Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:07:37 (6759)


[18:07]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil nú minna á að það er að sjálfsögðu Alþingi sem er að taka ákvarðanir í þessum málum. Ég skil mjög vel að það þurfi að taka tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila í þessu máli. En það er eitt sem við framsóknarmenn getum ekki samþykkt í þessu máli og það er að aðilum sé mismunað, hvort sem það er að kröfu hagsmunasamtaka eða annarra. Við getum ekki samþykkt það að aðilar sem eiga mörg skip búi við aðrar reglur en þeir sem eiga eitt eða færri skip. Það er grundvallaratriði sem við höfum alltaf staðið á móti.
    Við teljum einnig að það sé verið að mismuna í flotanum, það er verið að gera betur við úthafsveiðiskipin en önnur skip sem sækja í vannýttar tegundir. Við teljum þetta líka vera mismunun og á það eigi ekki að fallast. Það á að sjálfsögðu að taka eðlilegt tillit til hagsmuna sjómanna, en við teljum að með þessu sé í reynd verið að rýra kjör margra sjómanna í landinu og fyrir því er hægt að koma með skýr rök. Því minni verðmæti hljóta að verða til þess að kjör fólksins landinu munu skerðast.