Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 10:33:39 (6811)


[10:33]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er nú að hefjast 3. umr. um frv. til laga um Lyfjaverslun ríkisins sem hefur dregist allmjög að kæmist á dagskrá af ýmsum ástæðum og ég vil þakka fyrir þá biðlund sem mér hefur verið sýnd í þeim efnum. Ég fór héðan af þingi um tveggja vikna skeið vegna opinberra starfa erlendis og á meðan ég var í burtu átti sér stað 2. umr. um þetta mál.
    Það áttu sér stað heldur óvenjulegir atburðir við þróun þessa máls. Þegar málið var afgreitt úr nefndinni í febrúar þá ákvað ég ásamt fleirum að standa að sameiginlegu nál. og skrifaði undir það með fyrirvara. Sá fyrirvari var býsna stór af minni hálfu en ég taldi með þeirri brtt. sem nefndin kom sér saman um væri verið að milda þetta mál. Síðan gerðist það að í öðrum nefndum sem ég á sæti í var verið að fjalla um önnur einkavæðingarfrumvörp og sú umræða sem þar átti sér stað ásamt margítrekuðum mótmælum og athugasemdum stéttarfélaganna, m.a. BSRB og BHMR, leiddi til þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti alls ekki staðið að samþykkt þessa máls. Þar við bætist sú mikla umræða sem átti sér stað á undanförnum mánuðum um SR-mjöl og hvernig þar hefur verið staðið að málum sem ég ætla reyndar að koma hér betur að á eftir.
    Hið sama gerðist með fulltrúa Alþb. í hv. efh.- og viðskn., Steingrím J. Sigfússon. Hann var einnig fullur efasemda og ákvað milli 2. og 3. umr. að draga sinn stuðning til baka og ég ætla hér að mæla fyrir nál. sem undirritað er af Steingrími J. Sigfússyni og mér. Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi frá sér frumvarp til laga um Lyfjaverslun ríkisins snemma þessa vorþings þótt dregist hafi að málið kæmi til endanlegrar afgreiðslu. Undirritaðir nefndarmenn stóðu að afgreiðslu frumvarpsins ásamt öðrum nefndarmönnum og rituðu undir nefndarálit með fyrirvara. Við meðferð málsins í nefnd var komið til móts við sjónarmið þeirra nefndarmanna sem gagnrýndu hvernig staðið hefur verið að einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum og breytingartillaga lögð fram þar sem gert er ráð fyrir því að stjórnvöld þurfi að leita heimildar Alþingis eigi að selja meira en helming hlutafjár í hinu fyrirhugaða hlutafélagi. Með þeirri tillögu töldu undirritaðir nefndarmenn að verið væri að milda málið þótt vandi starfsfólksins væri óleystur.
    Síðan málið var afgreitt í sátt frá nefndinni, þó með alvarlegum fyrirvörum væri, hefur mikið vatn runnið til sjávar sem leiðir til þess að undirritaðir nefndarmenn draga stuðning sinn við málið til baka og geta ekki staðið að þeirri einkavæðingu sem fyrirhuguð er á Lyfjaverslun ríkisins.
    Í nóvember sl. gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga um viðræður ríkisins og BSRB um samskipti þessara aðila. Að mati BSRB áttu þær m.a. að ná til einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar. Það dróst á langinn að viðræður hæfust en nú standa þær yfir og eru í góðum farvegi að mati forustumanna BSRB. Það er ljóst að sala eða breyting á ríkisfyrirtækjum hefur áhrif á stöðu og kjör ríkisstarfsmanna og því er í hæsta máta óeðlilegt að standa að frekari einkavæðingu meðan þessar viðræður eiga sér stað. Ríkisstarfsmenn óttast að fyrirhugaðar breytingar hafi í för með sér fækkun starfa, launalækkun og réttindamissi í kjölfar þess að fólk neyðist til að skipta um stéttarfélög. Það varð reynslan af þeim breytingum sem átti að knýja í gegn hjá Strætisvögnum Reykjavíkur en sem kunnugt er var Reykjavíkuríhaldið neytt til að hætta við þau áform. Ríkisstjórnin ætti að læra af þeirri reynslu og hætta við áform um einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins.
