Stjórn fiskveiða

144. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 00:52:00 (6796)


[00:52]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef hv. þm. hefði verið við alla ræðu mína þá hefði hann ekki þurft að spyrja fyrri spurningarinnar. Svo er ekki. Ég set ekki samasemmerki á milli fiskvinnslukvótans eins og þær hugmyndir eru í frv. ríkisstjórnarinnar, sem nú á að fella út, og byggðakvóta Kvennalistans og það tók ég mjög skýrt fram í upphafi máls míns. Ég leit einungis svo á að þarna væri um ákveðna viðurkenningu að ræða og ég orðaði það sem svo að þarna væri skref í rétta átt en síður en svo nógu langt gengið að mínu mati. Engu að síður tel ég að þessi viðurkenning sé í rétta átt.
    Varðandi hagkvæmnina og fiskvinnslukvótann þá er það vissulega rétt og ágætt að það komi hér fram að þar er einmitt gert ráð fyrir þessu framsali og ég er ekki, eins og fram hefur komið fyrr í dag, talsmaður þess að þetta framsal sé æskileg stefna. Hins vegar finnst mér að hver og ein stefna eins og hún er verði að vera sjálfri sér samkvæm og miðað við það kerfi sem við búum við núna þá eru ákveðin rök fyrir því en það eru svoleiðis ótal miklir gallar og það eru þeir sem ég eyddi kannski ekki nógu miklum tíma en nokkrum tíma í að rekja og það er ekki stefna sem ég tek undir. Hins vegar finnst mér það illskárra að það sé þá rekið þannig að fiskvinnslan geti komið að málunum líka heldur en að hún geti það ekki. Þarna er ég einfaldlega að tala um skástu leið í vondu kerfi.