Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 15:02:40 (6844)


[15:02]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðrum en hvölum sem er á þskj. 1055. Brtt. er flutt af meiri hluta umhvn. sem auk mín eru hv. þm. Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason, Tómas Ingi Olrich og Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Tillaga þessi er nær samhljóða þeirri breytingu sem umhvrh. óskaði eftir með bréfi til umhvn. 16. mars sl. að gerð yrði á frv. Kjarni brtt. er að fela Náttúrufræðistofnun Íslands þau verkefni sem veiðistjóra er ætlað að sinna samkvæmt frv. Fallið er frá þeirri leið sem sett er fram í 4. gr. frv. að setja á fót sérstaka stofnun á grundvelli embættis veiðistjóra til þess að annast stjórn á stofnstærð villtra fugla og villtra spendýra og rannsóknir á þessum dýrum.
    Meiri hluti umhvn. telur eðlilegra að fela Náttúrufræðistofnun Íslands þetta hlutverk í stað þess að byggja upp nýja stofnun við hlið Náttúrufræðistofnunar sem lögum samkvæmt skal stunda rannsóknir á náttúru landsins og leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruauðlinda, þar á meðal villtra dýra. Brtt. miðar því að aukinni hagræðingu og skilvirkara starfi jafnframt því að laga þessa nýju löggjöf um vernd og veiðar villtra dýra að gildandi lögum.
    Í 1. tölul. brtt. meiri hlutans er lagt til að 3. gr. frv. verði breytt á þann veg að í stað veiðistjóra tilnefni Fuglaverndarfélag Íslands fulltrúa í villidýranefnd, sem samkvæmt brtt. á þskj. 1053 mun heita ráðgjafarnefnd um villt dýr.
    Með frv. er verið að leggja til að lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 50/1966, verði felld að löggjöf um vernd og eftirlit með villtum dýrum og veiðar á þeim. Jafnframt er gert ráð fyrir að fuglaverndarnefnd, sem starfar samkvæmt lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun, verði lögð niður. Verulegur hluti

þeirra mála sem ráðgjafarnefndin um villt dýr kemur til með að fjalla um mun lúta að fuglaveiðum og fuglavernd og þess vegna þykir nauðsynlegt að Fuglaverndarfélag Íslands tilnefni fulltrúa í ráðgjafarnefndina.
    Þá er lagt til að 4. gr. frv. verði breytt á þann veg að í stað 1.--5. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar sem hljóði svo:
    ,,Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með og stjórnar þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum, sbr. VI. kafla laga þessara.
    Náttúrufræðistofnun Íslands leiðbeinir þeim sem stunda veiðar og aðrar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Stofnunin getur með leyfi ráðherra gerst aðili að rekstri hundabús til ræktunar og þjálfunar minkaveiðihunda.``
    Þær breytingar á frv. sem lagðar eru til í 3.--8. tölul. brtt. miða eingöngu að því að laga aðrar greinar frv. að þessum ákvæðum.
    Í 8. tölul. brtt. er lagt til að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að starfsemi embættis veiðistjóra haldist óbreytt til 1. jan. 1995. Þessi frestur þykir nauðsynlegar þar sem gert er ráð fyrir í 22. gr. frv. að lagastoð fyrir embætti veiðistjóra verði numin úr gildi 1. júlí 1994. Gefa þarf tíma til að laga þau verkefni sem nú eru unnin hjá veiðistjóraembættinu að starfsemi Náttúrufræðistofnunar og er þá einkum átt við umsjón með veiðum og rannsóknum á ref, mink og hreindýrum.
    Rannsóknir sem miða að því að meta ástand stofna, stofnstærð og veiðiþol þeirra er grundvöllur fyrir skynsamlegri nýtingu á dýrastofnum. Slíkar rannsóknir hafa verið í lágmarki hér á landi, enda höfum við verið langt á eftir nágrannaþjóðum hvað varðar eftirlit með stofnum dýra sem veitt er úr. Með frv. er verið að færa þessi mál til betri vegar. Þar er nú gert ráð fyrir því að stórefla veiðistjóraembættið, bæði sem rannsóknarstofnun og eftirlitsaðila með veiðum. Í 4. gr. frv. er t.d. verið að fela embætti veiðistjóra verkefni sem það hefur ekki í dag og hefur aldrei haft.
