Stjórn fiskveiða

144. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 01:28:07 (6805)


[01:28]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. sagði í sinni ræðu, sem ég hafði ekki tíma til að svara áðan, að Framsfl. bæri nokkra ábyrgð á fjölgun krókaleyfisbátanna. Ekki mun ég skorast undan því. En ég minni hv. þm. á að það hefur um árabil verið stefna Framsfl. að koma á aflamarki á sem flestum sviðum. En um það náðist ekki pólitísk samstaða. Og ég er sannfærður um að þeir aðilar í trilluútgerð sem höfðu lífsviðurværi sitt af henni þegar kvótakerfið var sett í upphafi væru mun betur settir í dag ef þá hefði verið sett aflamark á allt.
    Þeim aðilum er enginn greiði gerður með þeirri gegndarlausu fjölgun sem hefur orðið í smábátum á þessum tíma. Það skyldu þeir hafa í huga sem ekki fengust til að taka á þessum málum á þessum tíma.