Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 21:35:13 (6779)


[21:35]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var undarlegt að heyra ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., formanns tvíhöfða nefndar, sem var að koma úr einhverjum grátlegasta leiðangri sem nokkur maður hefur farið. Það mætti líkja honum við mann sem hefði lagt af stað í hvalveiðiferð og komið með tvo rauðmaga að landi. En hann er ánægður, hann segir að kerfið sé hagkvæmt. Hann lagði fram skýrslu í nafni tvíhöfða nefndar sem var tommu þykk og hvað var mikið í þeirri skýrslu um hagkvæmnina? Það voru nákvæmlega 5 eða 6 línur um hagkvæmnina og hver vegna? Vegna þess að það fundust ekki tölulegar upplýsingar sem voru boðlegar til að setja fram í vísindalegri skýrslu eins og þessi skýrsla átti að heita. Og það hefur ekki ennþá tekist að fá þessar tölur upp um alla þessa hagkvæmni í kerfinu sjálfu. Íslenskir sjómenn urðu þeir afkastamestu í heiminum áður en þetta kerfi varð til og það er öruggt að afköst íslenskra sjómanna hafa ekki aukist á undanförnum árum undir kvótakerfinu. Það kann að vera að eitthvað í nýrri tækni og annað hafi getað gefið eitthvað af sér, en afköst flotans hafa ekki bæst og hagkvæmniauking í sjálfri útgerðinni hefur orðið ákaflega grátlega lítil. Kvótakerfið hefur ekki sannað sig með neinum þeim hætti að menn hafi getað sett um það tölur á blöð. Og ég efast satt að segja ekki um að vilji hafi verið til þess að sanna það.