Stjórn fiskveiða

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 23:59:39 (6794)


[23:59]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem varð hér rétt á undan þá vil ég taka fram að fyrr í dag var ágæt umræða um það hvers vegna allar þessar breytingar liggja nú fyrir um frv. til laga um stjórn fiskveiða, hvers vegna þær eru svo óskipulegar og hvers vegna þær ganga í rauninni ekki upp. En það er vegna þess að það er verið að leysa allsendis óskylt mál með því að fara að krukka í lög sem vissulega eru ekki góð, brtt. sem lagðar eru fram við endurskoðun sem heldur eru ekki góðar og síðan að gera enn aðrar breytingar og þær eru ekki heldur góðar. Þannig að þegar þrjú sett af villum koma saman þá er ekki á góðu von og það er nákvæmlega það sem er að gerast hér. Allt er þetta gert í nafni þess að leysa deilu sem í raun réttu hefði átt að leysa hér í janúar. Það er búið að taka upp þær hugmyndir sem þá lágu fyrir og gera þær að sjálfsögðu að þeirri lausn sem blasir við, en til þess þurfti bæði hrossakaup og hræðslu. Ég ítreka það enn og aftur að þetta er í rauninni meginþemað í allri þessari umræðu, hrossakaup og hræðsla.
    Áður en ég hef mína eiginlegu ræðu hér vil ég einnig gera létta athugasemd við nál. meiri hluta hv. sjútvn. sem er mér mikil ráðgáta. Ég held að ég ýki ekki ef ég segi að það sé allsendis ófullnægjandi. Ég gat þess í umræðu fyrr í dag hvernig það var og ég ætla að endurtaka það hér, því ég veit að fólk hefur varla trúað sínum eigin augum þegar það sá þetta, en það samanstendur einungis af upptalningu á þeim sem komu á fund nefndarinnar og síðan stuttri upptalningu á brtt. meiri hlutans. Meiri hluti hv. nefndar hefur ekkert og þá meina ég ekkert efnislega og hvað þá málefnalega um þetta stóra mál að segja. Það er lýsandi fyrir innistæðuleysi sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar að skila innihaldslausu nál. Auk þess afhjúpar þessi staðreynd átakanlega bæði sundrungu og málefnaágreining stjórnarliða, sem margir eru, sem kunnugt er, mjög ósáttir við að eiga aðild að þessu samkomulagi. Að vísu hafa einhver fyrirheit verið gefin um dúsur af ýmsu tagi, en ég verð að viðurkenna að ég heyri sífellt minna um slíkt getið eftir því sem dagarnir líða. Annaðhvort er að renna á menn tvær grímur eða þeir vilja ekki að þetta sé í hámælum haft nema hvort tveggja sé.
    Ég vík þá að efnislegri umræðu því ég kvíði ekki þeirri umræðu, eins og ætla mætti að stjórnarliðar geri eftir því nál. sem ég var hér að rekja. Stefna Kvennalistans um að koma á byggðakvóta hefur sjaldan verið brýnni heldur en í þeirri upplausn sem nú ríkir í umræðunni um stjórn fiskveiða. Núverandi kvótakerfi hefur reynst meingallað og það er nauðsynlegt að gera á því grundvallarbreytingar. Miklar deilur hafa staðið um hina lögbundnu en síðbúnu endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Sú endurskoðun fór fram án samráðs við stjórnarandstöðu, hagsmunaaðila og sjútvn. og þar með í trássi við lög. Nýjustu brtt. ríkisstjórnarinnar hafa síðan hellt olíu á eldinn. Deilan snýst nú ekki síst um það hvort hagsmunir fiskvinnslunnar hafi verið fyrir borð bornir og þá ekki síst atvinnuhagsmunir fiskvinnslufólks. Það er eins og skyndilega sé fólk að uppgötva fiskvinnslufólk og það meira að segja hér í sölum Alþingis, en það er alveg átakanlega sjaldan sem það hefur verið nefnt hér frá því að ég settist á þing fyrir fimm árum síðan, og það er að sjálfsögðu afskaplega ánægjulegt og ég vona að framhald verði á því.
    Fjöldi verkalýðsfélaga, fulltrúar fiskvinnslu og einstakra byggðarlaga hafa vakið athygli á því að það megi að sjálfsögðu ekki fara að leysa kjaramál sjómanna á kostnað fiskvinnslufólks. Fiskvinnslukonur hafa fram til þessa ekki verið sterkur þrýstihópur og það er, eins og ég gat um áðan, ánægjulegt að heyra að þær eiga svo marga málsvara hér sem annars staðar og vonandi að framhald verði á því.
    Það er í rauninni með ólíkindum úr hve mörgum áttum slíkur stuðningur kemur, en að vísu verð ég að halda því til haga sem flestir glöggir hlustendur hafa sjálfsagt heyrt, þeir sem hafa hlýtt á hér í þingsal og annars staðar, að rökstuðningurinn er mjög misjafn hvað sé fiskvinnslunni fyrir bestu. En þetta nýja lausnarorð, að efla hag fiskvinnslunnar, er þó a.m.k. góð byrjun. Síðan verða menn að sjálfsögðu að fara að reyna að komast að því hverig það verður best gert. Og ég verð að segja, að mér þykir það hljóma hér um bil eins og brandari, en það er auðvitað ekkert fyndið, þegar fiskvinnslufólkið á að vera ein helsta ástæðan fyrir því að halda áfram sem frjálsustu framsali. Mér finnst það bara hljóma sem öfugmæli og ég hef ekki heyrt neina fulltrúa óbreytts fiskvinnslufólks ræða þetta á þessum nótum og ég er ekkert viss um að ég mundi heyra það.
