Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 11:57:00 (6816)


[11:57]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg viss um að þegar hv. þm. les svarið sitt þá sér hann að það er pínulítill misskilningur í því vegna þess að það mál sem hér um ræðir snertir grundvallaratriði. Þetta mál liggur þannig . . .   (Gripið fram í.) Já, það snertir grundvallaratriði við sölu ríkisfyrirtækja. Það gerir það með þeim hætti, hv. þm., að það eru deilur um þetta mál og ævinlega þegar ríkisfyrirtæki eru seld, og þannig hefur það verið áður, þá fara af stað málaferli þegar um er að ræða réttarstöðu starfsmanna, biðlaun eða lífeyrisrétt. Ég tel að það sé skynsamlegt og sjálfsagt, sjálfsögð virðing og lágmarksvirðing og tillitssemi við verkalýðshreyfinguna í landinu að semja um svona mál í heild, ekki frá fyrirtæki til fyrirtækis heldur í heild. Auðvitað þarf að vera leið til þess að einkavæða fyrirtæki, það segir sig alveg sjálft, alveg eins og það á að vera hægt að breyta fyrirtækjum úr einkarekstri í einhvern annan rekstur þá á að vera hægt að einkavæða fyrirtæki. En það þarf að vera sátt um aðferðina við opinbera starfsmenn í þessu tilviki og aðra verkalýðshreyfingarmenn í öðrum tilvikum. Mér finnst það satt að segja algjörlega fráleitt, sem ég get rökstutt við síðara tækifæri en ætla ekki að gera úr þessum ræðustól að sinni af því að hv. þm. hefur lokið sínum andsvarsrétti, en mér finnst það algjörlega út í hött að bera saman annars vegar matarskattinn og afstöðuna til hans og hins vegar þessi grundvallarmannréttindi sem þarna er um að ræða.