Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:11:33 (6762)


[18:11]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur kannski farið dálítið út um víðan völl, ef svo má að orði komast, eða víðan sjó. Út af fyrir sig held ég að hefði verið heppilegt ef mönnum hefði tekist að halda í grófum dráttum aðgreindum þessum mismunandi frumvörpum sem hér eru eða verða á ferðinni í sjávarútvegsmálunum, en auðvitað er þetta allt samhangandi og kannski erfitt við því að gera þó að menn fari að ræða í raun aðallega um efnisatriði sem alls ekki eru á dagskrá í þessu frv. heldur væntanleg hér til umræðu í kvöld, nótt eða á morgun, þ.e. í formi frv. eða brtt. við frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.
    Ég ætlaði þess vegna aðallega að halda mig við það sem snýr að þessu frv. um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ég vil þó segja, vegna orða sem féllu hér áðan, að mér líkar það heldur illa þegar það liggur við að það sé verið að ýkja upp meintan ágreining og klofning milli einstakra hópa eða stétta úti í þjóðfélaginu, eins og bryddaði á í umræðunni áðan. Ég vara menn við því að vera að stilla málum þannig upp að kominn sé upp einhver heiftarlegur ágreiningur og klofningur til að mynda milli sjómannasamtakanna annars vegar og almennu verkalýðshreyfingarinnar hins vegar. Það er ekki svo. Það liggur alveg fyrir og hefur engin breyting orðið á því að Alþýðusamband Íslands og Verkamannasamband Íslands

styðja sjómenn í baráttu þeirra gegn því að viðskipti með kvóta komi með óréttlátum hætti niður á kjörum þeirra. Sú samstaða hefur ekki verið dregin til baka. Um hana hefur verið ályktað í æðstu stofnunum þessara samtaka, á Alþýðusambandsþingum og Verkamannasambandsþingum, ef ég man rétt. Og þess vegna liggur það í hlutarins eðli að þó svo að það kunni nú vegna breytinga á kvótakerfinu, sem er til umræðu, að vera eitthvað mismunandi sjónarmið uppi gagnvart einstökum þáttum hjá Verkamannasambandinu annars vegar og sjómannasamtökunum hins vegar, þá eru það auðvitað ýkjur og ljótur leikur að stilla því upp sem þarna sé á ferðinni einhver meiri háttar grundvallarágreiningur eða andstaða. Ég vara menn við því að stilla málunum upp með þeim hætti og minni á og ítreka það sem ég sagði áðan, að það liggur auðvitað algerlega fyrir að heildarsamtökin styðja sjómenn, sem þeir eru reyndar aðilar að, í baráttu þeirra fyrir því að kjör þeirra séu ekki rýrð eða skert með ósanngjörnum og óréttmætum hætti í gegnum slík viðskipti.
    Menn geta svo að sjálfsögðu og eðlilega rætt um mismunandi leiðir í því sambandi til að reyna að stemma stigu við því og það er ósköp eðlilegt að upp komi umræður um aukaverkanirnar af því lyfi sem þar er verið að taka inn. Og auðvitað er það svo og það er vel þekkt að menn þurfa stundum að notast við aðferðir eða meðul sem geta haft í för með sér ýmsar aukaverkanir og það mundi mega segja að hér ætti það við að menn hafi áhyggjur af aukaverkunum, ef svo má að orði komast, í sambandi við þær ráðstafanir sem eru til umræðu og eiga að reyna að stemma stigu við óréttmætum viðskiptaháttum með veiðiheimildir sem koma niður á kjörum sjómanna.
    Mér þótti líka hæstv. sjútvrh. fara í óþarflega mikinn habít og er ekki viss um að það sé að öllu leyti skynsamlegt fyrir hann að byrja þessa miklu lotu um sjávarútvegsmálin með þeim hætti sem hann gerði áðan. Að sjálfsögðu verður hæstv. ráðherra að ráða því sjálfur og velja sér verklag í þeim efnum og það er svo sem mér að meinalausu þó hann taki einhverjar snerrur við Framsókn og saki þá jafnvel um ábyrgðarleysi og yfirboðspólitík, eins og fólst í raun og veru í orðum hans hér áðan. Ég vona að það sé samt ekki sérstaklega tengt yfirvofandi forustuskiptum í Framsfl. því það væru þá mikil tíðindi ef þau skyldu marka upphaf samstarfs hæstv. sjútvrh. við hina verðandi forustu Framsfl., þau orð sem hér féllu áðan.