    Eins og sjá má á þeirri miklu upptalningu sem er á fyrri síðu hins rýra nefndarálits meiri hlutans þá hafa nefndinni borist feykilega margar umsagnir því flestir, eins og þar segir, skiluðu skriflegri umsögn. Einna mesta athygli nýverið hefur væntanlega vakið ályktun Samtaka fiskvinnslustöðva eða frétt sem þeir sendu frá sér og erindi sem þeir sendu sjútvn. þann 19. apríl sl., en þar mótmæla þessi samtök harðlega áformum meiri hluta sjútvn. um að falla frá þeirri hugmynd að heimilt verði að framselja aflahlutdeild fiskvinnslufyrirtækja. Í þessari fréttatilkynningu og áliti tala þeir sérstaklega um það að þarna hafi verið um jákvæða aðgerð að ræða til að ná sátt um þá sjávarútvegsstefnu sem fram kom í tillögum tvíhöfða nefndarinnar á sínum tíma. Ég hef tekið það hér fram að þetta er eitt af því fáa sem þó var þar bitastætt og ég mun nánar koma að grátræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. þegar hann var að lýsa hér trega sínum yfir því

að vera búinn að yfirgefa þessar göfugu hugmyndir. Það er mjög ánægjulegt að geta einstöku sinnum verið sammála þeim hv. þm. og í þessu er ég vissulega sammála honum. Þetta hefði þurft að vera áfram inni og enn á eftir að afgreiða þetta mál. Ég bið menn að reyna að fara að hlýða á samvisku sína og skynsemi í þessu máli sem öðrum því ég hélt að menn væru beinlínis lögbundnir af sannfæringu sinni en ekki einhverjum hrossakaupum úti í bæ. Ég hef alla vega ekki séð það í neinu drengskaparheiti að menn skuli virða neitt annað en sannfæringu sína.
    Það kemur líka fram í þessari ágætu ályktun eða yfirlýsingu Samtaka fiskvinnslustöðva sú skoðun sem ég get gert að minni að aflaheimildir til fiskvinnslufyrirtækja hafi ekkert með kjarasamninga um skiptingu fiskverðs milli útgerðar og sjómanna að gera og þar af leiðandi mótmælir auðvitað fiskvinnslan því harðlega að fiskvinnslukvótanum verði fórnað á Alþingi til lausnar þeirri deilu. Þarna er einmitt orðalag sem ég get mjög vel tekið undir. Þarna er verið að færa fórn. Ég hefði satt að segja haldið að samskiptamunstur ætti að vera öllu þroskaðra en það að menn færu að færa útgerðarmönnum einhverjar fórnir svona í gömlum trúarbragðaanda, en það getur vel verið að menn eigi eftir að vinna sig út úr þessum vanda og ég vona að þeim takist það.
    En það sem mér finnst kannski mikilvægast, og kemur raunar fram þarna og í flestum þeim umsögnum sem fara út á sömu svið, er að frá byggðasjónarmiðum er mjög mikilvægt að hafa möguleika á því að binda kvóta við fiskvinnslufyrirtæki eða við byggðarlögin sjálf. Þessi byggðarök eru þau sem vega að sjálfsögðu langsamlega þyngst vegna þess að það er hreinlega verið að tala um afkomu fólks, atvinnu og starfsemi fyrirtækja í þessum byggðarlögum og það er ekkert smáræði. Og ég blæs á allt þetta kjaftæði um hagræðingu, ef hagræðing á að fela það í sér að það sé hægt að skáka hér byggðarlögum inn og út af kortinu eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni. Það er ekki hagræðing að mínu mati og ég hef aldrei skilið þá útreikninga sem byggjast á því að það sé einhver hagræðing í því að gera heilu þorpin meira og minna lífvana og máttlaus vegna þess að atvinnunni er svipt af staðnum, en núverandi kvótakerfi og það framsal sem það heimilar býður nákvæmlega upp á þetta.
    En fiskvinnslan á fleiri hauka í horni. Meira að segja títtnefndir atvinnumenn, sem hæstv. sjútvrh. kaus að tala, að mínu mati, heldur í hæðnistón um, en hann reyndar kaus að líta öðruvísi á og ég skal ekki gera athugasemd, að hann hafi leyfi á að hafa skoðun á því hvað hafi falist í hans orðum. En þessir svokölluðu atvinnumenn, sem eru samstarfshópur um hagkvæma stjórn fiskveiða, örugga atvinnu og aukna verðmætasköpun til sjós og lands, sendu frá sér ábendingar þann 25. apríl sl., fyrir þremur dögum, og í þeirra athugasemdum er meira að segja tekið undir þetta sjónarmið þar sem þeir segja: ,,Fiskvinnslukvóti er ekki leyfður samkvæmt þessum tillögum`` og eiga þá við þær brtt. sem meiri hluti hv. sjútvn. ber ábyrgð á. ,,Ákvæði um að skip megi ekki taka til sín kvóta umfram veiðigetu er þrengt mjög verulega. Þetta ákvæði hefur í raun verið frjálslega túlkað fram að þessu og hefur virkað sem óbeinn fiskvinnslukvóti. Þessar breytingar saman munu þrengja allverulega að fiskvinnslufyrirtækjum sem hafa fækkað skipum eða selt skip.`` Hæstv. forseti, ég leyfi mér að vitna nokkuð beint til þess án þess að hafa beðið um leyfi fyrir fram og vona að það verði veitt eftir á, þar sem ég vék eigin orðum inn í þessa tilvitnun líka.
