Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

145. fundur
Föstudaginn 29. apríl 1994, kl. 17:04:17 (6867)




[17:04]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég fékk ekki tíma til að ræða allt sem ég vildi í fyrra andsvari við ræðu hæstv. ráðherra, en það var einmitt það atriði sem hann minntist á um flutning stofnana út á land og nefnd undir forustu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, sem vann á vegum forsrn. ef ég man rétt, og kom með ýmsar tillögur varðandi flutning stofnana út á land. Kvennalistinn átti fulltrúa í þeirri nefnd og það var ekki minnst á veiðistjóraembættið í því sambandi. Það var ekki minnst á það í skýrslu nefndarinnar ef ég man rétt. Það er hins vegar kannski aukaatriði í sjálfu sér en það sem skiptir máli er að vel sé vandað til ef flytja á stofnanir út á land og það var ekki gert í þessu tilviki. Fyrir utan að ekki er verið að tala um að flytja stofnun út á land heldur er verið að tala um að bæði flytja stofnun út á land og leggja hana niður um leið. Það finnst mér mjög sérkennilegt og get ekki skilið að það sé hægt að flytja stofnun út á land þegar á að leggja hana niður og rústa raunverulega embættið um leið. Ég er hins vegar ekkert að segja að ekki geti komið til greina að gera það en þá á að gera það þannig að vel sé vandað til verksins. Það var ekki gert í þessu tilviki.