    Fulltrúar þeirra stéttarfélaga, sem komu á fund nefndarinnar, fullyrtu að breytingar þær, sem felast í 3. gr. frumvarpsins og vísa til réttinda og skyldna opinberra starfsmanna, feli í sér stjórnarskrárbrot. Í undirbúningi eru málaferli vegna sambærilegra breytinga á réttindum starfsmanna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Þar er komin enn ein ástæðan til að fresta þessu máli. Rétt er að bíða niðurstöðu dómstóla, enda óþolandi að ríkið skuli sífellt standa í málaferlum við starfsmenn sína. Falli dómur ríkinu í óhag kann það að kosta ríkissjóð tugi milljóna síðar meir.
    Þá er að nefna þann tíma sem valinn er til einkavæðingarinnar. Samdráttur ríkir í efnahagsmálum og ótrúlegt verður að teljast að sanngjarnt verð fáist fyrir eignir ríkisins á tímum sem þessum. Því er óskynsamlegt út frá almannahagsmunum að leggja út í breytingar og rétt að bíða betri tíma og hærra verðs verði það niðurstaða Alþingis síðar meir að rétt sé að gera breytingar á Lyfjaversluninni.
    Síðast en ekki síst er reynslan af einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að Alþingi hlýtur að segja hingað og ekki lengra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins kemur fram hörð gagnrýni á hvernig staðið hefur verið að málum auk þess sem þau mál eru

nú fyrir dómstólum. Einkavæðingin þarfnast því skoðunar af hálfu Alþingis. Margt bendir til að verksmiðjurnar --- eign almennings í landinu --- hafi verið afhentar á silfurfati og við höfum horft upp á núverandi eigendur stinga gróða síðasta árs í eigin vasa. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð og því ber ríkisstjórninni að hætta við fyrirhuguð áform um frekari einkavæðingu. Óvissunni um framtíð Lyfjaverslunar ríkisins og framtíð starfsmanna hennar verður að linna með því að Alþingi vísi málinu aftur til föðurhúsanna. Því leggja undirritaðir nefndarmenn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem vert er að ræða af því sem fram kemur í þessu nál. og þá er fyrst að reyna að átta sig á því hvað er verið að gera með einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er alls ekki á móti einkavæðingu sem slíkri þar sem hún á við og ég tel að hún eigi við í þeim tilfellum þar sem ríkið er að vasast í ýmiss konar atvinnurekstri í samkeppni við aðila úti í þjóðfélaginu, atvinnurekstri sem ekki þjónar öllum almenningi í landinu og oft á rætur að rekja til ástands jafnvel allt aftur til kreppuáranna. Þannig var ég því fylgjandi að Síldarverksmiðjur ríkisins væru einkavæddar, þó með þeim fyrirvara auðvitað að að því yrði staðið á sómasamlegan hátt og að réttindi starfsmanna væru tryggð.
    Nú gildir það auðvitað um Síldarverksmiðjurnar eins og önnur þau fyrirtæki sem hafa verið til einkavæðingar að þessi málefni starfsmanna, það sem snýr að réttindum þeirra, eru einfaldlega óleyst og menn hefðu átt að reyna að komast að einhverri niðurstöðu í þeim málum í stað þess að halda svona áfram, reyna annaðhvort að ná samningum, sem hefði verið það besta, eða bíða niðurstöðu dómstóla.
    Varðandi Lyfjaverslun ríkisins, þá er hún fyrirtæki sem er þarna alveg á mörkunum. Lyfjaverslunin er vissulega í samkeppni við fyrirtæki á lyfjamarkaði og í lyfjaframleiðslu en þar við bætist, og það skiptir auðvitað verulegu máli, að Lyfjaverslunin og hennar starfsemi snertir mjög almannahag og ekki síst hag ríkisins vegna þess hvað ríkið er stór lyfjakaupandi í landinu. Þar af leiðandi er það spurning hvort ríkið á ekki að veita aðhald í þeim efnum. Auðvitað er hægt að koma þeim málum fyrir með öðrum hætti og í rauninni finnst mér vega þyngra í minni afstöðu þessi starfsmannamál, þessi tími sem nú er verið að velja til einkavæðingar og sú óvissa sem fram undan er í þessum málum. Þegar við horfum hér upp á vaxandi atvinnuleysi þá er ólíðandi að standa þannig að málum að vera að rýra kjör fólks því að það er alveg ljóst að gangi þessi áform í gegn og hluti starfsmanna Lyfjaverslunar ríkisins þurfi að gerast félagar í Iðju og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem einkum hafa verið nefnd í þessu samhengi, þá þýðir það auðvitað breytingu á kjörum rétt eins og gerðist hjá starfsmönnum Strætisvagna Reykjavíkur og ég get ekki staðið að því að rýra kjör láglaunastétta eða láglaunahópa hér í landinu.
