Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 18:57:32 (6775)

[18:57]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér stöndum við frammi fyrir því samkomulagi sem ríkisstjórnarflokkarnir eru búnir að vera að semja um smátt og smátt sl. þrjú ár og nær hámarki með þeim frv. sem við fáum að líta hvert af öðru í dag.
    Samkvæmt því sem maður heyrir um allt og kemur fram í því hvernig stjórnarliðar tala er þetta samkomulag sem ekkert verður hreyft við. Raunar eru sumir ósáttir við það og heyrðist mér áðan á hæstv. sjútvrh. að hann væri ekki alveg sáttur við það að ekki væri hægt að leiðrétta og færa til betri vegar það sem greinilega væru ágallar á.
    Þetta er endapunkturinn á því að leysa, ef maður getur orðað það svo, verkfall sem sjómenn voru í um áramót og lauk með því að sett voru lög á það verkfall. Það er kannski rétt að minna á það einu sinni enn að e.t.v. hefði ekki þurft að setja lög á það verkfall ef þá þegar hefði verið orðið við því að setja á fót þá samstarfsnefnd sem hér er verið að ræða um. Það var það sem sjómenn og jafnvel útgerðarmenn, þó ekki hefði náðst fullkomið samkomulag um það á þeim tíma, hefðu getað sætt sig við. Hefði löggjafinn þá gripið inn í og sett fram svipað frv. og hér er verið að ræða um hefði trúlega ekki þurft til þess að koma að setja bráðabirgðalög á verkfallið.
    Í I. kafla frv. er verið að ræða um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ég vildi beina spurningu til hv. frsm. nefndarinnar vegna þess að meiri hluti sjútvn. sem flytur þetta frv. samkvæmt því sem hér stendur á blaði. Í 1. gr. er rætt um það hverjir eigi að eiga sæti í nefndinni en síðan segir í 3. gr. að aðeins þau samtök sem standa að nefndinni geti leitað álits hennar. Nú eru fleiri sjómenn og útvegsmenn heldur en eru akkúrat í þeim samtökum sem eru nákvæmlega tilgreind í 1. gr. og ég vildi þá spyrja hv. frsm. nefndarinnar hvort ekki sé eðlilegt að öll sjómannasamtök gætu leitað til þessarar nefndar þegar frv. yrði orðið að lögum. Mér finnst það svolítið sérkennilegt að það séu nokkrir sjómenn og jafnvel samtök

og félög sem standi utan við þetta og geti ekki kært til nefndarinnar.
    Hugsanlega er hægt að breyta þessu í vinnu nefndarinnar ef, eins og ég sagði áðan, allt er ekki svo niðurneglt.
    Í öðru lagi finnst mér nokkuð óskýrt og það komu raunar fram athugasemdir frá gesti fundarins á einum fundi sem ég sat þegar verið var að ræða þessi mál í hv. sjútvn. um það, sem nefndin á því stigi gat ekki svarað, hvernig á því stæði að ákvæði í 2. gr., 5. gr. og 7. gr. stönguðust á. Þ.e. í 2. gr. segir að það skuli birta reglur eða upplýsingar um fiskverð. Í 5. gr. segir: ,,Nefndin skal árlega gefa útdrátt úr niðurstöðum sínum.`` Svo kemur í 7. gr. að nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í störfum sínum.
    Að vísu er í grg. með frv. sagt um 2. gr., með leyfi forseta: ,,Í þessari grein er lögð sú skylda á nefndina að leita viðeigandi upplýsinga, vinna úr þeim með skipulögðum hætti og birta upplýsingar um fiskverð. Í lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, eru lagðar margvíslegar hömlur á skráningu og vinnslu upplýsinga með skipulögðum hætti. Orðalag 2. gr. felur í sér að þar sem þörf er á ganga ákvæði laga þessara framar ákvæðum tilvitnaðra laga frá 1989.``
    Þá eiga þau lög þar sem lagðar eru hömlur á skráningu og meðferð persónuupplýsinga ekki við en síðan er ekki í ákvæðinu að finna leiðbeiningu um hverra gagna skuli aflað að öðru leyti. Mér finnst því nokkuð óskýrt í þessum greinum og vildi gjarnan fá skýringar á því ef þær eru til.