    Það sem hér kemur í rauninni fram er það að menn eru meira og minna að berjast fyrir því að fá fiskvinnslukvóta en gjarnan þannig að það sé hægt að kalla hann eitthvað annað, svona alla vega í bland og fara aðrar leiðir að sama marki. Ég kem á eftir betur að stefnumörkun kvennalistakvenna, þar sem við viljum gera hlutina hreint og klárt og ekki vera að leita annarra leiða heldur en þeirra beinustu að því marki sem við erum að reyna að ná.
    Alþýðusamband Íslands hefur líka tekið svari fiskvinnslufólks og er það mjög vel við hæfi, enda er það mjög mikilvægt atvinnumál að fiskvinnslufólk haldi sinni vinnu. Í ágætri umsögn úr þeim búðum, sem er raunar ódagsett, kemur fram gagnrýni á það að fella út þessa heimild um að framselja aflahlutdeild til fiskvinnslustöðva og það er spurt þeirrar spurningar hvaða áhrif þessar breytingar á stöðu landvinnslunnar muni hafa. Þarna er enn og aftur verið að tefla saman þessum tveimur leiðum, annars vegar að vera með beinan byggða- eða fiskvinnslukvóta og hins vegar því að tryggja frjálst framsal. Ég get ekki tekið undir þá hugsun sem kemur fram hjá ASÍ að það verði trúlega ekki áhrif til minnkunar á því heildarmagni sem fer til vinnslu í landi með því að hætta við að hafa fiskvinnslukvóta. Ég held að það mundi tvímælalaust hafa jákvæð áhrif á það sem færi til vinnslu í landi ef fiskvinnslan réði yfir kvóta.
    Helsta gagnrýni ASÍ á þessar fyrirætlanir, að hætta við þennan fiskvinnslukvóta, er sú að þetta muni hafa veruleg áhrif á möguleika einstakra byggðarlaga til að vinna sig út úr fjárhagslegum þrengingum. Og þá erum við kannski komin að þeim mýmörgu dæmum sem við höfum fengið um það að ýmsir hafa verið að endurskipuleggja sinn rekstur beinlínis miðað við að þessi fiskvinnslukvóti kæmi og hafa verið að reyna að aðlagast því kerfi, ekki vegna þess að það sé einhver þrautalending heldur vegna þess að þeir eygðu ákveðna von sem annars hefði ekki verið fyrir hendi. Þetta finnst mér að sjálfsögðu mjög merkilegt hvað menn virðast fljótt hafa gripið þessa hugmynd á lofti því það er ekkert launungamál að byggðakvótahugmyndir hafa mætt nokkurri tortryggni, alla vega í upphafi, en sífellt fleiri eru að taka undir þessar hugmyndir. Og þegar örlar á hugmyndum í þessa átt þá eru menn mjög snöggir að grípa tækifærið og nýta þá möguleika sem þetta býður upp á. Það er nákvæmlega það sem við stöndum nú frammi fyrir. Með leyfi forseta, segir hér í umsögn ASÍ eða plaggi sem er ættað frá þeim:
    ,,Í þeim fjárhagslegu þrengingum sem einstaka sjávarúvegsfyrirtæki hafa lent í undanfarin ár hafa

þeir neyðst til að selja frá sér eignir, oftast fiskiskipin. Sum þessara fyrirtækja hafa reynt að halda einhverjum hluta aflaheimilda eftir í viðkomandi plássum með því að færa þær á þau skip sem eftir eru, þrátt fyrir að þessi skip komi ekki til með að geta notað þessar heimildir sjálf. Þessar heimildir hafa síðan verið notaðar í tonn á móti tonni viðskiptum, en vafasamt hefur verið samkvæmt gildandi lögum hvort heimilt sé að skrá meiri heimildir á skip en það getur veitt. Ekki hefur reynt á þetta og má segja að sjútvrn. hafi horft í gegnum fingur sér við þetta. Með því að taka upp formlegan fiskvinnslukvóta hefði verið tryggt að þetta væri löglegt.
    Þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir Alþingi ganga hins vegar í þveröfuga átt og nú er ætlunin að koma algerlega í veg fyrir þetta, bæði með því að fella niður fiskvinnslukvótann og jafnframt að banna að skráðar séu meiri aflaheimildir á skip en þau geti sjálf veitt. Þau fyrirtæki sem stundað hafa þessi viðskipti verða nú annaðhvort að selja frá sér aflaheimildir og í framhaldi af því að leggja vinnsluna niður vegna skorts á hráefni. Hinn möguleikinn er að kaupa til sín skip aftur, en þar sem í flestum tilfellum er um tiltölulega litlar heimildir að ræða er lítil von til þess að slík útgerð standi undir sér og því mundi stöðvun rekstrar aðeins frestast um sinn.``
    Þetta finnst mér auðvitað mergurinn málsins að hér er verið að hugsa um það mjög skýrlega að halda veiðiheimildum vegna þess að veiðiheimildunum fylgir atvinna og að sjálfsögðu væri langeinfaldast, hreinlegast og skynsamlegast að vera með hreinan byggðakvóta. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga.
