Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:39:21 (6834)


[14:39]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég nefndi þetta dæmi varðandi hagamúsina til að undirstrika það sem ég sagði að í nál. meiri hlutans kæmu fram afar áköf friðunarsjónarmið. ( Gripið fram í: Er þetta í frv.?) Og ég nefndi það vegna þess að ég taldi að hér væri verið að ganga út í öfgar. Hér var kallað fram í: Er þetta ekki í frv.? Í 6. gr. frv. segir svo:
    ,,Villt dýr, önnur en mýs, rottur og minkar, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum`` o.s.frv., sem sagt í upphaflega frv. Það hefur verið stefna hæstv. umhvrh., (Gripið fram í.) eftir því sem ég hef skilið að blessuð músin mundi ekki njóta þessa friðarákvæðis sem hv. frammíkallandi hefur hins vegar beitt sér sérstaklega fyrir að yrði gert með þeim brtt. sem kynntar eru í nál. meiri hlutans.
    Ég endurtek það, án þess að þetta eigi að vera stór þáttur í efnisumræðu þessa mikla máls, er ekki verið að ganga út í öfgar og kunna að finnast önnur viðlíka dæmi þegar verið er að tína upp svona ákvæði og festa í lög, svo fráleitt sem það er að vera að friða hagamýs úti á túnum fullkomlega að ástæðulausu?