    Í skýringum með frv. er tilgreint atriði við 10. gr. þar sem komið er inn á tillögur til breytinga á fiskveiðistjórnarlögunum. Þar er nefnt að til þess að tryggja frekar það sem verið er að ræða um í þessu frv. --- síðan kemur raunar annar kafli þar sem eru önnur lög --- sé m.a. lagt til að fellt verði brott úr frv. ákvæði um að heimilt sé að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva. Ég get ekki séð að það þurfi að vera í greinargerð með þessu frv., þar sem verið er að setja á stofn samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna þar sem á að fjalla um álitaefni og ágreining er tengjast áhrifum viðskipta með veiðiheimildir, að það sé búið að fella úr öðrum lögum ákvæði um að það sé heimilt að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva.
    Það er reyndar fleira sem er tilgreint hér, m.a. bann við að flytja aflamark til skips ef meira en 15% af sömu tegund hafa verið flutt af skipinu o.s.frv. og einnig er ákvæði um 50%. En mér finnst að þetta um að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva eigi engan veginn nein sérstök tengsl við þetta frv. sem við erum með til 1. umr. þó auðvitað sé hægt að tengja öll þessi frv. saman að einhverju leyti, ég verð að viðurkenna það að vísu, en mér finnst það samt ekki eiga við. Af því að ég nefndi í upphafi að menn væru búnir að semja um ýmislegt og hugsanlega yrði engu hægt að breyta þá sýnist mér á grein sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson skrifaði í DV þann 17. mars sl., þar sem fyrirsögnin er ,,Fiskvinnslan getur eignast kvóta``, að hann mæli mjög með því að slíkt sé hægt og telur að það sé liður í hagræðingu í sjávarútvegi. Eins og segir í þessari grein, með leyfi forseta, örstutt:
    ,,Fiskvinnslukvóti er líka nauðsynlegur liður í hagræðingu í sjávarútvegi.
    Fiskvinnslufyrirtæki, hvort sem það er rækjuvinnslur eða vinnsla á bolfiski, geta þá selt frá sér skip án þess að þurfa láta allan kvóta þess fylgja með en samt starfað áfram með því að nota það sem eftir er af kvótanum til þess að tryggja sér hráefni. Sem dæmi má nefna að hagræðingin sem nýlega var gerð milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar byggist á þessari leið og ekki hefði verið neitt óeðlilegt að Tálknfirðingar gætu skráð kvótann beint á fiskvinnsluhús sín í stað þess að geyma hann á bátum.
    Fiskvinnslukvótinn eykur samkeppnishæfni landvinnslu gagnvart sjóvinnslu og treystir stöðu hinna dreifðu byggða umhverfis landið. Fiskvinnslukvótinn er því nauðsynjamál sem æskilegt er að samstaða náist um.``
    Ég trúi því ekki að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi skipt um skoðun frá því að hann skrifaði þessa grein, það er ekki svo langt síðan. Í dag standa einmitt fyrirtæki nákvæmlega frammi fyrir því sem nefnt er í greininni, t.d. Tálknfirðingar sem færðu yfir 700 tonn af sínum kvóta af togaranum yfir á lítinn bát sem engan veginn getur veitt þann kvóta. Samkvæmt þessum 15% og 50% reglum mundi hann því verða að afsala sér þeim kvóta, en þeir höfðu auðvitað hugsað sér vegna þess að það hefur legið fyrir frá því að skýrsla tvíhöfða nefndarinnar kom út að með breytingum á fiskveiðistjórnunarlögum yrði lagt til að fiskvinnslan fengi kvóta. Þó að þetta sé ekki akkúrat það frv. sem við erum að ræða þá tengist þetta bæði því að þetta er nefnt sem eitt af atriðunum til að koma í veg fyrir álitaefni um viðskipti með aflaheimildir og einnig vegna þess að segja má að öll þessi frumvörp tengist saman..
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég held að ég hafi komið á framfæri því sem ég vildi sagt hafa við 1. umr. um þetta mál, bæði spurningum og hugleiðingum um það hvernig þessi mál hafa farið fram í samkomulagi stjórnarflokkanna.