    Það er kannski stórt fullyrt í þessu nál. um það að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi verið afhentar á silfurfati en það er mál sem þarf að skoða mjög rækilega. Ég er að koma beint á þennan fund af fundi fjárln. þar sem menn sitja yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins og þar hafa menn verið að mæta sem unnu að framkvæmd þessa máls og eru auðvitað að reyna að verja sinn hag. Það er alltaf spurning hvernig menn standa að verðmætamati á þessum ríkisfyrirtækjum og hvernig að verki er staðið, en sú reynsla sem við höfum fengið af sölu Síldarverksmiðjanna segir okkur það að nú á að hægja á, nú eigum við að skoða okkar gang. Og mín stóra spurning til hæstv. fjmrh. er sú, ef svo skyldi nú fara að þetta frv. yrði afgreitt hér á hinu háa Alþingi, hvernig hefur hann hugsað sér að standa að þessum breytingum á Lyfjaversluninni? Það er greinilegt af gangi mála hjá SR-mjöli hve gríðarlega nauðsynlegt það er að standa þarna vel að verki.
    Á fundi fjárln. í morgun kom fram hjá Hreini Loftssyni að í öðrum tilvikum þar sem um einkavæðingu hefur verið að ræða hefur í rauninni verið staðið eins að því að fá aðeins einn aðila til að meta verðmæti þessara fyrirtækja og það hafa ekki orðið eftirmál í öðrum tilvikum en þessum með Síldarverksmiðjurnar. Náttúrlega kom einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar ekkert að breytingunni á Strætisvögnum Reykjavíkur. Hins vegar kom að því máli einn af frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjavík, og hefur reyndar verið mjög til umræðu, en það dæmi er líka önnur hörmungarsaga í þessum efnum. Og allt bendir þetta til þess að hér þurfi að staldra við.
    Svo að ég gleymi ekki þeim punkti, þá vakti það nokkra furðu hjá félögum mínum í efh.- og viðskn. og kom fram í 2. umr. um þetta mál að ég hefði verið beitt miklum flokksaga í mínum þingflokki, snúið upp á hendur og ég veit ekki hvað og hvað, en það er algjörlega fjarri sanni að nokkrum slíkum þrýstingi hafi verið beitt. Ég var afar tvístígandi varðandi þetta mál. En ég get sagt sem svo að flokksaginn mætti stundum vera meiri ef eitthvað er, en því fer fjarri og allar fullyrðingar í þá veru eru algjörlega út í hött. Það orkar margt tvímælis í þessar einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Fyrirtækin eru misjöfn. Ég vil benda á það að í fyrra þegar við vorum að ræða hér um Áburðarverksmiðju ríkisins, þá var ég tilbúin til að standa að þeirri breytingu sem þar var fram undan að öðru leyti en því að þar var um EES-mál að ræða og ég gerði athugasemdir varðandi þann þátt. En í mínum huga er Áburðarverksmiðja ríkisins dæmi um rekstur sem ríkið á ekkert endilega að vera í. Í rauninni ætti sú verksmiðja, ef eitthvað er, að vera í félagseign bænda og vera þeirra fyrirtæki eins og hún reyndar var á sínum tíma. En varðandi hana gildir það sama að málefni starfsmanna eru óleyst. Þar, eins og reyndar í fleirum af þessum ríkisfyrirtækjum sem hafa verið einkavædd, hefur starfsfólki fækkað mjög mikið. En það er sama sagan, fulltrúar starfsmanna sem eru í BHMR og komu á fund landbn. héldu þessu sama fram að þarna væri verið að leggja út í stjórnarskrárbrot, að breytingarnar feli í sér stjórnarskrárbrot og þar af leiðandi kann sú breyting, ef af verður, líka að kalla málaferli yfir ríkið ef það mál sem BSRB er að fara út í verður ekki eins konar prófmál í þessu dæmi öllu saman.