    Niðurstaða Alþýðusambandsins er sú að þessi málamiðlun sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð hafi neikvæð áhrif á fiskvinnsluna í landi og þá muni annað tveggja gerast að það yrði aukinn gámaútflutningur eða fjölgun frystitogara. Það er mat Alþýðusambandsins að mikilvægt sé að finna aðrar leiðir til að tryggja að sjómenn verði ekki þvingaðir til að taka þátt kvótakaupum og þeir benda á að þetta sé að sjálfsögðu hægt sé vilji fyrir hendi. Það er ekki þetta stóra vandamál og auðvitað eiga menn ekki að vera að hlaupa á einhvern flótta sem þeir ráða ekki einu sinni við.
    Það eru býsna mörg dæmi um þetta sem ASÍ segir í þessum minnisblöðum atvinnumannanna sem okkur bárust fyrir þremur dögum og m.a. er talað um dæmi frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum þar sem það hefði alveg skipt sköpum að fá fiskvinnslukvóta. Þarna segir að sú ákvörðun að leyfa ekki fiskvinnslukvóta kollvarpi í rauninni öllum þeim áætlunum sem þar hafi verið unnið eftir og muni leiða til minnkandi vinnu í landvinnslu og þetta finnst mér alvarlegt mál.
    Á sama hátt má segja að Borgey á Höfn telur að þessar ráðstafanir kippi grundvellinum undan endurskipulagningu, en svo sem kunnugt er var farið að rofa til þar og mjög góðir möguleikar á því að þar yrði burðugur rekstur ef hægt yrði að vinna eftir þessum fiskvinnslukvótahugmyndum. Hér hefur töluvert verið nefnt dæmi frá Táknafirði þar sem togari var seldur og hálfum kvóta haldið eftir og þarf auðvitað heilmikið möndl til að útvega sér skip til að veiða þennan kvóta og er langeinfaldast að byggðarlagið haldi bara kvótanum. Þetta ber allt að sama brunni. Við erum að fá þessi skilaboð með einum eða öðrum hætti, mjög oft dulbúin, en þó sífellt oftar hreint út sagt.
    Það hafa komið fram athugasemdir um að þetta eigi ekki við alla þá upptalningu sem um getur í þessum ábendingum frá atvinnumönnunum, en ég hef ekki heyrt það hrakið að svipuð staða geti verið á Grenivík, í Vestmannaeyjum, á Seyðisfirði, á Hornafirði, í Þorlákshöfn og á Akranesi. Hins vegar voru einhverjar athugasemdir varðandi Bíldudal og Flateyri og ég er ekki nógu kunnug þar til þess að geta hrakið það. Hitt er annað mál að hinir staðirnir eru ærið nóg og það hefur fengist staðfest dæmi um það að þetta er mat manna m.a. í Vestmannaeyjum og á Hornafirði, eins og ég gat hér um áðan. Og í stað þess að lesa hér orð fyrir orð þá vísa ég mönnum bara á að fara betur í gegnum þessar umsagnir og þessar ábendingar. Þarna er um hrein dæmi að ræða, rökstudd og það er ekki verið að alhæfa hér eitthvað út í loftið. Það er verið að taka raunveruleg dæmi.
    Ekki sakar að nefna það að Alþýðusamband Vestfjarða sendi ályktun þann 25. apríl 1994 og 1. mgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþýðusamband Vestfjarða skorar á Alþingi að samþykkja engar breytingar á lögum um fiskveiðar sem ekki fela í sér rétt fiskvinnslunnar til eignarhalds á veiðiheimildum. Núverandi reglur mismuna fiskvinnslu úti á sjó og fiskvinnslu í landi herfilega.``
    Undir þetta get ég að sjálfsögðu tekið. Ég bæti þá kannski úr því sem vantaði hjá seinasta ræðumanni, sem fór undan í flæmingi þegar upp á hann var borið að hann væri fylgjandi fiskvinnslukvóta. Það var eitthvert feimnismál, þó mér heyrðist nú á málflutningi hans að það væri vel hægt að draga þá ályktun með góðri samvisku. Ég ætla ekki að gera honum upp hugmyndir, en það er þó alla vega kominn hér annar þingmaður í stólinn sem gengst vel við því að vera fylgjandi fiskvinnslukvóta.
    Meðan frv. var enn í fyrra horfi komu fjöldamargar athugasemdir um það og langflestar voru nú frekar neikvæðar um ýmsa hluti. En það brá svo við um 7. gr. að þótt skiptar skoðanir væru um hana, en það er einmitt greinin um fiskvinnsluna, þá komu bæði frá Útvegsmannafélagi Vestfjarða --- og ég vek athygli á að þar er um útvegsmannafélag að ræða --- sem taldi vel geta komið til greina að undir vissum kringumstæðum væru aflaheimildir skráðar á fiskvinnslustöðvar, enda finnst mér það í mjög miklu samræmi við stöðu mála víða þar og um Samtök fiskvinnslustöðva þarf ekki að fjölyrða. Að sjálfsögðu studdu þau þessar breytingar. Íslenskar sjávarafurðir svo og Verkamannasamband Íslands voru einnig með jákvæðar umsagnir í þessa veru.