    Samkvæmt gildandi lögum á veiðistjóri að hafa umsjón með eyðingu þriggja dýrategunda, refs, minks og svartbaks og stjórna veiðum á hreindýrum. Samkvæmt frv. skal embættið hins vegar stunda hagnýtar rannsóknir á villtum fuglum og villtum spendýrum og annast stjórn á öllum aðgerðum af hálfu hins opinbera sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu þeirra og tjón af þeirra völdum. Hér er því um mjög mikla breytingu að ræða frá því sem nú er.
    Embætti veiðistjóra var stofnað með lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Í 2. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:
    ,,Veiðistjóri skal, svo sem kostur, er afla upplýsinga um refa- og minkastofninn og útbreiðslu hans í landinu, leiðbeina veiðimönnum er fást við eyðingu refa og minka, halda námskeið fyrir veiðimenn og skipuleggja aðgerðir á stærri svæðum, þegar nauðsyn þykir, og gera tilraunir með ný tæki og vinnsluaðferðir er líklegar þykja til þess að eyða dýrum þessum.``
    Í lögunum er hvorki ætlast til að veiðistjóri stundi miklar rannsóknir né hann stundi veiðar, enda eru þær samkvæmt lögunum á ábyrgð sveitarstjórna. Á vegum sveitarstjórna voru engar rannsóknir stundaðar fyrr en eftir 1985 að núverandi veiðistjóri tók við því embætti og þær hafa að mestu verið takmarkaðar við ref þar til á allra síðustu árum að rannsóknir á hreindýrum og aðferðum við að fækka mávi hafa komið til.
    Hreindýrarannsóknir veiðistjóra byggja á fyrri rannsóknum Náttúrufræðistofnunar. Kjarninn í starfsemi veiðistjóra allt frá árinu 1957 hefur verið leiðbeiningarstarf, skipulagning á veiðum og, þrátt fyrir ákvæði laganna, veiðar á ref og mink. Á síðustu árum hefur þó dregið úr veiðum á vegum embættisins og ferðum veiðistjóra um landið í leiðbeiningarskyni. Umsýsla reikninga og veiðiskýrslna vegna greiðslu ríkisins vegna minka- og refaveiða vegur þungt í starfsemi embættisins, enda eru starfsmenn þess fáir.
    Þá má nefna að með lögunum nr. 68/1969 var veiðistjóra falið að hafa eftirlit með loðdýrabúum sem hann gerði allt til ársins 1988. Með lögum nr. 50/1965 var veiðistjóra fengið það hlutverk að eyða svartbaki en litlu fé hefur verið varið til þessara mála á fjárlögum. Með reglum um hreindýraveiðar nr. 76/1992 var veiðistjóra í fyrsta skipti með skýrum hætti falið að stunda hagnýtar rannsóknir. Með lögunum nr. 47/1990 er ráðherra heimilt að fela veiðistjóra störf sem miða að stjórn á stærð villtra stofna. Á þessum grundvelli fól umhvrh. veiðistjóra á síðasta ári að rannsaka æðarfugl á Íslandi í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Til þessa verkefnis var ráðinn sérstakur maður tímabundið sem nú er á launaskrá Náttúrufræðistofnunar.
    Af þessu er ljóst að starfsemi veiðistjóra hefur verið á þröngu sviði þó á síðari árum hafi embættið verið að þróast æ meira inn á það verksvið sem Náttúrufræðistofnun Íslands er falið að sinna samkvæmt lögum nr. 60/1992. Að óbreyttu frv. yrðu hlutverk þessara stofnana að verulegu leyti þau sömu sem ekki getur verið æskilegt.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur áratuga reynslu af rannsóknum á dýrastofnum og hefur m.a. haft nær allar rannsóknir og stjórnun á fuglaveiðum á sinni hendi. Samkvæmt gildandi lögum stýrir stofnunin starfi fuglafriðunarnefndar sem er stjórnvöldum til ráðgjafar um öll mál er varða fuglaveiðar og fuglafriðun. Stofnunin hefur jafnframt ein leyfi til að láta merkja fugla í vísindalegum tilgangi og er gert ráð fyrir í frv. að svo verði áfram. Verði 4. gr. frv. óbreytt mun veiðistjóri hins vegar þurfa að annast fuglarannsóknir og stjórn á stofnstærð fugla og taka þar að verulegu leyti við því verkefni sem Náttúrufræðistofnun hefur haft. Í gildandi lögum er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruauðlinda, einnig að stofnunin beri að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla í samvinnu við embætti veiðistjóra.
