Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 16:43:19 (6863)


[16:43]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Sú ræða sem ég ætla að flytja fjallar heldur ekki um þessa brtt. sem hér hefur verið dreift. Hins vegar vil ég segja það að gefnu tilefni að það er í hæsta máta eðlilegt að gera þetta, enda var borið undir þingreynda menn hvort hér væri ekki rétt að málum staðið og það er svo, það er alveg klárt.
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu tekur á mörgum umdeildum málum. Það hefur legið fyrir þinginu einum þrisvar sinnum. Þetta er í þriðja skiptið og það er eðlilegt að um það sé deilt. Ég tel að hv. umhvn. hafi unnið mjög gott verk og lagt sig fram um það að ná samstöðu um meginatriðin í frv. Og ég tek eftir því að það kemur fram að um meginatriði frv. hefur tekist ágæt sátt.
    Þetta frv., virðulegi forseti, byggir á því grundvallarsjónarmiði að öll villt dýr önnur en mýs, rottur og minkar skuli njóta verndar og veiðar séu í raun aðeins heimilar til nytja ef viðkomandi stofn er talinn þola veiðar eða til þess að koma í veg fyrir tjón. Í frv. eru því sætt hin mismunandi sjónarmið verndarstefnu annars vegar og nytja hins vegar. Þetta er mjög í takt við þróunina annars staðar og tekur einnig mið af þeim alþjóðlegu samningum sem Ísland er aðili að.
    Vegna þess að fram hefur komið í þessari umræðu og í fjölmiðlum síðustu daga að skotveiðimenn til að mynda séu afar óánægðir með frv., í því sambandi hefur til að mynda verið drepið á veiðikortin sem fjallað er um í 11. gr. frv., þá vil ég, virðulegi forseti, nota tækifærið og rifja upp umsagnir Skotveiðifélags Íslands um frv. Í umsögn félagsins sem dags. er 14. apríl 1992 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Skotvíss lýsir stuðningi sínum við þá tilraun sem í frv. felst til þess að taka heildstætt á friðun, vernd og veiðum fugla og spendýra. Hluti þessa máls er veiðikortið sem reyndar er bráðum áratuga gömul tillaga Skotvíss.``
    Og í umsögn félagsins sem er dags. 31. mars 1993 segir, með leyfi forseta: ,,Við ítrekum umsögn okkar um téð frv. 14. apríl 1992.``
    Síðan segir á öðrum stað um 11. gr. sérstaklega, með leyfi forseta: ,,Stjórn Skotvíss telur að þær breytingar sem gerðar hafa verið á greininni frá því að frv. var lagt fram á síðasta þingi séu til bóta. Skotvís hefur lengi verið því fylgjandi að menn gangist undir hæfnispróf áður en þeir fá leyfi til veiða og allir sem veiðar stunda fái sér veiðikort. Einnig eru menn sammála því að fyrir kortið sé greitt sanngjarnt gjald, enda renni það til rannsókna á stofnum veiðidýra eins og segir í frv. Auknar rannsóknir á veiðidýrum og skráning veiðidýra er að okkar mati löngu tímabær.``
    Það er rétt að árétta að í þessum umsögnum Skotveiðifélags Íslands kemur ekki fram neinn grundvallarágreiningur við meginstefnuna í frv.
    Hér hefur eðlilega verið rætt talsvert um þá brtt. sem meiri hluti umhvn. hefur flutt og gengur út á það að sameina . . .  ( ÓRG: Nei, nei, rangt hjá ráðherranum.) ( Gripið fram í: Ekki meiri hlutinn.), sem fimm hv. þm. í umhvn. hafa flutt um að sameina embætti veiðistjóra Náttúrufræðistofnun Íslands. Þessi tillaga er flutt í kjölfar ákvörðunar um að flytja þetta embætti til Akureyrar og yfirlýsts vilja umhvrh. til að styrkja hið nýja setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri með því að fella undir það embætti veiðistjóra.