    Hæstv. forseti. Það er eiginlega ekki hægt annað en segja það eins og það er að meðferð hæstv. ríkisstjórnar á þessum sjávarútvegsmálum er að verða einhver allra mesta raunasaga í stjórnmálaheimi síðari árin. Einhver allra mesta raunarsaga. Svona til upprifjunar er rétt að minna á það að það er við afgreiðslu laga á Alþingi vorið 1990 sem það verður hluti af samkomulagi um meðferð þeirra mála að setja skuli inn í lögin sérstakt ákvæði til bráðabirgða um heildarendurskoðun lagaákvæða um stjórn fiskveiða og sú endurskoðun skuli fara fram á næstu tveimur árum og henni skuli ljúka fyrir árslok 1992. Nú er aprílmánuður 1994 að verða allur, lifa eftir af honum fáeinir dagar, og þá er þetta verk í því horfi sem hér ber nú raun vitni og það er auðvitað dapurlegt. Verki sem átti að ljúka fyrir hartnær einu og hálfu ári síðan hefur hæstv. ríkisstjórn klúðrað svo rækilega að það er hér enn í höndum manna og hafandi kostað í millitíðinni harðvítug átök, verkföll, lagasetningar og annað því um líkt.
    Auðvitað er það ljóst, sagan hefur þegar dæmt það, að meðferð hæstv. ríkisstjórnar á þessum málum er eitthvert argasta klúður sem lengi hefur átt sér stað í íslenskum stjórnmálum. Þar markaði náttúrlega hið ógæfulega verklag sem ríkisstjórnin valdi sér strax brautina. Það kann ekki góðri lukku að stýra, það vita m.a. sjómenn allra manna best, að það séu tveir skipstjórar á hverjum koppi. En það var nú samt sú tilhögun sem einmitt þurfi að ganga yfir menn í sambandi við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða af öllum málum að hæstv. ríkisstjórn setti tvo skipstjóra í brúna í hinni frægu tvíhöfða nefnd. Það var ógæfulegt og afleiðingarnar af því hafa svo sannarlega komið fram.
    Sama verður að segja um það að ríkisstjórnin valdi þá ógæfulegu leið að rjúfa langa hefð sem fyrir því var og hafði mótast á umliðnum árum að fulltrúar allra stjórnmálaflokka kæmu jafnan að verki af þessu tagi og sætu í þeim nefndum sem um þau fjallaði eða þau undirbyggju. Og ég minni hæstv. sjútvrh. á að hann getur farið í gegnum það hvernig forveri hans og forverar margir stóðu að slíkum sambærilegum málum. Það var, að ég held, nær undantekningarlaust þannig þegar unnin var forvinna sem varðaði endurskoðun laga um stjórn fiskveiða þá sátu í þeirri vinnu, annaðhvort beint í vinnunefnd eða þá í ráðgjafarnefndum, fulltrúar allra stjórnmálaflokka og oftast með aðilum helstu hagsmunasamtaka einnig.
    En hæstv. ríkisstjórn valdi þarna aðra leið. Hún skipaði þrönga nefnd flokksgæðinga núverandi stjórnarflokka með tveimur formönnum og sleit í raun og veru öllu samstarfi og samráði við stjórnarandstöðuna, líka vegna þess að ákvæði um lögbundið samráð við sjútvn. Alþingis voru hundsuð, voru algerlega hundsuð. Og það er ágætt að það fari hérna einu sinni enn inn í þingtíðindin að tvíhöfða nefndin hafði sjálf aldrei frumkvæði að því að tala við sjútvn. Alþingis um þessi mál. Í tvígang komu fulltrúar hennar á þann vettvang. Það var í bæði skiptin vegna þess að sjútvn. sjálf óskaði eftir því að fá upplýsingar um það hvar þau mál væru á vegi stödd. Var það þó ekki hennar hlutverk vegna þess að lagaskyldan hvíldi á sjútvrh. og hvílir enn, því þau lög eru enn í gildi, að þetta samráð skyldi ástundað. Og auðvitað var það þá framkvæmdarvaldsins að sjá um að þannig væri.
