Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:44:14 (6771)


[18:44]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er að vísu svo að hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir því atriði sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði athugasemd um og lýtur að skipun fulltrúa í samstarfsnefndina. Ég hef aðeins það til viðbótar að segja um þetta atriði að hérna er stuðst við þá skipan mála sem aðilar sjálfir notuðu í þeim skjölum sem milli þeirra gengu þegar þeir reyndu að koma slíkri samstarfsnsefnd á í samningunum í vetur.
    Varðandi svo athugasemd hv. þm. um það að ég hefði setið með hendur í skauti og ekki hreyft mig til þess að fá sjómenn til viðræðna þá er þess að geta og ég hygg að hv. þm. minnist þess að sjómannasamtökin samþykktu með sérstakri ályktun í fyrravor að koma ekki til viðræðna nema stjórnvöld féllust á að afnema frjálst framsal aflaheimilda. Þeim úrslitakostum var ekki hægt að verða við. Ég held, án þess að ég sé með nokkrar ásaknir uppi, að þessi afstaða hafi verið óheppileg. Það hefði verið betra að lýsa slíkri skoðun en lýsa því jafnframt yfir að samtökin væri reiðubúin að koma til viðræðna og þá hefði okkur e.t.v. tekist að skipa málum með heppilegri hætti. Þessi afstaða sjómannasamtakanna var svo endurtekin þegar þau komu fyrir hv. sjútvn. í vetur. Ég hygg að það hefði verið betra að þetta hefði gerst öðruvísi en þetta er skýringin á því að af þessum viðræðum varð ekki þó að fyrir hefði legið mjög skýr vilji bæði minn og ríkisstjórnarinnar til þess.