Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 11:51:00 (6813)


[11:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. eyddi nokkrum hluta ræðu sinnar í afstöðu Framsfl. í þessu máli og harmaði það að hann skyldi hafa stokkið frá borði með öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Ég lít reyndar ekki þannig á málið. Framsfl. taldi að það skipti verulegu máli að ná fram þeim breytingum sem voru gerðar á frv. í meðferð nefndar. Það var Framsfl. sem hafði frumkvæði að því að ná þeim breytingum og því samkomulagi sem endaði með því að allir nefndarmenn skrifuðu undir. Nú er ég ekkert að gagnrýna það að fulltrúar tveggja flokka kusu að breyta sinni afstöðu. Þeir hafa sínar ástæður til þess. En eins og ég sagði þá hafði Framsfl. frumkvæði að því að ná þessu fram og ég tel afar mikilvægt að hafa náð því þarna inn að það yrði ekki seldur nema helmingur hlutabréfa í fyrirtækinu öðruvísi heldur en Alþingi fjallaði um það.
    Við 2. umr. um sölu á Áburðarverksmiðju ríkisins fór ég fram á það að það mál yrði tekið fyrir milli 2. og 3. umr. og skoðað hvort ekki væri hægt að ná þar samstöðu um sams konar ákvæði.
    Þannig að þetta eru hin efnislegu rök fyrir afstöðu Framsfl. í þessu máli og ég tel að þau séu í raun mjög gild og þýðingarmikil í þeirri umræðu sem nú fer fram um sölu ríkisfyrirtækja.