Þingmennskuafsal Steingríms Hermannssonar

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:02:23 (6828)


[14:02]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Hæstvirtir ráðherrar. Háttvirtir þingmenn. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að gera athugasemdir við störf þingsins eins og oft er við slík tækifæri þegar menn tala í upphafi dagskrár. Þvert á móti. Nú þegar ég yfirgef þingsali kveð ég mér hljóðs til þess að lýsa mikilli ánægju með störf þingsins þegar á heildina er litið þau 23 ár sem ég hef verið í þessum virðulegu sölum.
    Vissulega er það svo að stundum hefur mér þótt þingmenn heldur skilningslitlir á þau ágætu mál sem ég hef viljað fá afgreidd og andstaðan stundum nokkuð hörð, en þegar ég lít til baka geri ég mér grein fyrir því að sú andstaða hefur eflaust verið byggð á jafngóðri sannfæringu og mitt fylgi við slík mál og reyndar er það ákaflega mikilvægt á hinu háa Alþingi speglist sem flest viðhorf sem eru í þjóðfélaginu. Þegar ég lít yfir þessi ár þá finnst mér að af miklum drengskap hafi verið staðið að málfærslu hér, hvort sem menn hafa verið mér fylgjandi eða andsnúnir og fyrir það er ég ákaflega þakklátur og bað um tækifæri að mega þakka fyrir það.
    Ég er, eins og þið eflaust vitið, alinn upp við skráargat stjórnmálanna og ég reyndar sannfærðist um það þá strax að stjórnmálin og þingstörfin eru með mikilvægustu störfum í þjóðfélaginu. Engu að síður var það nú með mig eins og svo marga unglinga að mér þótti ekki eftirsóknarvert að sækjast eftir stjórnmálastarfinu, en ég komst að því eftir að ég kom hingað inn og hef starfað þennan tíma að þingmannsstarfið er eitt hið mest krefjandi starf í þjóðfélaginu og ég hef sannfærst um það að þeir þingmenn, og það gera langflestir þingmenn sem sinna sínum störfum vel, bæði á þingi og í sínum kjördæmum, eru fróðari en aðrir um ástand atvinnuvega, þarfir fólksins og það sem hér þarf að gera til að bæta úr. Ég hef reyndar stundum sagt að ég tel að það sé á við mörg háskólapróf, meira að segja á við doktorspróf í hagfræði.
    En ég ætla nú ekki að ræða þetta lengur. Ég stend hér upp til að þakka og til að kveðja. Ég endurtek mínar þakkir til þingmanna fyrir ágætt samstarf og ég þakka starfsliði þingsins, en ég tek við öðru mikilvægu starfi 1. maí nk. og hef því ritað virðulegum forseta bréf þar sem ég afsala mér þingmennsku frá og með þeim sama degi.