    Ég hef líka haft eyrun opin í vinnu nefndarinnar og ég þykist vita að alla vega mörgum sjálfstæðismanninum sé frekar órótt innanbrjósts, þó ég segi nú ekki meira, að vera að taka þátt í þessu rugli sem núna er komið í gang. Aftur á móti með kratana þá er alltaf dálítið erfiðara að glöggva sig á þeim og . . .   ( StG: Þeir eru ruglaðir.) Hér er nú hv. frammíkallandi og síðasti ræðumaður sem finnur þá skýringu að þeir séu ruglaðir. Ég held að málið sé nú ekki svo einfalt. Þeir eru hins vegar ekki hér til að svara fyrir nema --- mig minnir að þegar ég kom hér í stólinn hafi hæstv. forseti verið úr þeirra hópi og svo mun enn vera. Ég treysti því að einhverjir úr þeim flokki sem kallast Alþfl. og gott ef ekki eitthvað með jafnaðarmenn þarna aftan við flokksheitið. (Gripið fram í.) Ég treysti því að sá hæstv. forseti sem nú situr, bundinn í forsetastól og kemst kannski ekki í andsvar, muni upplýsa þetta mál á eftir, því ég held að mig misminni ekki að þessu jafnaðarmannahugtaki hafi verið hnýtt aftan við hitt heitið líka þó að það sé búið að stofna jafnaðarmannafélag líka.
    En í nafni jafnaðar finnst mér ástæða til þess að rifja upp grein sem birtist í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 24. mars sl. og tók heilan áttunda part af þessu blaði, málgagni og er með stríðsfyrirsögn: Fiskveiðiréttindi sjávarplássa. Þetta er undir dálknum sjávarútvegsmál og síðan pallborðið Njáll Harðarson. Hér eru bara komnar hugmyndir Kvennalistans um fiskvinnslukvóta og mér er alveg sama þó að þessi ágæti maður haldi að hann hafi fundið þetta upp, þess þá meiri gleði. ( Gripið fram í: Hver stal þessari hugmynd?) Vegna frammíkalls hér tel ég mér bæði rétt og skylt að endurtaka það að maðurinn heitir Njáll Harðarson og er titlaður framkvæmdastjóri og fyrrv. sjómaður. Ég skal bæta um betur og gefa hv. þm. þessa grein á eftir, eða réttara sagt afrit hennar, þar sem hún er einkar fróðleg og mundi kannski geta orðið honum til mikillar upplýsingar, enda er hún nánast samhljóða stefnu Kvennalistans um byggðakvóta. Að vísu þykir mér dálítillar ofstýringar gæta hjá honum. Hann vill útfæra málið þannig að það er kannski einum of mikil ofstjórn, en það má áreiðanlega sníða af þá hnökra. En ég ætla ekki að lesa nema örlítil brot úr þessari grein. En fyrsti liður af fimmtán sem er sleginn upp með alla vega fjórtán ef ekki sextán punkta letri, sem er býsna stórt, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta og hv. alþýðuflokksmanns á staðnum:
    ,,Fiskveiðistjórn úthlutar kvóta til byggðarlags í samræmi við sögulega og landfræðilega afstöðu byggðarlagsins til fiskimiða þeirra tegunda sem kvótinn tekur til.``
    Síðan koma fjórtán aðrir punktar sem útfæra þessa hugmynd mun nánar, en slagorðin eru: Kvótann heim, höggvum á hnútinn, stokkum spilin og gefum upp á nýtt, ekki fleiri plástra, förum í uppskurð. Þetta eru millifyrirsagnirnar og kannski slagorðin og andrúmsloftið í þessari ágætu grein. En hún er alveg feykilega skemmtilega og lipurlega skrifuð og ekki sakar og dregur úr ánægjunni að hugmyndirnar eru alveg einstaklega skynsamlegar og þessu beinir greinarhöfundur til alþýðuflokksmanna. Það er kannski það eina sem er vandamál að þetta fer í lítt útbreitt blað, nær til fárra og kannski ekki eyrum nema eins eða tveggja. ( Gripið fram í: Hvaða blað er það?) Þetta er Alþýðublaðið, því er nú verr og miður, og þess vegna . . .  ( Gripið fram í: Er það gefið út enn þá?) 24. mars sl. var það enn gefið út. Ég fylgist ekki mjög náið með. En alla vega varð þessi grein á vegi mínum og í fimm liðum er m.a. rakinn ákveðin hugmyndagrunnur og hann er að beina beinlínis í kjölfarið á sundurliðuðum tilvísunum í ályktanir Alþfl., merkt frá a til i, þá segir hann: ,,Til þess að hafa grundvöll að vinna út frá, þá gerum við ráð fyrir eftirfarandi staðreyndum,`` með leyfi hæstv. forseta.
  ,,1. Að fiskveiðar séu undirstöðuatvinnuvegur sjávarplássa í landinu.
    2. Að flest bæjarfélög í landinu séu sjávarpláss.
    3. Að kvóti hafi farið á flakk milli byggðarlaga.
    4. Að fari kvóti úr sjávarplássi þá muni það koma niður á afkomu staðarins.
    5. Að kolkrabbinn sé þjóðhagslega hættuleg ófreskja sem þrífst á kvóta.``
    Ég held ég verði að rekja fyrir hv. þm. að hugmyndir þessa ágæta greinarhöfundar eru að það þurfi að stokka spilin upp á nýtt til þess að landkrabbar fái betri spil en kolkrabbar.
