Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:24:00 (6820)

[12:24]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég ætlaði að bæta við mál mitt frá því áðan vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég vil aðeins nefna, ég kom ekki inn á það í minni framsöguræðu nema örstutt, þá brtt. sem samstaða náðist um í nefndinni og varðar það að ríkisstjórninni eru skorður settar varðandi sölu á hlutabréfum í Lyfjaverslun ríkisins. Ég vil láta þá skoðun koma hér fram að ég tek auðvitað undir það að þessi breyting felur í sér að ævintýri á borð við það --- eða á ég að segja harmleikur, það er spurning hvaða orð ég á að nota --- sem gerðist varðandi söluna á SR-mjöli, eða mistök, að þau ætti varla að eiga sér stað. Hitt er annað mál að ég held að gagnvart okkur þingmönnum þá sé því miður heldur lítið hald í þessu því eins og við vitum þá þarf ekki annað en það komi inn í 6. gr. fjárlaga heimild til fjmrh. um að selja afganginn af hlutabréfunum og við vitum auðvitað af fenginni reynslu að það er afar erfitt að breyta slíkum ákvæðum þó við gætum auðvitað lagst í miklar umræður um þau mál.
    Ég þykist vita að hæstv. fjmrh. ætli að svara ýmsu því sem til hans hefur verið beint og ég vil þá bæta spurningu við það sem ég kom að áðan og varðar það hvernig hann hefur hugsað sér að standa að framkvæmd þessa máls. Þá vil ég nefna það að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins er það gagnrýnt mjög harðlega að einungis skuli hafa verið leitað til eins aðila við mat á verði fyrirtækisins. Ég nefndi það hér áðan að þannig hefur verið staðið að málum varðandi hin einkavæðingaráformin eða það sem hefur verið gert í einkavæðingarmálum en þetta telur Ríkisendurskoðun mjög aðfinnsluvert. Mig langar að biðja hæstv. fjmrh. um hans álit á þessu, hvort hann telji að það sé hægt að standa að þessu með öðrum hætti þannig að fleiri komi að mati á verði hlutabréfa sem á að selja.
    Mig langar líka til að spyrja hann varðandi kostnaðinn við þessa einkavæðingu, því það kemur fram í skýrslunni að VÍB, sem tók endanlega að sér verkið, var með tilboð upp á 11,4 millj. kr. Þetta fyrirtæki, sem er náttúrlega tengt Íslandsbanka, er eign Íslandsbanka, fékk greiddar 11,4 millj. fyrir að vinna þetta verk. Ef menn færu út í það eða yrðu við þeirri athugasemd Ríkisendurskoðunar að láta fleiri aðila meta verð hlutabréfa þá liggur í augum uppi að þetta er auðvitað gríðarlegur kostnaður. Og þegar við erum í þessu tilviki að tala um sölu hlutabréfa upp á ekki mörg hundruð millj. alla vega þá er auðvitað spurningin hvað er vert að leggja í mikinn kostnað við einkavæðinguna. Mig langar sem sagt að biðja hæstv. fjmrh. að velta því fyrir sér hvað hann sér fyrir sér varðandi kostnaðinn við þessa einkavæðingu.
    Þetta eru mjög mikilvæg mál. Það er mjög mikilvægt að verði af frekari einkavæðingu þá verði öll vinnubrögð í þeim efnum bætt og það endurtaki sig ekki það sem náttúrlega hefur verið gert að umtalsefni í morgun, þessi læti öll í kringum söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins, sem auðvitað varða það að aðilar sem hugðust gera þar tilboð töldu að sér væri mismunað og að allt of skammur tími hefði gefist í þessi mál. Ég vil líka vekja athygli á því að þar, eins og annars staðar þar sem einkavæðingin hefur komið við sögu, eru starfsmannamálin í óvissu og einnig þar er málshöfðun fyrir hendi. Það er nú illa af stað farið ef þessi einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar enda í því að verða paradís fyrir lögfræðinga og málafærslumenn í landinu.