Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:40:12 (6768)


[18:39]

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það gengur náttúrlega ekki þannig að hv. þm. taki mig í próf í andsvarstíma og fari að rekja úr mér garnirnar með alla mína afstöðu til sjávarútvegsmála. Ég mun koma því m.a. rækilega á framfæri í ræðu síðar í þessari lotu hvaða afstöðu við höfum til þeirra mála sem nú liggja fyrir og hún mun birtast í okkar nál., brtt. og afstöðu í atkvæðagreiðslum eins og jafnan gerist. Ég held að það sé miklu betra að við bíðum og sjáum hvernig það rekur sig. Það sem ég var að ræða sérstaklega um í þessu sambandi voru reglur um viðskiptin, akkúrat hvernig þau fara fram. Löggjafinn getur að sjálfsögðu um leið og hann heimilar framsal á veiðiheimildum, hvort heldur er með takmörkunum eða ekki takmörkunum, sett um það reglur hvernig þau gerast, hvernig þau ganga fyrir sig, til að mynda að þau skuli vera á grundvelli skriflegra samninga, sem jafnvel þurfa að lúta tilteknum reglum. Þetta er gert til að mynda núna um leið og verið er að setja lög um leigu á íbúðarhúsnæði. Það er uppálagt að það sé á grundvelli skriflegra formlegra samninga og þinglýstir skulu þeir vera ef menn eiga að fá húsaleigubætur samkvæmt frv. sem liggur fyrir samkvæmt þinginu. Auðvitað er alveg eins hægt að setja slíkan áskilnað í lög sem varða viðskipti með veiðiheimildir. Ég er þeirrar skoðunar að e.t.v. væri einhver öflugasta aðgerðin til að ná þessum málum upp á yfirborðið sem til er að gera þann áskilnað og þá kröfu að þetta skuli vera á grundvelli skriflegra samninga sem lytu tilteknum reglum og aðgreindu verðmætin eins og ég rakti hér áðan.
    Ég þakka svo hv. þm. fyrir að taka undir það að menn þurfa að fara varlega gagnvart því að stilla heildarhagsmunum sjómanna og launamanna upp sem einhverjum grundvallarandstæðum í þessu máli.