    Hv. þm. Jón Helgason, sem nú er horfinn af vettvangi, talaði um það að bréf sem barst frá ráðuneytinu til hv. umhvn. hefði komið m.a. stjórnarformanni Náttúrufræðistofnunar Íslands á óvart. Eigi að síður er það svo að þær tillögur sem þar koma fram eru unnar í samræmi við forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að það á ekki að koma stofnuninni á óvart. Ég vil hins vegar taka það fram, virðulegi forseti, að þó að þessar tvær ákvarðanir, annars vegar um að flytja embættið til Akureyrar og hins vegar að sameina starfsemi þess Náttúrufræðistofnun Íslands, setur þess á Akureyri, séu nátengdar þá standa þær ekki eða falla hvor með annarri. Brtt. sem er flutt af fimm hv. þm. í umhvn. gengur einungis út á það að sameina embætti veiðistjórans við Náttúrufræðistofnun Íslands þannig að jafnvel þó sú staða kæmi upp að hv. Alþingi féllist ekki á þessa tillögu þá stendur eftir sem áður óhögguð sú ákvörðun að flytja embætti veiðistjórans norður til Akureyrar.
    Virðulegi forseti. Það ætti ekki að koma nokkrum þingmanni á óvart að sá umhvrh. sem hér stendur hefur á því talsverðan áhuga að flytja stofnanir, sem til þess eru fallnar, út á landsbyggðina. Tilgangurinn með því er vitaskuld sá að styrkja þannig byggðir utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta ætti engum að koma á óvart. Ég hef lýst þessum áhuga mínum í fjölmiðlum og það er vel kunnugt að slíkir flutningar eru til skoðunar. Það er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, og raunar fleiri flokka en að henni standa, að flytja þjónustu og stofnanir hins opinbera eftir því sem á við út á landsbyggðina. Ákvörðun um flutning á embætti veiðistjóra er þess vegna byggðapólitísk ákvörðun, en hún er jafnframt byggð á því mati að staðsetning á embættinu utan Reykjavíkur getur með engu móti haft áhrif á störf og verkefni embættisins. Það er einfaldlega fráleitt að halda öðru fram og ég fullyrði það hér að engin stofnun sem ég þekki innan hins opinbera geira er jafn vel fallin til þess að verða vistuð á landsbyggðinni og einmitt embætti veiðistjóra. Nánast öll verkefni og störf veiðistjórans tengjast landsbyggðinni. Þær rannsóknir, sem vissulega eru mikilvægar eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. og ég tek undir það, sem hafa byggst upp á síðasta áratug lúta allar að landsbyggðinni. Ef slíka stofnun er ekki hægt að vista utan Reykjavíkur þá geta menn strax í dag hætt að velta því fyrir sér að flytja stofnanir frá Reykjavík og það er rétt að menn geri sér grein fyrir því.
    Virðulegi forseti. Á sl. hausti tók svo Náttúrufræðistofnun Íslands yfir Náttúrufræðistofnun Norðurlands samkvæmt sérstökum samningi og varð þá að sérstöku setri stofnunarinnar eins og er heimilað í lögum um hana. Mér gafst þá tækifæri til að skoða og kynna mér mjög rækilega starfsemi þessa nýja seturs. Ég komst að þeirri niðurstöðu að setrið væri veikt, í rauninni of veikt, og það lá í augum uppi að með því að flytja embætti veiðistjórans norður og sameina það setri Náttúrufræðistofnunarinnar á Akureyri væri kleift að gera tvennt í senn: Að flytja starfsemi í opinbera geiranum út á land en styrkja um leið verulega setrið á Akureyri og þar með starfsemi Náttúrufræðistofnunar í heild, styrkja náttúrufræðigeirann í landinu.
    Setrið á Akureyri er sérstakt að því leyti til að það hefur einungis örfáum starfsmönnum á að skipa og einungis á sviði grasafræði og jarðfræði. Þar er hins vegar ákaflega sterkur grunnur að því leyti til að mikla reynslu og þekkingu á sviði ákveðinna greina grasafræði er þar að finna og er á heimsmælikvarða. Þar er hins vegar enginn dýrafræðingur, hvorki fastráðinn né í tímabundnum verkefnum. Það veikir auðvitað setrið og starfsemi þess, þrengir möguleika til þess að sinna alhliða rannsóknum á náttúru. Með því að fella setrið og embætti veiðistjóra saman, eins og ég tel að væri æskilegt, þá er um leið búin til tiltölulega öflug rannsóknarstofnun á okkar íslensku vísu sem byggir yfir alhliða atgervi á sviði náttúruvísinda. Ég minni síðan á það, virðulegi forseti, að þegar ég fór á sínum tíma norður til Akureyrar til þess að taka formlega við hinu nýja setri fyrir hönd ríkisins þá lýsti ég því yfir að ég hygðist beita mér fljótlega fyrir rækilegri eflingu þess. Ég benti sérstaklega á þörfina á því að styrkja dýrafræðigeirann, koma fyrir dýrafræðingum við stofnunina, og ég stóð við það. Ég lýsti því yfir að höfðu samráði við ríkisstjórnina að ég hefði tekið ákvörðun um að flytja embætti veiðistjórans norður á Akureyri og í kjölfar þess að sameina starfsemi þess setri Náttúrufræðistofnunar á Akureyri ef Alþingi heimilar.
