Lyfjaverslun ríkisins

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 12:28:02 (6821)


[12:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :

    Hæstv. forseti. Ég mun leitast við að svara nokkrum þeirra fyrirspurna sem til mín hefur verið beint og ræða örlítið um þau atriði sem hafa verið í þessari 3. umr. Reyndar hafa fjölmörg atriði sem hafa komið fram í umræðunni einnig verið rædd við 2. umr. málsins enda hefur málið verið rætt allítarlega hér á hinu háa Alþingi.
    Varðandi þá nýju stöðu sem komin er upp í afstöðu einstakra manna og flokka til málsins þá er það mín skoðun að ekkert það hafi gerst sem í raun réttlætir afstöðubreytingu hv. þingmanna í efh.- og viðskn. Það er mín skoðun og ég hef ekki heyrt nein sannfærandi rök fyrir því að ástæða hafi verið til þess að breyta um afstöðu til málsins vegna atvika sem orðið hafa frá því að undir nál. var ritað hinn 2. mars sl. og til dagsins í dag. Ég vil einnig benda á að í hinu nýja nál., sem er nú komið fram við 3. umr. og er nál. minni hluta nefndarinnar, verður vart þeirrar skoðunar að nál. byggist á almennri andstöðu við einkavæðingu á samdráttartímum. Á þetta vil ég benda sérstaklega því slík yfirlýsing skýrir stefnu hv. þm. þegar hún felst í því að það sé rangt að efna til einkavæðingar og selja opinber fyrirtæki á samdráttartímum eins og sagt er, ég vil segja berum orðum, í nál.
    Það skýrir hins vegar almenna afstöðu til einkavæðingar og þá þarf ekki að rökstyðja með mörgum orðum hvers vegna afstaðan er á þessa leið. Það eitt nægir til þess að segja í einni setningu að aðilar séu á móti því að slíkar eignir séu seldar á slíkum tímum en í því felst veruleg breyting á afstöðu manna, t.d. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hefur sagt frá því að hann styðji einkavæðingu ef um sé að ræða samkeppni og hún sé til staðar.
    Menn hafa nokkuð rætt um samráð fjmrn. við BSRB sem byggðist á yfirlýsingu sem fjmrh. gaf um það leyti sem kjarasamningur var gerður milli fjmrn. og BSRB. Ég hef margoft fjallað um þetta mál við 2. umr. um málið. Það var skilningur beggja aðila að sá samráðsvettvangur og þær viðræður sem þar áttu sér stað áttu ekki að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir stjórnvalda. Reyndar er það tekið fram í textanum að það er ákvörðun stjórnvalda sem ræður á hverjum tíma hvaða fyrirtæki eru seld. Samráðsvettvangurinn var til þess að fjalla almennt um réttindi opinberra starfsmanna og samstarfið á þessum vettvangi hefur verið mjög gott, viðræður verið góðar og ýmislegt gagnlegt komið upp á borð sem er full ástæða til þess að halda áfram að ræða.
    Ef það hefði legið fyrir frá upphafi að BSRB hefði sagt: Við ætlum að efna til samráðs og það má ekki einkavæða fyrr en við höfum komist að sameiginlegri niðurstöðu, þá sjá allir að til slíks samráðs hefði ekki verið boðað af hálfu ríkisvaldsins. Þetta var báðum aðilum mjög skýrlega ljóst strax í upphafi.
    Það er hins vegar rétt, sem kemur fram í nál. minni hlutans, að þær viðræður eru í mjög góðum farvegi og fyrir því hef ég orð, m.a. formanns BSRB.
    Nokkuð hefur mönnum orðið tíðrætt um stjórnarskrárbrot og því hefur margoft verið svarað. Það eru mismunandi sjónarmið uppi, annars vegar af hálfu ríkisvaldsins og hins vegar af hálfu BSRB, hvað felist í biðlaunaréttinum. Ég hef rifjað það upp áður í umræðum um þetta mál að 1992 stóð til af hálfu ríkisvaldsins að breyta lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og sérstaklega með tilliti til þessa ákvæðis sem er löngu úrelt og átti einungis við þegar enginn samningsréttur var, enginn verkfallsréttur og opinberir starfsmenn voru tiltölulega miklu færri en þeir eru í dag.
