Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 14:55:26 (6840)


[14:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kom held ég fleirum en mér á óvart þegar hv. talsmaður minni hluta umhvn. tilkynnti nefndinni það að hann mundi skila séráliti í málinu og hefði fyrirvara um brtt. rétt undir lok á afgreiðslu á málinu frá umhvn. Ég álasa engum það að ræða viðhorf og sjónarmið af því tagi sem fram koma í nál. hv. þm. Tómasar Olrich. Þau sjónarmið geta alveg átt rétt á sér eða a.m.k. verið fyllilega umræðunnar virði og hér er um álitaefni að ræða eins og raunar mátti heyra í máli þingmannsins En þegar ég fer að líta á það hvernig hv. þm. hélt á máli við 1. umr. þessa máls 9. mars 1992, þegar þetta frv. með þessum ákvæðum lá fyrir sem stjfrv., þá er alveg greinilegt að hv. þm. hefur alveg snúið við blaðinu því að í þeirri ræðu þingmannsins þegar hann lýsir almennum viðhorfum til frv. þennan nefnda dag í þinginu þá er ekki að finna stafkrók það ég fæ séð sem varðar það sjónarmið sem hann nú er farinn að túlka sem grundvallarsjónarmið. Hv. þm. hefur því fengið hugljómun, og það er auðvitað hans góði réttur í þessu máli, og tekið þetta sjónarmið upp jafnákveðið og það birtist í þessu minnihlutaáliti. Ályktunorð hv. þm. í lok málsins 9. mars 1992 voru, með leyfi forseta.:
    ,,Hins vegar sýnist mér að þegar þetta frv. fer til umfjöllunar í umhvn. sé rétt að skoða frv. í heild út frá því hvort þar felist of mikil miðstýring`` --- það ræðir þingmaðurinn nokkuð --- ,,en ég tel hins vegar ekki að þær athugasemdir sem hafa komið fram hrófli við frv. í grundvallaratriðum.``