    Það er vert að undirstrika að þessi fyrirhugaði samruni er mjög rökréttur. Stofnanirnar báðar sinna rannsóknum á lífríki Íslands. Náttúrufræðistofnun á lögum samkvæmt að stunda grunnrannsóknir á náttúru Íslands. Hún á að sjá um skipulega söfnun heimilda um náttúru Íslands og er það meðal aðalverkefna hennar að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrlegra auðlinda en hún á jafnframt að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla í samræmi við embætti veiðistjóra. Þess vegna er ljóst, virðulegi forseti, að þarna er um að ræða tvær stofnanir undir sama ráðuneyti sem eru að vinna á mjög skyldum sviðum. Rannsóknahlutverk þeirra skarast þó að í praxís hafi verkefnaval til þessa verið mismunandi. Það er af þessum sökum, virðulegi forseti, sem ég tel mjög eðlilegt að sameina þessar tvær stofnanir.
    Ég ítreka það að nær öll verkefni embættis veiðistjóra lúta að landsbyggðinni og það er því rökrétt, ef menn ætla sér á annað borð að flytja stofnanir frá höfuðborgarsvæðinu og styrkja með því byggðir á landsbyggðinni, að einmitt þessi stofnun verði fyrir valinu. Það er alveg ljóst að staðsetning þessarar stofnunar mun í engu hamla vinnslu þeirra verkefna sem hún hefur með höndum. Það er alveg klárt. Það er borðleggjandi að það er engin önnur stofnun á Íslandi innan opinbera geirans sem hentar jafn vel til flutnings. ( ÓRG: Umhvrn.) Hún er að vinna á landsbyggðinni og næstum því öll hennar verkefni og rannsóknir eru á landsbyggðinni. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segir umhvrn. Ég veit að vísu ekki um afstöðu hans til þessa máls og flutnings stofnana almennt, en minnist þess að hann var formaður flutninganefndar árið 1974 sem vildi flytja 25 stofnanir út á landsbyggðina. Það fór að vísu engin. Það eru víða refir en refir eru tiltölulega fátíðir í Reykjavík nema kannski á einhverjum sérstökum stöðum.
    Hv. þm. Jón Helgason hafði efasemdir um að það væri kleift að stofna sérstaka deild innan setursins á Akureyri um þessa starfsemi. Nú er það ekki svo. Í 7. gr. laganna um Náttúrufræðistofnun Íslands er heimild til að deildaskipta setrum þannig að það er mjög vel hægt. Hv. þm. Jón Helgason taldi jafnframt að það hefði ekki verið unnið nægilega vel að undirbúningi framtíðarskipulags ef af þessu yrði. Það er nefnilega það. Hann las upp úr skýrslu og það var einmitt skýrsla tveggja sérfræðinga sem var falið að gera tillögur um hvernig ætti, ef af þessari sameiningu yrði, að sameina þessar tvær stofnanir og hvernig ætti innan þessarar sérstöku veiðideildar að leggja upp þá starfsemi sem embætti veiðistjóra hefur með höndum í dag. Og samkvæmt tillögum þessara tveggja heiðursmanna ætti veiðideildin að annast þann þátt ráðgjafar sem veiðistjóra er ætlaður, t.d. varðandi hreindýr og hreindýraráð, að skipuleggja og bera ábyrgð á veiðum á þeim dýrum sem ríkisvaldið tekur þátt í til að halda í skefjum og hafa umsjón með öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón af völdum þessara dýra. Jafnframt mundi veiðideildin sjá um að leiðbeina almenningi, bændum og öðrum um aðferðir til að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra. Enn fremur að sjá um útgáfu þeirra veiðikorta sem lagt er til að verði komið á fót samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Sömuleiðis ætti deildin að sjá um að taka saman upplýsingar um veiði og nytjar af þeim hlunnindum sem er getið um í frv. Enn fremur, sem er mikilvægt, að gera tillögur um hvernig skuli verja arði af sölu veiðikortanna, þar með talið til hagnýtra rannsókna á þeim dýrum sem frv. fjallar um.