    Þetta finnst mér athyglisverð hugsun og allra góðra gjalda verð.
    Í raun þá gæti ég gert hvort sem er að dreifa sjávarútvegsstefnu Kvennalistans til margra ára eða dreifa þessari grein en mér þykir að þetta fari bara alveg ljómandi vel saman. Ég held að fólk verði endilega að kynna sér þetta betur frekar en að ég fari að lesa heilan áttunda part úr Alþýðublaðinu fyrir þingmenn þó ég telji það að sjálfsögðu ekki eftir mér.
    Ein tilvitnun þó sem ég var búin að lofa sjálfri mér að koma með áður en ég segi skilið við Njál Harðarson, pallborð um sjávarútvegsmálin og Alþýðublaðið. Með leyfi hæstv. forseta segir Njáll:
    ,,Ég er því algjörlega ósammála að ekki sé til betri lausn`` --- og á hann þá við núverandi kvótakerfi --- ,,og bendi hér með á eina leið til úrlausnar þessum vanda og kalla hana staðbundinn kvóta til höfuðs farandkvótanum og er það í beinu samræmi við aragrúa af ályktunum flokksþinga og funda sem Alþfl. hefur staðið að. Þessi breyting er fólgin í því að viðurkenna að kvóti og sjávarþorp eru óaðskiljanleg og að stjórna þurfi sóknarþunga veiðiskipa með kvótaúthlutun. Spurningin er bara hvert. Þetta er að mínu mati ekki spurningin um það hvernig við stöndum að talningu á þorskhausum eða hvort sjómenn taki þátt í verslun með kvóta, heldur hvort sjávarplássin og allt það sem þeim fylgir eigi rétt á sér eða ekki. Það væri gott ef við gætum gert það upp við okkur hvort við eigum að gefa sjávarplássunum líf eða slá þau af.`` ( Gripið fram í: Sagði Njáll þetta?) Já. ( Gripið fram í: En hvað sagði Skarphéðinn?) Virðulegi forseti. Hér koma spurningar sem ekki er hægt að svara að svo stöddu. Það mál verður kannað.

    Ég verð nú að víkja aftur að hinum gráa veruleika sem við erum að fjalla um en það er sá óskapnaður sem ég lýsti áðan þar sem við í fyrsta lagi sitjum uppi með kolómögulegt kerfi, slæmar brtt. við það og enn verri brtt. við brtt.
    Eins og ég gat um áðan hafa aðallega tvær leiðir verið ræddar til að tryggja hagsmuni fiskvinnslunnar og það eru einmitt þær leiðir sem komu fram í þeim umsögnum sem ég hef verið að fara í gegnum. Það er sem sagt annars vegar að hafa framsal fiskveiðiheimildanna tiltölulega frjáls og hins vegar að taka upp byggðakvóta eða fiskvinnslukvóta. Það er ljóst að ef fyrri leiðin er valin þá kemur það ekki til móts við sjónarmið sjómanna sem látnir hafa verið taka þátt í kvótakaupum útgerða, þ.e. þeirra sjómanna. Viðskipti með kvóta hafa einnig ýmsa aðra ókosti, svo sem byggðaröskun og atvinnuleysi ef veiðiheimildir eru seldar frá byggðarlögum. Þar að auki hefur núverandi kvótakerfi ekki leitt til þeirrar hagkvæmni sem menn vonuðust eftir þótt menn hafi vissulega sýnt mjög góða tilburði í átt til hagræðingar en það hefur verið meira og minna af öðrum orsökum og ekki síst vegna þess harða niðurskurðar sem verið hefur vegna minnkandi fisks á miðunum.
    Hin leiðin, byggðakvótinn eða fiskvinnslukvótinn, kemur til móts við hagsmuni beggja aðila. Þar með er unnt að tryggja hráefni og atvinnu fiskvinnslufólks og jafnframt er hægt að takmarka eða jafnvel taka fyrir viðskipti með kvóta og þar með þátttöku sjómanna í þeim.
    Ég þarf varla að taka það fram hve mikilvægt það er ef sátt næst milli þessara aðila og ég tel einnig að hagsmunum útgerðar yrði a.m.k. vel borgið ef ekki bara bráðvel með byggðakvóta og áreiðanlega einnig með blöndu af útgerðar- eða fiskvinnslukvóta ef ekki vildi betur verkast. Ég vek athygli á því að einhverjir fulltrúar útgerða hafa meira að segja tekið undir þau sjónarmið á síðustu dögum og það er að sjálfsögðu í takt við það að veiðar og vinnsla er víða á sömu hendi. Þau vandamál sem við erum að setja eftir og erum raunar að víkjast undan að taka skýrt á eru geymsla á kvóta og þær flóknu framsalsreglur sem menn greinir að sjálfsögðu mjög á um hvernig eigi að vera.