    Það er þó alveg skýrt og það hefur ríkisvaldið aflað sér upplýsinga um af hálfu lögmanna að það er hægt að standa á því sjónarmiði og mjög auðvelt að þessi réttindi eru ekki réttindi sem mynda eign í skilningi stjórnarskrárinnar. Afstaða ríkisvaldsins er mjög skýr í því sambandi og þetta er ekki eign í sama skilningi og t.d. þau réttindi sem felast í lífeyrisréttindum fólks. Enda er auðvelt að sýna fram á það því sá aðili sem segir upp hjá opinberu fyrirtæki --- segjum bara nokkrum vikum áður en fyrirtækið er einkavætt eða því breytt í hlutafélag á engan rétt, á engan biðlaunarétt og hann færist ekkert með viðkomandi starfsmanni. Það væri út í hött að starfsmaður ríkisins sem á þennan biðlaunarétt verði á tvöföldum launum þó að fyrirtæki ríkisins sé breytt úr almennu fyrirtæki í hlutafélag.
    Þetta eru sjónarmið ríkisins. BSRB og samtök opinberra starfsmanna hafa aðra skoðun á þessu máli. Þau hafa ekki tekið undir sjónarmið ríkisvaldsins og málið getur farið á þann veg að úrskurða verði af hálfu íslenskra dómstóla. Það eru engin rök að geyma einkavæðingaráform aðeins vegna þessa. Það eru fjölmörg atriði sem geta komið upp í þessu máli eins og svo víða í þjóðfélaginu þegar um er að ræða slíkar breytingar. Þetta mál var rætt margoft við 2. umr. um frv.
    Þá hefur verið inn í 3. umr. blandað skýrslu um SR-mjöl. Ég vil segja frá því að eins og kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur þá er hv. fjárln. að ræða þessi mál einmitt núna. Hún er að ræða þessi mál vegna þess að nú liggja fyrir skýrslur annarra heldur en Ríkisendurskoðunar og ég vil láta það koma fram hér og nú að ég hef alvarlegar áhyggjur af því, mjög alvarlegar áhyggjur af því að skýrsla Ríkisendurskoðunar verði talin skýrsla sem því miður sé svo illa unnin að hún komi til með að skaða Ríkisendurskoðun stórkostlega. Ég hef kynnt mér þessi mál að sjálfsögðu og ég hef af þessu stórar áhyggjur. Því að okkur alþingismönnum er nauðsyn á því að geta treyst Ríkisendurskoðun þegar hún skoðar tiltekin mál.
    Það er ekki víst að allir alþingismenn viti það að Ríkisendurskoðun kom að málinu sem varðaði SR-mjöl. Ólafur Nilsson sem fór yfir og setti niður hugmyndir um það hvernig færa ætti upp efnahagsreikning fyrirtækisins gerði það í fullu samráði við Ríkisendurskoðun. Fjmrn. var óánægt með niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og Ólafs Nilssonar en eftir að ríkisskattstjóri hafði tekið á málinu sáum við ekki að við

ættum að halda málinu áfram. Áhyggjur fjmrn. beindust að því að við í fjmrn. töldum að með því að færa efnahagsreikninginn upp með þeim hætti sem þarna var gert væri hætta á því að ríkið í framtíðinni tapaði sköttum. Á þetta féllust ekki Ríkisendurskoðun, sem kom að þessu máli, né heldur ríkisskattstjóri. Þetta voru þau áhorfsmál sem voru uppi á milli fjmrn. annars vegar og sjútvrn. hins vegar. En það skal tekið fram að fulltrúi fjmrn. var hins vegar í söluhópnum.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um mínar áhyggjur af þessu máli en ég hef sagt hér og nú að ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um það hvort skýrsla um SR-mjöl sé afleit eða ekki en ég hef alvarlegar áhyggjur samt af þessari skýrslu vegna þess sem ég hef lesið af þeim svörum frá þeim aðilum sem hlut eiga að máli. Um þetta mál verður fjallað og er nauðsynlegt að fjalla áður en þingið fer heim. Mjög nauðsynlegt og ég tel það vera afar brýnt til þess að hreinsa þá menn sem sökum eru bornir í þessari skýrslu.