    Að mínum dómi mælir mjög margt með því að þessu máli verði frestað og það verði einfaldlega hætt við þessi áform að sinni. Ég sé ekki hvað liggur á eða hvers vegna í ósköpunum má ekki fresta þessu meðan Alþingi hefur hér til umfjöllunar þetta alvarlega mál með Síldarverksmiðjur ríkisins sem við munum væntanlega ræða hér í næstu viku.
    Svo ég dragi þetta saman, ég sé ekki ástæðu til að vera með mjög langa umræðu hér að sinni. Það er búið að ræða þetta mál ítarlega og einkavæðingarmálin munu verða rædd hér áfram eins og ég nefndi áðan þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kemur til umræðu. En það eru þessi atriði, í fyrsta lagi það sem snýr að starfsmönnum, að það verði ekki farið að senda tugi starfsmanna út í óvissuna og að þeirra kjör verði ekki rýrð. Í öðru lagi, og það er mikilvægt, er þessi tímasetning sem við stöndum frammi fyrir og hvort þess megi vænta að breytingar á fyrirtækinu muni leiða til þess að það fáist fyrir það réttlátt verð. Við getum auðvitað spurt okkur: Hvað er verið að selja? Hvað er einhvers virði í þessu fyrirtæki? Það væri ágætt að hæstv. fjmrh. skýrði það hér. Hvað er það í rauninni sem á að fara að selja? Þetta fyrirtæki er ekki það stærsta hér á markaði. Það eru tvö önnur lyfjaframleiðslufyrirtæki sem hafa mun stærri markaðshlutdeild. Og sú sérstaða sem Lyfjaverslunin hefur haft varðandi dreifbýlið, það er ekkert sem segir að aðrir geti ekki tekið upp framleiðslu á þeim lyfjum og vonandi flyst sú framleiðsla ekki út úr landinu við þessa breytingu á Lyfjaversluninni. Ég veit reyndar ekki hvort sú framleiðsla út af fyrir sig telst vera hagkvæm.
    Öryggishlutverkið. Það er ekkert sem segir að það öryggishlutverk sem Lyfjaverslun ríkisins hefur gegnt verði áfram hjá þessu fyrirtæki. Ríkið getur samið við aðra um að gegna því öryggishlutverki ef þannig vill verkast þannig að spurningin er: Hvers virði er þetta fyrirtæki í raun og veru? Hvað er verið að selja ef horft er frá þeim beinu eignum sem fyrirtækið á, þ.e. húseignir, tæki og annað slíkt?
    Síðast en ekki síst er það þetta mikla atriði og mikilvæga, hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Ég lýsi því hér sem minni skoðun að ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til þess að standa að frekari einkavæðingu. Ég tel að við hér á hinu háa Alþingi verðum að stöðva þetta. Við verðum að stöðva það að eignir almennings séu afhentar og að í kjölfarið fylgi endalaus málaferli og deilur. Við eigum að komast að samkomulagi um það hvernig Alþingi --- sem er hinn rétti aðili til þess að ákveða það hvernig að málum skuli staðið --- við þurfum að komast að góðu samkomulagi um þessi mál. En atburðir síðustu vikna hafa ýtt undir þá skoðun og þá sannfæringu mína að þessi einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar, sem reyndar hefur meira og minna mistekist og sem auðvitað hefur komið fram í fjárlögum undanfarinna ára þar sem átti að ná inn stórum upphæðum sem alls ekki hafa skilað sér, þessi áform eru óraunsæ. Það hefur verið illa að þeim staðið og þess vegna á að hætta þessu. Það eru mín lokaorð, virðulegi forseti, en ég mun ef ég sé ástæðu til, taka aftur til máls í þessari umræðu.