Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:43:02 (6836)

[14:43]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi ákvæðið með 50 metrana vil ég í fyrsta lagi benda hv. þm. á að akstur utan vega er bannaður og þess vegna er varla hægt að keyra mikið upp á fjöll nema þar sem eru vegir. Mjög víða erlendis er bannað að skjóta nær farartækjum en 250 metra. Auk þess fengum við fjölmargar ábendingar að því er þetta varðar. Nú hef ég ekki tíma til að skoða það núna en mig minnir að það hafi m.a. verið frá skotveiðimönnum sem við fengum þá ábendingu að það væri óeðlilegt að hafa þetta svona stutt því að það væri nánast hægt að skjóta úr bifreiðum, þetta er svo til rétt við. En það er algerlega bannað að elta dýr á vélknúnum farartækjum en auðvitað má keyra á milli veiðilenda eins og kemur fram í 9. gr. Þar er tekið sérstaklega fram að ekki megi nota vélknúið farartæki við veiðar. Og við tökum undir það en leggjum til að fjarlægðin sé 250 metrar.
    Ég tel að það sé afar óeðlilegt að heimila hlaðnar byssur nær farartækjum en 250 metra. Þeir sem

eru á ferð um vegi geta annars verið í hættu. En ég vil taka það fram að ég geri ekki ráð fyrir því að menn séu að brjóta lög um akstur utan vega.
    Varðandi viðurlög þá, eins og kemur fram í 20. gr. frv., fer eftir almennum hegningarlögum að því er varðar brot á þessum lögum sem og öðrum lögum.