    Ég vil að það komi fram að styð brtt. þá sem meiri hluti nefndarinnar hefur flutt. Það er rétt sem á hefur verið bent að ég nefndi tvær dagsetningar, í júlí og september. Júlídagsetningin hefur orðið fyrir valinu, kannski m.a. vegna þess að hún kemur fram í öðru þingskjali sem varðar Áburðarverksmiðju ríkisins. Og það að taka gildi þýðir ekki að salan eigi að eiga sér stað á því augnabliki heldur að til hlutafélagsins sé stofnað.
    Hv. þm. Svavar Gestsson undraðist það að málið væri tekið fyrir nú á þessu stigi. Ég vona að ég brjóti engan trúnað og ég held að það sé ekkert leyndarmál en í gær ræddi ég við þá þingmenn sem hafa skipt um skoðun í málinu og skila sérnefndaráliti um það að taka málið ekki fyrir fyrr en í dag, klukkan hálfellefu, og um það var gott samkomulag hygg ég við þessa hv. þm. Sú er ástæðan fyrir að málið var tekið fyrir í dag. Ég tek það fram að undir nál. var ritað 2. mars, fyrir tveimur mánuðum, og ég skora á hv. þm. Svavar Gestsson að koma hér í ræðustól á eftir og benda mér á að annað mál sé til meðferðar í þinginu þar sem tveggja mánaða gamalt nál. liggur fyrir og svo undrist menn að málið skuli tekið fyrir. Það er þannig að sá sem hér stendur hefur margsinnis samþykkt að beðið sé um frest í málinu og hefur orðið við þeim óskum, ég hef meira að segja beðið eftir því að þingmaður hafi farið út af þinginu og komið aftur o.s.frv., af því að ég hef viljað hafa sem allra best samráð við þingmenn um framgöngu málsins á þinginu.
    Hv. þm. ræddi síðan heilmikið um SR-mjöl og ég vísa til þess sem ég hef sagt áður en sú umræða á eftir að fara fram. Ég tel að það eigi að nota verklagsreglur ríkisins eins og þær voru samþykktar í ríkisstjórninni á sínum tíma. Þær reglur eru ekki guðsorð eða boðorð sem eru óbreytanleg. Það þarf að líta á þessar verklagsreglur á hverjum tíma. En ég tel að þær séu þó það skásta sem til er til þess að fara eftir í málinu og auðvitað ber ríkisstjórninni að fara eftir sínum eigin hugmyndum.
    Það verður vandað til ráðgjafarinnar. Það er ekki neitt ákveðið á þessu stigi málsins um sölu fyrirtækisins og hvernig að því verður staðið. Varðandi framtíðartekjuvirði fyrirtækisins þá vil ég taka fram að í SR-mjöl málinu mun koma í ljós að það var leitað til fleiri en eins aðila í því sambandi. Það lágu fyrir hugmyndir frá fleiri en einum aðila. Mér finnst það sjálfsagt að menn reyni að glöggva sig sem allra best á framtíðartekjuvirði fyrirtækja eins og þeirra sem ríkið hyggst selja eða hefur verið að selja.
    Þá var spurt um hvort ég mundi gera skriflegan samning um söluþjónustuna. Það er alveg sjálfsagt að lýsa því yfir að það er einfalt að þeir sem munu standa að þessu máli geri skriflegan samning ef um söluþjónustu verður að ræða. En ég vil taka það fram, af því að þetta hefur verið gert að stóru máli í SR-mjöli, að ég er mjög hissa á skýrslu Ríkisendurskoðunar sem snertir þetta atriði. Það liggur fyrir tilboð frá tilteknum aðila og tilboðinu er tekið og það er gerð ein breyting á tilboðinu, þ.e. að þóknun er lækkuð úr 2% í 1,5%. Þannig að í raun er þetta skriflegur samningur. Alveg eins og hv. þm., sem sjálfsagt hefur staðið í íbúðarkaupum, veit að það er samþykkt að taka tilboðinu með pínulítilli breytingu. Það er skriflegur gerningur og liggur fyrir nánast sem skriflegur samningur. Öllum má því ljóst vera að þarna er verið að toga lítið atriði og gera það að stóru atriði og gera það ótrúverðugt þegar um SR-mjöl er að ræða. Þetta er skriflegt tilboð og því er breytt með því að taka töluna 2% niður í 1,5%. Það er allt og sumt sem gerðist í því máli.
