frá þeim ágæta meiri hluta á borðum okkar áðan þar sem fremri síðan er upptalning á þeim sem komu á fund nefndarinnar og síðari síðan í nefndarálitinu er upptalning á þeim brtt. sem verið er að kynna. Efnislega stendur ekki nokkur skapaður hlutur í þessu nefndaráliti, en um það munum við ræða væntanlega síðar.
    Hins vegar getur þetta kannski gefið ákveðna vísbendingu um að það yrði að leita túlkana út fyrir nefndarálit ef það verður ekki gengið frá þessum málum skipulega og skörulega og það strax og á ásættanlegan hátt. Mér finnst menn hreinlega vera að skjóta sér undan því að segja að þetta sé skýrt þegar það er ljóst að það eru enn þá mismunandi meiningar úti í samfélaginu. Ég mun stuðla að því ásamt fleirum innan sjútvn. að reyna að fá botn í þetta mál. Mér skilst að það sé einhver hreyfing á því, ég vona að ég hafi skilið það rétt, en ég vona að það dugi ekki bara að gára öldurnar aðeins, það verður að komast til botns í þessu.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég lýsi mig efnislega sammála þeirri leið sem hér er valin, en ég ítreka það að sé þessi leið aðeins hluti af heild, eins og hún hefur verið kynnt, og jafnórjúfanlegur hluti í rauninni af þessu eins og Ísland var einu sinni af Danaveldi og jafnlélegt fyrirbæri að mínu mati, þá get ég að sjálfsögðu ekki staðið að þeirri heildarafgreiðslu. Mér finnst sjálfsagt að skoða hvert þingmál fyrir sig og væri alveg tilbúin að greiða leið þessa frv. eftir þá athugun sem óhjákvæmilega þarf að fara fram í sjútvn.