Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:10:13 (6761)


[18:10]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir vænt um að hæstv. sjútvrh. skuli taka tillit til réttmætrar gagnrýni og ég held að það þjóni alltaf best heildarhagsmunum þjóðarinnar að taka mark á slíkri gagnrýni og reyna að breyta til samræmis við hana. Það er líka mikilvægt að ná sem bestri pólitískri samstöðu um þetta mál hér á Alþingi. Ég hélt að það væri líka markmið.
    Að því er varðar mismunun í sambandi við frystiskipin þá endurtek ég að það er gert ráð fyrir því að hvert veiðiskip þurfi að veiða 50% af sínum aflaheimildum, en það er gerð undantekning með þau skip sem stunda veiðar utan landhelginnar. Það tel ég vera mismunun. Ég tel að sérstaða þeirra skipa sé í sjálfu sér ekki mikil umfram önnur skip sem eru að reyna að hagræða með öðrum hætti, með því að stunda ýmsar sérveiðar og veiðar á vannýttum tegundum. Og það er þessi mismunun sem ég tel vera óréttmæta.