    Það var einnig í skýrslu Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl fjallað um svokallaða útboðsskilmála. Því verður svarað og hefur sjálfsagt verið svarað í morgun í fjárln. um hvers konar ,,útboð`` var verið að tala.
    Hv. þm. ræddi um stjórnarskrárbrotið. Ég hef þegar rætt um það.
    Um lokamálslið 4. gr. hefur því verið svarað við 2. umr. til að mynda og reyndar einnig við 1. umr. málsins að það verði kappkostað og lagaskylda að tryggja samkeppni í greininni. Það þýðir m.a. að það er ekki hægt að selja stærstu fyrirtækjunum í þessari grein þetta tiltekna fyrirtæki.
    Það er líka eðlilegt að það sé fjmrh. sem leggi fram skýrsluna um birgðahaldið til þingsins enda er það hann sem ber ábyrgð á þessum lögum. Það mun hann gera í samráði við önnur ráðuneyti, eins og reyndar áður hefur verið svarað í 2. umr.
    Ég vil einnig taka það fram að haldinn hefur verið einn fundur, minn og formanns BSRB og formanns SFR, eftir að 2. umr. lauk og eftir að málið hafði verið rætt í nefnd og eftir að formaður BSRB hafði mætt á fund nefndarinnar. Á þeim fundi kom það fram að það er áhugi á því af hálfu formanns BSRB og formanns SFR að málinu verði frestað til haustsins. Það hefur komið fram og ég ætla ekkert að leyna því. En ég tel að það hafi ekkert efnislegt nýtt komið fram sem ætti að breyta ákvörðun ríkisstjórnarinnar í þessu efni og ég sagði þeim alveg umbúðalaust á þessum fundi sem haldinn var í þinghúsinu að ég gæti ekki orðið við þeim óskum. En sá fundur hefur verið haldinn og ég vil taka það fram að samstarf mitt við þessa aðila hefur ávallt verið mjög gott þótt auðvitað séu skoðanir skiptar á fjölmörgum atriðum eins og eðlilegt er.
    Ég held að ég hafi að flestu leyti a.m.k. reynt að svara fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég hef ekki getað rætt það, og get það ekki því það liggur ekkert fyrir um málið, í einstökum atriðum hvernig ég hugsa mér sölu fyrirtækisins. Þessi lagaheimild kemur og það fyrsta sem verður gert er að undirbúa stofnun hlutafélagsins og um söluna hefur ekki enn þá verið neitt ákveðið enda finnst mér það ekki vera viðeigandi að ég sé á þessu stigi málsins að ræða við einhverja aðila við að undirbúa sölu til ákveðinna aðila. Ég vil að það komi skýrt fram að um það hefur ekkert verið rætt við einn eða neinn og ég áskil mér þann rétt að það fari fram með þeim hætti sem ég tel vera best viðeigandi, með vönduðum hætti, og þá er ég tilbúinn til þess að sjálfsögðu að svara fyrir það hvernig það mun ganga fyrir sig á hinu háa Alþingi næsta haust ef sala fer fram áður en þingið kemur saman.
    Þetta vil ég að komi fram en á þessu stigi liggur ekkert fyrir um málið enda hef ég talið það óviðeigandi að vera að ræða við hugsanlega kaupendur um málið á meðan ég hef ekki þá lagaheimild sem ég þarf á að halda.
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þessi ræða mín skýri a.m.k. sumt af því sem um var beðið. Mér er það ljóst að ég get ekki svarað öllum fyrirspurnum út í hörgul en það er þá vegna þess að það liggja ekki fyrir upplýsingar eða ákvarðanir á þessu stigi málsins um þau atriði sem um var spurt.