    Í fyrirliggjandi frv. um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir því að heimila fiskvinnslustöðvum að eiga kvóta skv. 7. gr. og það er vissulega skref í áttina að byggðakvóta. Þó skammt sé gengið í þessari heimild er skrefið þó í rétta átt og því styður Kvennalistinn þessa grein frv. En sömu sögu er ekki að segja um flm. þess, þ.e. ríkisstjórnarmeirihlutann, sem ætlar að fella þetta heimildarákvæði út úr frv. með brtt. Mér finnst það vera hálfhlálegt að vera orðin ein af fáum málsvörum þessa eina nýtilega afsprengis úr vinnu tvíhöfða nefndarinnar. Ég er sannfærð um að það eru margir sem þurfa að greiða atkvæði sér þvert um geð ef þeir taka sig til og fella 7. gr. út úr því og þar fer fremstur í flokki hv. 5. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hluta hv. sjútvn., sem sagði að þetta væri sér afar sárt. Það voru hans orð og fannst mér ástæða til að glósa þau skýrt, að þetta væri afar sárt. Ég er því alveg hjartanlega sammála, þetta hlýtur að vera alveg hræðilega sárt fyrir hv. þm.
    Það er einnig vel kunnugt þeim sem hafa fylgst með umræðu Kvennalistans um sjávarútvegsmál að Kvennalistinn hefur jafnframt bent á að það þurfi að hlúa að smábátaveiðum. Ég er vel reiðubúin að fara út í þær hörðu deilur sem verið hafa um hvað séu réttar tölur um það hvernig aflaheimildir hafa færst á milli en ég vek sérstaka athygli á því að það er ekki hægt að leggja að jöfnu smábátaveiðar og veiðar stærri skipa sem hafa sem betur fer möguleika á að leita víðar og jafnvel að fara út í vannýtta stofna og þar tel ég að við eigum gífurlega möguleika svo framarlega sem við berum gæfu til þess að rækta þá möguleika. Og það er ekkert því til fyrirstöðu að við styðjum við bakið á þeim sem eru að vinna að nýsköpun því það mun verða okkur auðævi seinna.
    Veiðar á smábátum skila að öðru jöfnu meira hráefni til vinnslu í landi en ýmsar aðrar veiðar. Þær teljast visthæfar m.a. á mælikvarða umhverfisráðstefnunnar í Ríó og einnig má geta þess að þær kalla ekki á þá gríðarlegu fjárfestingu sem ýmsar aðrar greinar sjávarútvegs hafa farið út í. Kvennalistinn telur það einkum nauðsynlegt að taka tillit nú til smábáta á aflamarki sem orðið hafa fyrir gífulegri kvótaskerðingu og yfirleitt án þess að eiga möguleika á því að útvega sér viðbótarkvóta. Þannig er bara staðan.
    Kvennalistinn hefur einnig lýst stuðningi við áframhaldandi krókaleyfi. Þær takmarkanir sem nú eru boðaðar á krókaleyfinu má deila um og ég tel að þar sé farið alveg út á ystu nöf og vildi gjarnan að ég vissi nákvæmlega hver niðurstaðan yrði en ég bendi á að veðurfarsþættir hafa jafnan takmarkað sókn töluvert mikið.
    Kvennalistinn hefur lýst þeirri skoðun sinni að það sé alveg óhjákvæmilegt að taka stjórn fiskveiða til endurskoðunar frá grunni og byggja upp réttlátt kerfi sem byggir á byggðakvóta, skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar og stórauknum rannsóknum á lífríki hafsins. Vegna þess síðasta sem ég er að tala um, skynsamlega nýtingu auðlindarinnar og stórauknar rannsóknir á lífríki hafsins, þá vil ég einnig geta sérstaklega um, þótt þess hafi raunar verið getið aðeins fyrr í dag, að fyrir þinginu liggur frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á þskj. 873 sem við kvennalistakonur flytjum. Þar erum við sérstaklega að fjalla um hvernig samráði milli vísindamanna, fiskvinnslu, sjómanna og útgerðar gæti verið háttað í framtíðinni vegna þess að það er mjög mikilvægt að mínu mati að við finnum einhvern veginn og náum tökum á því hvernig að sátt getur orðið um það hvernig fjallað er um tillögur Hafrannsóknastofnunar á hverju ári og einnig önnur atriði sem varða nýtingu auðlindarinnar, sérstaklega á þeim skerðingartímum sem núna eru. Vonandi verða þeir ekki mörg ár í viðbót en það er algjörlega ljóst að það verður að fara að taka á þessu og ég held að við ættum að láta okkur það verða víti til varnaðar hvað skortur á

samráði getur dregið þungan dilk á eftir sér. Skortur á samráði er einmitt sá akkilesarhæll sem við erum að glíma við núna og við erum í rauninni í mjög vondum málum vegna slíks skorts á samráði.
    En þetta frv. felst í því að við 14. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða bætist ný málsgrein er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sérstök samráðsnefnd skal skipuð tíu fulltrúum, þremur tilnefndum af helstu samtökum sjómanna og fiskvinnslufólks, þremur tilnefndum af helstu samtökum útvegsmanna og eigenda fiskvinnslu og þremur tilnefndum af Hafrannsóknastofnun, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar. Nefndin skal fjalla um tillögur Hafrannsóknastofnunar um veiðiheimildir hvers árs áður en ráðherra ákveður árlegan heildarafla með reglugerð skv. 3. gr. laga þessara. Nefndin skal einnig koma saman til að fjalla um tillögur Hafrannsóknastofnunar ef um endurskoðun á fyrri úthlutun á botnfiskafla er að ræða og oftar ef þurfa þykir.``
    Þessi ákveðna breyting sem við leggjum til á lögum um stjórn fiskveiða er að mínu mati mjög veigamikil ef við eigum að ná tökum á því að stilla saman strengi þeirra sem sjá um rannsóknir og þeirra sem nýta auðlindina, bæði til veiða og vinnslu.
