Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:04:38 (6756)


[18:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þó ýmsu megi nú skella á mig og gera mig ábyrgan fyrir mörgu þá finnst mér býsna langt gengið að ætla að gera mig ábyrgan fyrir ágreiningi milli Verkamannasambandsins og Sjómannasambandsins. Það eru ekki nema örfáar vikur síðan Verkamannasambandið sagði ekki aðeins að framsal á aflaheimildum stangaðist á við stjórnarskrá, heldur þyrfti að banna það þar að auki. Sem betur fer hafa augu þeirra opnast fyrir mikilvægi aflamarkskerfisins og framsalsins, en mér finnst ekki óeðlilegt að gera þá kröfu til þeirra að þeir ræði þau viðfangsefni innan heildarsamtaka launamanna og við sjómenn. En ég segi enn og aftur, mér finnst það býsna langt gengið af hv. 6. þm. Norðurl. e. að ætla að gera mig ábyrgan fyrir þeim ágreiningi sem þarna er kominn upp á milli þessara tveggja stóru höfuðsamtaka launþega.