    Þetta finnst mér rétt að rifja hér upp og svo að lokum varðandi málsmeðferðina, hæstv. forseti, að ekki tók betra við þegar tillögur tvíhöfða nefndar voru að mótast á fyrstu mánuðum ársins 1993. Þá slitu sjómannasamtökin samstarfinu um það verk og gengu út úr því starfi vegna þess að á þeirra sjónarmið og þeirra kröfur var ekki hlustað. Og hver er nú orðin afleiðingin af því og niðurstaðan? Það er m.a. kostnaðurinn af þeim mistökum sem menn eru að greiða hér. Það er vegna þess að menn misstu af því tækifæri sem þeir áttu auðvitað að nýta, að reyna að lenda þessum málum í tillögum tvíhöfða nefndar og í framhaldinu í samkomulagi og samráði við sjómenn. Og það er með endemum að síðan skyldi þannig fara að við sjómenn var svo ekkert talað fyrr en að verkfall skellur á um sl. áramót.
    Hæstv. sjútvrh. hefur að vísu sagt úr þessum ræðustóli og víðar að hann hafi verið tilbúinn að tala við sjómenn og síðan væntanlega setið niðri í sjávarútvegshúsi í átta mánuði og beðið eftir að þeir kæmu og bönkuðu á dyrnar. En ég verð að segja alveg eins og er að það er ekki mikið frumkvæði í einum hæstv. sjútvvrh. að bera sig ekki að því að reyna að ná upp samskiptum við heildarsamtök sjómanna og leysa þessi mál. Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að svona liggur sagan fyrir í þessu máli og hún mun auðvitað dæma þetta klúður hart. Það er alveg óhjákvæmilegt.
    Menn þekkja síðan þau hörðu átök sem hér skullu á og leiddu til verkfalls og hvernig því lyktaði með þeim endemum að sett voru bráðabirgðalög nokkrum dögum áður en Alþingi átti að hefja aftur störf í janúarmánuði. Allt er þetta harla dapurlegt og alveg ljóst að þessi aðdragandi málsins gerir það á margan hátt snúnara og erfiðara viðfangs en ella þyrfti að vera. Það er hlaupin illska í málið, eins og sagt er á venjulegu máli, fyrir löngu auðvitað og það er varla von á öðru eins og að þessu hefur verið staðið.
    Nú kemur að því að í frv. er eitt af þeim atriðum á ferð sem er verið að leggja til til þess að reyna að ná aftur einhverju landi með þessi deilumál. Þar er á ferðinni frv. til laga um samstarfsmenn sjómanna og útvegsmanna. Hér er í raun og veru á ferðinni í frumvarpsformi tillaga í grófum dráttum sem lá á borðum sáttasemjara á sl. vetri en strandaði þá á ágreiningi, m.a. um hlutverk þessarar nefndar, oddamann, atkvæðisrétt hans og fleira sem málinu tengjast. Miklu væri nú betur komið ef menn hefðu aðeins sýnt málinu meiri þolinmæði og reynt að leysa þau með farsælum hætti í frjálsum samningum manna á milli á þessum vetrardögum heldur en að sitja uppi með þessa stöðu.
    Maður hlýtur að spyrja sig að því hvað olli því viljaleysi sem þá var á ferðinni gagnvart því að leysa þessi mál. Getur það verið að sú baktrygging annars aðila að deilunni að vita að það var stutt í bráðabirgðalögin hafi valdið því að menn náðu ekki fram lausn sem núna þarf að vera lögfest með miklu torsóttari og krókóttari leið en ella hefði verið hægt? Það er von að spurt sé. Það rifjast líka upp að hæstv. forsrh. neitaði aðspurður að gefa þinginu tryggingu fyrir því áður en það fór heim í jólaleyfi að ekki yrði gripið til bráðabirgðalagasetningar og þau skilaboð flugu auðvitað út í þjóðfélagið.