    Í 4. gr. frv. er sagt að á vegum veiðistjóraembættisins skuli stundaðar hagnýtar rannsóknir á villtum dýrum í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands eftir því sem um semst á mili stofnana. Hvorki lögunum um Náttúrufræðistofnun né í frv. er kveðið á um hvernig þessari samvinnu skuli háttað. Það sem við blasir er því að tveimur stofnunum undir sama ráðuneyti er ætlað að sinna sams konar verkefnum. Í stað þess að byggja upp embætti veiðistjóra, eins og frv. leggur til, gengur brtt. sem ég mæli fyrir í þveröfuga átt: Að Náttúrufræðistofnun taki að sér þau verkefni sem veiðistjóra er ætlað sinna samkvæmt frv. Langflest þessara verkefna hefur Náttúrufræðistofnun nú þegar á hendi. Það sem bætist við er stjórnun aðgerða til að halda aftur af stofnstærð ákveðinna dýrastofna og sú aukna umsýsla sem útgáfa veiðikorta hefur í för með sér. Náttúrufræðistofnun mun því taka að sér það fræðslu- og leiðbeiningarhlutverk sem veiðistjóri hefur í dag. Ekki er ástæða til að byggja upp embætti veiðistjóra þegar önnur stofnun er til staðar í dag til að sinna því rannsóknarhlutverki sem veiðistjóra er ætlað í frv. Til þessara hluta rennur takmarkað fé og því er nauðsynlegt að nýta það vel í framtíðinni. Samkeppni stofnana um fé og skörun á starfssviði er ekki af hinu góða. Til lengri tíma litið er það tvímælalaust til mikillar hagræðingar að byggja upp eina stofnun í stað tveggja.
    Skynsamleg nýting villtra dýrastofna byggir á rannsóknum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sú rannsóknarstofnun heyrir undir umhvrn. og því eðlilegt að fela henni stjórnun á þeim aðgerðum sem ríkisvaldið grípur til í þeim tilgangi að hafa áhrif á veiðar og stofnstærð villtra dýra. Hér tengjast saman rannsóknir og stjórnun á veiðum eins og nauðsynlegt er. Stjórnun veiðanna er ekki í andstöðu við hlutverk Náttúrufræðistofnunar þó að slík stjórnun yrði nýlunda í starfsemi hennar, sérstaklega hvað varðar spendýr.
    Í ályktun Búnaðarfélagsins um þessa breytingu á 4. gr. frv., sem félagið hefur sent frá sér, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ekki er ástæða til að embætti veiðistjóra verði rannsóknarstofnun við hlið þeirrar sem fyrir er heldur ætti að kveða á um það í lögum að þeim stofnunum sem ætlað er að stunda náttúrufræðirannsóknir verði skylt að stunda rannsóknir á þeim dýrum sem valda tjóni þannig að embætti veiðistjóra geti síðan á grunni þeirra stundað leiðbeiningar, fækkun og hvernig best megi verjast tjóni sem villt dýr valda.``
    Hér kemur fram sama hugsun og í brtt. Hins vegar skilur á milli okkar og Búnaðarfélagsins í því að Búnaðarfélagið vill vista starfsemi veiðistjóra hjá félaginu og færa hana til fyrra horfs eins og hún var á meðan embættið starfaði á vegum Búnaðarfélagsins áður fyrr. Rökin fyrir að gera það ekki eru þrenns konar:
    Í fyrsta lagi er hagræðing af sameiningu stofnana. Í öðru lagi er æskilegt að veiðistjórnunin sem slík verði í sem nánustum tengslum við rannsóknir þannig að hvort hafi áhrif á annað. Í þriðja lagi gefa veiðiskýrslurnar, sem kveðið er á í 11. gr. frv., miklar upplýsingar um stofnstærð og dreifingu dýra um landið og hafa þannig áhrif á rannsóknir. Brtt. stefnir þannig að sama markmiði og Búnaðarfélagið vill ná en eftir ólíkum leiðum.