    Það er alveg ljóst af þessu að samkvæmt þessum tillögum þá gera þær ráð fyrir verulegri styrkingu á setri Náttúrufræðistofnunar á Akureyri. Það er tilgangur minn. Það er alveg ljóst. En það er með engu móti hægt að segja að staðsetningin eða það að þetta verði að sérstakri deild innan setursins á Akureyri hamli með einhverju útfærslu þeirra verkefna sem stofnunin hefur með höndum.
    Við skulum ekki gleyma því að á síðustu árum hefur starfssvið þessara tveggja stofnana verið að falla æ meira saman að því leyti til að þær sinna báðar rannsóknum. Nú er það að vísu svo að samkvæmt lögunum um eyðingu refa og minka frá 1957 og öðrum lögum sem tengjast stofnuninni og verkefnum á hennar vegum, þá er ekkert getið um rannsóknir en svona hefur þetta þróast. Við vitum það líka að Náttúrufræðistofnun Íslands á að sinna rannsóknum á náttúru Íslands. Hún á líka að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruaðlinda þannig að þarna er um að ræða tvær stofnanir sem sinna svipuðum hlutum eins og einmitt er bent á í umsögn Búnaðarfélags Íslands. Þetta er því ekki jafnslæm tillaga og sumir virðast halda og kannski hafa menn einfaldlega ekki kynnt sér málið nógu vel.
    En ég ítreka það, virðulegi forseti, að þessar tvær hugmyndir, annars vegar að flytja embætti veiðistjóra norður og hins vegar að sameina það náttúrufræðisetrinu á Akureyri eru nátengdar en þær standa ekki og falla hvor með annarri. Það hefur verið tekin ákvörðun um að embættið verði flutt norður og það er alveg ljóst að sú staðsetning mun ekki hamla verkum embættisins. Og ef menn komast að þeirri niðurstöðu, virðulegi forseti, að það sé út í hött að flytja embætti veiðistjóra til Akureyrar þá er það bara tómt píp sem bæði stjórnarflokkarnir og ýmsir flokkar í stjórnarandstöðu hafa verið að tala um aftur og aftur árum saman, að það sé rétt á byggðapólitískum forsendum að flytja stofnanir sem til þess eru fallnar út á land. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt. Ég er höfuðborgarbúi, borinn hér og barnfæddur, en ég tel að það sé rétt að gera það. Landsbyggðin greiðir líka með sínum sköttum kostnaðinn við starfsemi þessara stofnana og það er eðlilegt að hún njóti líka þeirra jákvæðu ávinninga fyrir athafnalíf, margfeldisáhrifanna fyrir athafnalífið sem staðsetning slíkra stofnana getur haft í för með sér.
    Ég tel til að mynda af því að mér verður hér tíðrætt um Akureyri að það yrði óskaplega gott fyrir þann litla vísi, sem þó er ört stækkandi og er að verða þróttmikill, að akademísku umhverfi á Akureyri að fá einmitt svona stofnun til Akureyrar sem hefur yfir að ráða hæfum starfsmönnum, vel menntuðum, auk þess sem hún fellur vel inn í það stofnanaumhverfi sem þar er að verða til. Ég vil því biðja menn að íhuga þetta afskaplega vel og vandlega.
    Virðulegi forseti. Ég gaf forsetadæminu loforð um það að ljúka máli mínu stundvíslega kl. 5 og ég ætla að standa við það. Ég ætla mér ekki að ræða þá tillögu sem ekki er komin á dagskrá um selinn. En ég ætlaði mér hins vegar í minni ræðu að greina frá því að til þess að greiða fyrir þessu máli og vegna þess að mér eru ljósar þær miklu deilur um einmitt vistun sela þá ætlaði ég að greina frá því án þess að rökræða tillöguna að það hefur orðið að samkomulagi milli mín og sjútvrh. að leggja til að þetta mál verði tekið alveg út úr frv., það verði geymt og unnið að því í samráði þeirra ráðuneyta sem málinu tengjast í sumar til þess að reyna að finna flöt á farsælli lausn fyrir haustið.