Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:31:21 (6745)


[17:31]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af spurningum hv. 2. þm. Suðurl. vil ég taka fram að við samningu þessa frv. var að sjálfsögðu rætt við sjómenn og það var að sjálfsögðu ekki sérstakt áhugamál þeirra sem fluttu frv. að það væru sett frekari takmörk á framsal heldur en nauðsynlegt væri til þess að ná sátt við þá. En þetta var okkar mat, að þær takmarkanir á framsali sem komu fram í brtt. við frv. um stjórn fiskveiða kæmu þar inn.
    Það er hins vegar því miður nokkuð orðum aukið hvað þessar takmarkanir á framsali þýða í raun og veru. Þessar takmarkanir koma í sjálfu sér ekki í veg fyrir svokölluð tonn á móti tonni viðskipti, heldur snýst málið í því sambandi fyrst og fremst um það verð sem gert er upp við sjómenn á þegar slík viðskipti eiga í hlut. Að sjálfsögðu taka menn ábendingar þeirra sem standa í þessum rekstri alvarlega og það er sannarlega ekki verið að gera það að gamni sínu að takmarka framsalið með þeim hætti sem gert er hér.
    Varðandi takmarkanirnar þá snúast þær kannski fyrst og fremst um það að á engan hátt er bannað að framselja aflamark til báta sem þeir ætla að veiða sjálfir, heldur er fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að bátar séu notaðir sem kvótabankar og síðan verið að koma í veg fyrir það að menn geti selt aflamark af bát og keypt það svo aftur á hann eingöngu í því skyni að lækka tekjur sjómanna.