Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:33:51 (6764)


[18:33]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég trúi því ekki að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins og hv. þm. sé beinlínis að ganga út frá því sem reglu að menn setji bara einhverjar tölur út í loftið á blað og það sé ekkert að marka slíkt. Ef sú kvöð yrði í lögum að svona samningar skyldu liggja fyrir og vera aðgengilegir nefndinni þá vænti ég þess að menn mundu ekki gera sér það að leik að hafa það að engu og setja bara eitthvað og eitthvað á blöð. Þá þekkir hv. þm. aðra menn en ég þekki, svona almennt talað, í þessari grein þar sem menn eru yfirleitt gegnum heiðarlegir.
    Staðreyndin er sú að þetta kann að hafa verið mjög erfitt í Sjálfstfl. með tvíhöfða nefndina en það

er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af því að Alþb. hefði ekki, ef almennilega hefði verið að þessum málum staðið og allir flokkar átt þess kost að starfa á eðlilegum grundvelli við þessa endurskoðun, leyst það verk af hendi. Ég held, hv. þm., að eftir klúðrið, vandræðaganginn, hrossakaupin og öll þau ósköp sem einkennt hafa meðferð ríkisstjórnarinnar á þessum málum þá sé það heldur betur að kasta steinum úr glerhúsi að vera að hafa áhyggjur af hvernig öðrum flokkum hefði reitt af í því ef að þessu hefði verið unnið með eðlilegum hætti og fulltrúar allra flokka átt þarna sæti.
    Varðandi viðskipti milli skyldra og óskyldra aðila þá er það alveg rétt að það þarf að finna sér einhver viðmið sem m.a. ganga út frá því að um eðlileg viðskipti milli óskyldra aðila sé að ræða þar sem verðlagningin sé sanngjörn. Það er alveg ljóst. Það þurfa að vera svona armslengdarviðskiptakjör, eins og það heitir víst á fínu máli.
    Ég bakka hins vegar ekki með það þó að hv. þm. reyndi að klóra í bakkann að orðalag 2. gr. varðandi upplýsingaöflun er gallað. Það er allt of þröngt miðað við það að nefndin hafi svigrúm til þess að skipa þeim málum með hagkvæmum hætti.