    Náttúrufræðistofnun Íslands er byggð upp með setrum sem hvert um sig hafa sjálfstæðan fjárhag. Heimilt er að hafa slík setur í hverjum landsfjórðungi, en í dag eru setur í Reykjavík og á Akureyri. Skv. 7. gr. laganna um Náttúrufræðistofnun er heimilt að deildaskipta setrum með reglugerð. Í brtt. er kveðið á um Náttúrufræðistofnun Íslands en ekki tiltekið nánar hvernig málum verður háttað innan stofnunarinnar. Eðlilegt þykir að ráðherra ákveði með reglugerð hvar og hvernig veiðistjórninni verði fyrir komið innan Náttúrufræðistofnunar. Óeðlilegt er að lögbinda slíkt en ákveða skipulag stofnunar að öðru leyti með reglugerð.
    Ráðherra hefur þegar ákveðið að embætti veiðistjóra verði flutt til Akureyrar. Ráðherra hefur einnig lýst því yfir að verði sú tillaga sem hér er til umræðu samþykkt mun starfsemi veiðistjóra verða sameinað setrinu á Akureyri. Í framhaldi af ákvörðun um flutning á embætti veiðistjóra, sem tilkynnt var í janúar sl., fól umhvrh. þeim Kristni Hauki Skarphéðinssyni líffræðingi og Sigurði Rúnari Sigurjónssyni viðskiptafræðingi að gera tillögur um hvernig þetta yrði best gert. Þeirra tillögur fela það í sér að stofnuð verði sérstök veiðideild við setrið á Akureyri sem annist það stjórnsýsluhlutverk sem veiðistjóra er ætlað samkvæmt frv. Samkvæmt þeirra tillögum felur þetta í sér:
    að annast þann ráðgjafarþátt sem veiðistjóra er ætlaður, t.d. varðandi hreindýr og hreindýraráð,
    að skipuleggja og bera ábyrgð á veiðum á þeim dýrum sem ríkisvaldið tekur þátt í að halda í skefjum og hafa umsjón með öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón af völdum þessara dýra,
    að leiðbeina almenningi, bændum og öðrum um aðferðir til að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra,
    að sjá um útgáfu veiðikorta,
    að taka saman upplýsingar um veiði og nytjar af þeim hlunnindum sem getið er í frv.,
    að gera tillögur um hvernig skuli verja arði af sölu veiðileyfa, þar með talið til hagnýtra rannsókna á þeim dýrum sem frv. fjallar um.
    Samkvæmt þeirri tillögu munu þær rannsóknir sem veiðistjóra er ætlað að stunda samkvæmt frv.

verða samræmdar öðrum rannsóknum Náttúrufræðistofnunar. Með því móti skapast betri forsendur fyrir heildstæðri rannsóknarstefnu og hámarksnýtingu á fé og mannafla.
    Í brtt. er gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun geti með leyfi ráðherra gerst aðili að rekstri hundabús til ræktunar minkahunda. Í 4. gr. frv. segir:
    ,,Veiðistjóraembættinu skal heimilt að reka hundabú til ræktunar og þjálfunar minkaveiðihunda.``
    Að okkar mati sem að þessari brtt. stöndum getur ríkið komið að rekstri hundabús með margvíslegum hætti. Ekki þykir sjálfsagt að ríkið reki hundabú en eðlilegt getur verið að það komi að slíkum rekstri með styrkjum eða annarri aðstoð við reksturinn ef það er talið nauðsynlegt. Við leggjum því til að ákvæðinu varðandi rekstur hundabú verði breytt eins og fram kemur í 2. tölul. brtt. okkar.
    Frá sjónarhóli ríkisins getur rekstur hundabús verið nauðsynlegur af tveim ástæðum, annars vegar þjálfunar hunda og kennslu við notkun þeirra og hins vegar til að tryggja góða veiðihunda og þar með árangursríkar veiðar. Þetta þýðir þó ekki að ríkið þurfi sjálft að reka hundabú heldur veiti einstaklingum og/eða sveitarfélögum fjárhagslega og annars konar aðstoð við rekstur búsins.
    Samkvæmt gildandi lögum og því frv. sem hér liggur fyrir ber sveitarfélögum að sjá um eyðingu á ref og mink og ráða til þess veiðimenn. Hundar á hundabúi veiðastjóra veiða nú um 40% af minki í landinu, mest á Suður- og Vesturlandi. Á það ber að leggja áherslu að þó að rekstrarform hundabúsins geti verið með margvíslegum hætti munu framlög ríkisins til þess áfram verða sjálfsagður hluti af heildarútgjöldum til eyðingar minks í landinu.