    Um efni þessa frv., hæstv. forseti, að öðru leyti er svo það að segja að ég tel í grófum dráttum að um það sé ekki ágreiningur að það er til bóta að reyna fyrirkomulag af þessu tagi. Menn hljóta í þeirri stöðu sem málin eru að grípa fegins hendi hvað eina sem gefur einhverja von um að málin komist í farsælan farveg og menn a.m.k. myndi vettvang þar sem þeir geta farið að ræða málin og skiptast á skoðunum. Það er kannski í mínum huga ekki síst ávinningurinn af því að lögfesta ákvæði af þessu tagi að það myndast í öllu falli samskiptavettvangur þessara deiluaðila þar sem þeir geta komið saman. Um árangurinn af því starfi verður svo að fara eftir atvikum og reynslan að leiða í ljós hvernig það gengur. Það er svo sem ekki í okkar færum sem hér erum að skiptast á skoðunum að gera annað en vera með spádóma uppi um það. Ég leyfi mér að binda vonir við það að þetta fyrirkomulag í fyrsta lagi sem 1. gr. frv. fjallar um, nefndaskipunina sjálfa, leiði a.m.k. til þess að á nýjan leik hefjist eðlileg samskipti og samtöl þessara deiluaðila. Ég tel að skipan nefndarinnar eða mönnun orki að vísu tvímælis. Það má spyrja sig spurninga í sambandi við það, til að mynda það fyrirkomulag Vinnuveitendasambands Íslands sem heildarsamtök vinnuveitendanna séu þarna aðili að nefndinni öðrum megin frá en hins vegar ekki heildarsamtök frá hlið launamanna þar sem eru eingöngu hin einstöku sjómannasambönd eða félög.
    Sömuleiðis hafa vaknað upp spurningar til að mynda um stöðu Vinnumálasambands samvinnufélaganna í þessu sambandi líka vegna þess að skv. 3. gr. eru það þau heildarsamtök ein sem geta vísað málum til úrskurðar í nefndinni. Það þarf náttúrlega að huga að því hvort menn eru með vissum hætti kannski að takmarka, umfram það sem eðlilegt getur talist, aðgengi manna að málinu og þá meina ég ekki bara að nefndaskipuninni heldur líka þar með málskotsréttinn til nefndarinnar því hann hangir saman við réttinn til að tilnefna í nefndina skv. 1. gr.
    Ég vil einnig nefna að í 2. gr. er að mínu mati mikið umhugsunarefni hvort það eigi að fela nefndinni sjálfri jafnafdráttarlaust og þar er lagt að standa fyrir þeirri gagnaöflun sem er nauðsynleg vegna nefndarstarfsins. Fiskifélag Íslands hefur þegar bent á að það í reynd aflar þessara gagna nú þegar. Ég hefði talið eðlilegt að þarna væri a.m.k. haft opið fyrir það að samstarfsnefndin léti afla þessara gagna fyrir sig ef svo ber undir. Það má skilja orðalagið þannig eins og það bundið við að hún sjálf standi fyrir þeirri vinnu. Það teldi ég óskynsamlegt og hugsanlega kalla á tvíverknað sem er ástæðulaus. Það er líka best að segja það alveg eins og er að staða Fiskifélagsins hefur verið nokkuð óviss á síðustu tímum, m.a. vegna breytinga sem gerðar voru á lögum og starfsumhverfi þess á síðustu tveimur til þremur árum og hið nýja batterí Fiskistofa hefur verið nokkuð frek til rúmsins, að manni skilst, og nokkuð þrengt að Fiskifélaginu í þeim efnum.
