Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:01:00 (6818)


[12:00]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Mér fundust það satt að segja mikil tíðindi, sem hann sagði frá í sínu andsvari, að aðstöðugjaldið --- var það ekki lagt af um síðustu áramót? ( Gripið fram í: Næstsíðustu áramót.) Næstsíðustu áramót, að það fór loksins núna út úr lyfjaverðinu í landinu. Það hefur sem sagt verið borgað aðstöðugjald í meðalaverði í landinu í nærri hálft annað ár þó að aðstöðugjaldið hafi verið lagt niður um næstsíðustu áramót. Þetta eru alveg ótrúleg tíðindi. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að upplýsa það.
    Í öðru lagi vil ég segja við hann að ég er viss um að verði hann heilbrrh. í mörg ár í viðbót, sem auðvitað getur út af fyrir sig orðið, eða a.m.k. fræðilegur möguleiki, þá muni hann einhvern tímann á því ferli sakna vinar í stað þar sem er Lyfjaverslun ríkisins, ef hún verður seld, til þess að hafa eftirlit með þessu kerfi. Ég er viss um að það er nauðsynlegt fyrir alla heilbrigðisráðherra að sjá inn í markaðinn, sjá inn í kerfið með því að eiga beina aðild að fyrirtæki eins og Lyfjaverslun ríkisins hefur verið. Þess vegna er það andstætt heilbrigðissjónarmiðum að mínu mati að selja Lyfjaverslunina vegna þess að það veikir eftirlitsmöguleika heilbrrh.