    Það er alveg ljóst að ákveðið samráð hefur verið haft og ég hef haft það að reglu að spyrja í hvert sinn sem ég hef haft tækifæri til hvernig slíku samráði er háttað og það er alveg ljóst að það er ekki með skipulegum, formlegum hætti. Þetta hefur gefið færi á ákveðinni gagnrýni og þetta hefur einnig gefið færi á því að menn axla ekki ábyrgð. Annars vegar geta fulltrúar nýtingarinnar sagt: Við berum enga ábyrgð á þessum vitlausu tillögum frá vísindamönnum. Hins vegar geta vísindamennirnir sagt: Þeir sem eru hagsmunaaðilar eru ekki hæfir til að fjalla um þetta. Hvorugt er að sjálfsögðu rétt. Ég er ekki að segja að þetta gangi alltaf út í þessar öfgar, það er nokkuð vaxandi skilningur á þeim tillögum sem fram hafa komið en engu að síður held ég að báðir aðilar hefðu mjög gott af því að hlusta á hina. Ég held að það þurfi að reiða fram rök og hafa fullt samráð og slíkt samráð mundi vera af hinu góða og vera bæði sparnaður á tíma, orku og mjög líklega einnig peningum.
    Það eru ekki mörg atriði í viðbót, hæstv. forseti, sem ég ætla að taka sérstaklega fyrir. Þó vil ég vekja athygli á því að er fulltrúi Þjóðhagsstofnunar kom á fund nefndarinnar þá lýsti hann þeirri skoðun sinni eftir fyrirspurn frá mér um að það væri ekkert því til fyrirstöðu að ná hagkvæmni með fiskvinnslukvóta. Það væri síst af öllu til bölvunar, frekar til blessunar og mér fannst ljómandi gott að heyra það. Ég var ekkert sérlega undrandi en mér finnst alltaf gott þegar tekið er af skarið með slíkt.
    Varðandi þær tvær megináherslur sem ég hef kosið að gera að umfjöllunarefni sérstaklega þá langar mig í lokin að benda á það að þetta hvort tveggja er töluvert tengt. Þetta byggist á því í fyrsta lagi að taka höfuðtillit til byggðarlaga og atvinnu fólks þegar verið er að ráðstafa þessari auðlind okkar og reikna dæmið í heild þannig að líka sé litið á það sem hagkvæmni að halda atvinnu og halda byggð þar sem hún hefur verið byggð upp. Vissulega þarf alltaf í slíku kerfi að vera ákveðinn sveigjanleiki til þess að eðlileg þróun eigi sér stað og í tillögum okkar kvennalistakvenna er einmitt gert ráð fyrir því. En ég ítreka það að þetta er í sátt við þjóðlíf, mannlíf og atvinnulíf sem ég held að fólk sé smátt og smátt að átta sig á að skiptir verulegu máli, þ.e. að halda atvinnu í landinu.
    Á vissan hátt og að hluta til passar líka sú áhersla sem við höfum haft sérstaklega á því að styðja við bakið á smábátaútgerð við þetta. Þar að auki er í öllu þessu sérstaklega verið að hyggja að hinum smærri plássum sem byggja afkomu sína nánast eingöngu á því að fá fisk til vinnslu og oft og tíðum eru það einmitt smábátarnir sem færa hann að landi.
    Smábátamenn hafa verið býsna duglegir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og stundum dettur mér í hug að það sé jafnvel farið að vera þeim til trafala í málflutningi sínum hvað þeir hafa verið iðnir við það. Þeir komust, má segja, að vissu leyti í tísku hér í vetur og ég er ekki að segja það neinum til hnjóðs, hvorki þeim sem ginu við því né smábátasjómönnum. Ég lýsi fullum stuðningi og hef í mörg ár gert við það að við styðjum sérstaklega við bakið á smábátaútgerð og fyrir því eru veruleg efnisleg rök. En jafnframt hefur mér fundist á síðustu vikum að sjónarmiða þeirra gætti ekki eins mikið og kannski ekki sem skyldi. Engu að síður eru í frv. einhvers konar málamyndaákvæði sem eiga að vera til einhverra sátta sem allir eru meira og minna óánægðir með en ég held að sé fyrir hluta hópsins hægt að una við. Spurningin er bara hvernig fer með hina og þá eru það sérstaklega smábátamenn á aflamarki sem ég er ekki farin að sjá að geti spjarað sig sem skyldi á því kerfi sem við gerum hér ráð fyrir. Ég held einfaldlega að það verði að taka sérstakt tillit til smábátanna því þeir fara ekki að veiða langt utan við landhelgi, þeir fara ekki að sækja í hvaða stofna sem er, þeim er sniðinn mun þrengri stakkur en mörgum öðrum.
    Virðulegi forseti. Ég er reiðubúin að fara áfram og meira í þessa umræðu þegar á hana líður. Þetta eru þau tvö atriði sem ég ákvað einkum að einskorða mig við í upphafsmáli mínu til að fara ekki að drepa á dreif en ég ítreka það að því miður er engin sérstök ástæða til þess að fagna flestum öðrum greinum, hvorki í lögunum, frv. sem lagt er hér til, né þeim brtt. sem lagðar eru fyrir hér.