    Þá vil ég koma að því sem kannski skiptir þrátt fyrir allt mestu máli og það er hverjir eru möguleikar nefndarinnar til þess að leysa sitt verkefni með farsælum hætti af hendi. Jú, nefndinni er ætlað að meta það og láta í ljósi ef svo ber undir hvort bersýnilega ósanngjörn viðmið séu notuð fyrir ákvörðun fiskverðs í tengslum við viðskipti með veiðiheimildir. Á mannamáli þýðir þetta: Nefndin á að meta það hvort fiskverðið sé svo lágt þegar verið er að einhverju leyti að veiða á grundvelli veiðiheimilda frá öðrum að

í gegnum það sé augljóslega um að ræða þátttöku sjómanna í kvótakaupunum. Ef þetta er ekki túlkað þannig þá er þetta náttúrlega allt saman marklaust. Og þá kemur að því að spyrja sig spurningarinnar: Út frá hverju á þá að ganga? Við hvað á að miða því nú er bannað að hafa nokkuð sem heitir lágmarksverð á fiski og kannski ekki til neitt heldur sem hægt er að kalla viðmiðunarverð? Verður þá ekki að búa það til? Ég segi jú. Einhvern veginn verða menn að búa sér til forsendur og viðmiðanir til að ganga út frá. Það er kannski stóri og erfiði vandinn í þessu máli öllu saman. Hvernig menn ætla að finna þá viðmiðun eða þarf e.t.v. að búa hana til með einhvers konar ákvörðun af því tagi sem Verðlagsráð sjávarútvegsins stóð fyrir á árunum? Nú á náttúrlega allt að vera svo óskaplega frjálst og það er nánast bannorð að láta sér detta það í hug að hægt sé að festa einhverjar slíkar viðmiðanir í hinu nýja, fína og frjálsa þjóðfélagi, hinni miklu paradís. En skyldi það nú ekki vera svo samt sem áður að ýmsum sjómönnum verði hugsað til þess hvort hagur þeirra væri ekki í reynd betur tryggður með því að til væri eitthvert viðmiðunarverð, lágmarksverð, eitthvert gólf, sem væri eftir atvikum hægt að styðjast við í þessu sambandi.
    Um þau ákvæði sem eru svo á ferðinni í II. kafla og lúta að breytingu á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins vil ég segja það eitt að Alþb. hefur fyrir löngu síðan ályktað að gera ætti lagabreytingu af þessu tagi. Sá texti sem hér er á ferðinni er nánast orðréttur sá texti sem var í ályktun landsfundar Alþb. í nóvember sl. um þetta mál. Það hefur lengi verið okkar skoðun að ein af aðgerðunum til að koma í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti á þessu sviði væri að lögfesta pósitíft ákvæði sem bannaði þvingaða þátttöku sjómanna í þessum viðskiptum. Þannig að menn gætu farið að sækja sín mál að lögum en þyrftu ekki að byggja á túlkun óljóss ákvæðis í kjarasamningum.
    Við fögnum því að sjálfsögðu þessu ákvæði og munum styðja það en gætum vel hugsað okkur að gera við það brtt. og styrkja ákvæðið, m.a. með því að kveða nánar á um meðferð mála í þessum viðskiptum, svo sem til að mynda að þau skuli jafnan vera á grundvelli skriflegra samninga þar sem aðgreint sé annars vegar verðmæti fyrir veiðiheimildir og hins vegar afla og þeir pappírar séu samstarfsnefndinni aðgengilegir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé alveg ljóst hversu sterka stöðu nefndin hefur m.a. til þess að afla slíkra gagna úr viðskiptunum því annars er auðvitað starf hennar ómögulegt og annað eins er nú gert og það að kveða á um einhvern slíkan formlegan frágangsmáta á viðskiptum af þessu tagi.
    Það er líka ljóst að uppi er algjörlega gagnstæð túlkun annars vegar sjómanna og hins vegar útvegsmanna á því hvað þetta ákvæði þýðir og það er óhjákvæmilegt að sjútvn. fari rækilega ofan í saumana á því þegar hún fær þessi mál til umfjöllunar.
    En að lokum þetta, hæstv. forseti. Við teljum þrátt fyrir allt þau ákvæði sem hér eru á ferðinni vera til bóta. Þau eru í rétta átt, það er óumdeilt og sumpart eru þau atriði sem Alþb. hefur lengi barist fyrir, eins og þetta ákvæði um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun og við erum ábyrgur flokkur og samkvæmir sjálfum okkur og munum að sjálfsögðu styðja þau atriði sem eru í rétta átt.