Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:33:39 (6746)


[17:33]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér fannst nú vera mótsögn í orðum hv. 5. þm. Norðurl. v. þegar hann sagði að þó hann vildi taka alvarlega orð þeirra sem best þekkja til í þessum málum og hafa sent frá sér mótmæli þá væri nú orðum aukið það sem þeir sögðu. En ef það er öruggt --- mig langar að reyna að fá svar við þeirri spurningu hjá hv. þm. --- að sjómenn taki ekki þátt í kvótakaupum, viðskiptum, eins og bann er lagt við hér í síðustu greinum þessa frv. og nýja frv. á að koma í veg fyrir að það verði brotið, hvernig geta þá þessi viðskipti orðið sjómönnum til tjóns? Ég get ekki skilið það þegar það er augljóst, að þessi viðskipti hafa komið í veg fyrir að útgerðir yrðu að hætta vegna aflasamdráttarins sem hefur orðið alveg gífurlegur á mörgum bátum. Það þekkir hæstv. sjútvrh. vel af lýsingunni af fundum okkar t.d. með Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, þar sem það er ótrúlegt hvað aflamagnið hefur hrapað niður.